Nína og Lorraine: Ástin, það er ástin

Í Kynvillta bókmenntahorninu er skrifað um hinsegin bókmenntir og hinseginleikann í bókmenntum — við lesum á skjön, skyggnumst út fyrir síðurnar og skoðum það sem býr á milli línanna. Umsjón: Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild: akb@hi.is.  

Birta B. Kjerúlf, BA-nemi í stjórnmálafræði og ritlist, skrifar um hómóerótík í ljóðum Nínu Bjarkar Árnadóttur.

Ljóðabókin Undarlegt er að spyrja mennina eftir Nínu Björk Árnadóttur kom út árið 1968 við góðar undirtektir. Ljóðin eru fáguð, mjúk og falleg. Einn undirkafli bókarinnar er titlaður „Til Lorraine“ og fjalla ljóðin í þeim kafla um samtal og samband tveggja kvenna. Það er nánast ómögulegt að líta fram hjá undirliggjandi rómantískum tilfinningum í ljóðunum og því vakna nokkrar spurningar: Hver er þessi Lorraine? Hvers eðlis er samband kvennanna í ljóðinu? Má halda því fram að í þeim sé undirliggjandi hómóerótík? Í þessari umfjöllun verður gerð einlæg atlaga að því að svara að þessum spurningum.

Lesbískt næmi og hómóerótík

Við hinsegin lestur skáldverka má beita greiningarhugtakinu lesbískt næmi til að greina undirliggjandi hómóerótík. Lillian Faderman (2017) kynnti hugtakið á tíunda áratug síðustu aldar en hún segir að lesbískt næmi sé til staðar í bókmenntum þegar lesendur finna sig knúna til að túlka verkið á hinsegin hátt. Þá sé tilfinning fólgin í verkinu sem kallar á að lesendur greini í því hinsegin sögulínur, persónur, tilfinningar eða upplifanir. Lesbíska næmið getur verið í verkinu fyrir tilviljun eða höfundur komið því þar fyrir af ásettu ráði. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort ásetningur höfundar skipti yfirhöfuð nokkru máli ef lesendur greina lesbískt næmi í bókmenntaverkum. Þetta er stærri spurning en hægt er að svara í stuttu máli hér og leiðir að umræðunni um dauða höfundar. Því verður ekki staldrað lengur við þessa vangaveltu en gott er að hafa þetta á bak við eyrað þegar hinsegin lestur og næmi er annars vegar.

Faderman leggur áherslu á að lesbískt næmi eigi sérstaklega við í þeim tilfellum þar sem bókmenntaverk fjalla ekki hreint út um kynferðislegar ástir kvenna – enda væri næmið þá augljóst. Auk þess segir Faderman ekki nauðsynlegt að höfundurinn sé lesbía til að textinn innihaldi lesbískt næmi, því túlkunin á textanum liggi hjá lesendum sem yfirfæra lesbískt sjónarhorn á textann. Það getur verið með öllu ótengt kynhneigð höfundarins. Þó má geta þess að stundum sé lesbíska næmið einkum sterkt í textum þeirra höfunda sem við vitum fyrir víst að eru eða voru lesbíur eða hinsegin að öðru leyti (Faderman 2017, 185). Faderman notar hugtakið til að víkka út skilgreininguna á lesbískum bókmenntum og notkun þess opnar á fleiri sjónarhorn til að greina bókmenntir út frá lesbískum (og enn fremur hinsegin) sjónarhornum. Verk sem fjalla ekki hreint út um kynferðisleg tengsl kvenna en fela í sér lesbískt næmi geta þannig talist til lesbískra bókmennta, t.d. verk um rómantíska ást og vináttu kvenna, táknræn verk sem fjalla um ástir kvenna undir rós og verk sem fjalla um gagnkynja og gagnkynhneigð regluveldi á gagnrýninn hátt (Faderman 2017, 186).

Lorraine – sú sem heimurinn bar ofurliði

Þrátt fyrir að ævisögulegar staðreyndir um höfundinn séu óþarfi þegar greina á lesbískt næmi í bókmenntatextum þá er vissulega ekkert sem bannar að grafa slíkar staðreyndir upp, eins og áður hefur kmið fram. Sé leitað að upplýsingum um skáldkonuna Nínu Björk Árnadóttur og ljóðabók hennar, Undarlegt er að spyrja mennina, á veraldarvefnum koma fljótt upp þónokkur viðtöl við hana og umfjallanir um ýmis verk hennar. Einnig má í dagblaðinu Vísi árið 1968 finna viðtal við aðra konu að nafni Lorraine Glemby, sem kom í heimsókn til Íslands haustið 1967. Þar segist hún hyggja á að heimsækja landið á ný, einkum til að hitta vini sína sem mörg hver voru ung skáld. Þeirra á meðal var Nína Björk en Lorraine segir í viðtalinu: „ […] henni hef ég kynnzt vel hér á Íslandi“ (Vísir 1968). Ljóst er að vinskapur kvennanna var náinn. Það kemur meðal annars fram í viðtali mörgum árum seinna þar sem Nína Björk tileinkar leikrit sitt, Fugl sem flaug á snúru, kærri vinkonu sinni „sem heimurinn bar ofurliði“ (Jóhann Hjálmarsson 1985) en Lorraine féll frá fimm árum áður en leikritið var sett á svið. Stutt kynning á leikritinu gefur til kynna að það sé áhugavert viðfangsefni hinsegin lestrar en fram kemur að það fjalli um unga ást sem erfitt er að tjá. Í öðru viðtali um leikritið játar Nína enn fremur: „Ég orti eitt sinn ljóð til [Lorraine] sem er í bók minni „Undarlegt er að spyrja mennina“ […]“ (Morgunblaðið 1985). Hér staðfestir Nína að Lorraine í bókinni er í raun Lorraine Glemby. Þannig má geta sér þess til að vinskapur kvennanna hafi skipt þær nokkru máli og auðvelt er að gera sér í hugarlund að samband þeirra hafi verið náið. Þessar upplýsingar eru til þess fallnar að magna upp lesbíska næmið sem greina má í ljóðunum sem Nína tileinkaði Lorraine í Undarlegt er að spyrja mennina.

Djúpstæðar og rómantískar tilfinningar

„Ljóð tileinkuð Lorraine“er yfirheitið á þriðja hluta ljóðabókar Nínu en engin ljóðanna í þeim hluta bera titil, ólíkt öðrum ljóðum í bókinni. Því er ekki fullljóst hvort ljóðin séu aðskilin eða skuli lesin sem ein heild. Greinilegur þráður liggur milli þeirra allra og í raun gefur ljóðmælandi í skyn í upphafi að þau skapi saman sögu: „Á svart lauf / skrifaði myrkrið eina sögu / lét svo laufið vera hjá mér / eina stund“ (Nína Björk Árnadóttir, 33). Laufið er sagan og stundin er ljóðakaflinn. Umfjöllunarefni sögunnar er borið upp strax á næstu síðu: „Og við sátum undir trénu tvær systur“ (Nína Björk Árnadóttir, 34). Hér birtist tréð sem laufið féll af og undir því sitja þær tvær, konurnar sem sagan er um. Þær sitja þétt saman og hvíslast á, mikil nánd er á milli þeirra. Valið á orðinu „systur“ til að lýsa stöllunum gefur misvísandi skilaboð um samband kvennanna; mögulega er orðið notað til að undirstrika nándina eða til að hylma yfir raunverulegar tilfinningar milli kvennana — heimurinn var ef til vill ekki tilbúinn fyrir nákvæmari yfirlýsingar um eðli sambandsins. Næstu línur gefa hins vegar til kynna að það liggi strengur milli kvennanna, ástarstrengur. Yfir höfði þeirra flýgur vængur dáins fugls og þær játa: „Ástin það er ástin“ (Nína Björk Árnadóttir, 34). Ástin svífur yfir þeim í formi dauðs fugls, sem getur ekki boðað gott, og sú hugsun leitar á að ást þeirra sé dauðadæmd. Það helst í hendur við upphaf kaflans — saga þeirra er stutt, einungis ein stund. Mikið er um náttúrulýsingar í ljóðunum sem gefur þeim blíða og kvenlega áferð. Samskipti kvennanna eru í fyrirrúmi og nándin milli þeirra er áþreifanleg. Ljóðmælandi lofar vinkonu sinni að gæta óska hennar, líkir þeim við bláfjólur sem hún tínir og kemur fyrir inni hjá sér (Nína Björk Árnadóttir, 35). Blómvöndur er falleg gjöf sem ástvinir skiptast gjarnan á og myndin af blómunum í glugganum rennir stoðum undir það að sambandið sé rómantískt eðlis.

Í síðasta ljóðinu til Lorraine ráðleggur ljóðmælandi ástkonu sinni að „ganga í fjörunni / og gleyma því sem mennirnir segja, hvernig þú eigir að lifa“ (Nína Björk Árnadóttir, 36). Vísunin í „mennina“ sem segja þeim hvernig þær eiga að lifa er í mikilli andstöðu við önnur ljóð í kaflanum. Blíðleikinn og kvenleikinn sem einkennir þau stangast á við karlmennskuna sem birtist í „mönnunum“ og ráðsmennskunni sem þeir virðast þvinga upp á konurnar. Ráðlegging ljóðmælandans að „gleyma því sem mennirnir segja“ gefur til kynna nánd og samkennd en konurnar deila greinilega reynslu af því hvernig kvaðir kvenleikans hafa áhrif á þær í lífinu. Línan gæti því verið feminísk hvatning til vinkonu en einnig má túlka hana sem hvatningu til að lifa lífinu eins og vinkonan vill lifa því, án þess að fylgja reglum annarra. Ljóðmælandi minnir hana á „að friðurinn / hann er til“ (Nína Björk Árnadóttir, 36). Friðurinn til að elska án hafta, til að sigra lífið og til að hvílast að lokum. Aðdáunin er augljós í lok ljóðsins, ljóðmælandi ber ómælda ást til vinkonu sinnar og greinilegt er að tilfinningarnar eru djúpstæðar, rómantískar. Lesbíska næmið blasir við í hverri einustu ljóðlínu ef við viljum sjá það.

Birta B. Kjerúlf, BA-nemi í stjórnmálafræði og ritlist.

Mynd efst á síðu: Lorraine Glemby, myndasería sem birtist með viðtali í Vísi 2. febrúar 1968.

Heimildir:

  • „80% af bandarískum „hippíum“ neyta eiturlyfja – segir Lorraine Glemby.“ 1968. Vísir, 1. febrúar.
  • Faderman, Lillian. 2017. „Hvað eru lesbískar bókmenntir? Nýtt hefðarveldi í mótun,“ þýð. María Helga Guðmundsdóttir. Ritið 17 (2): 179–193.
  • „Fugl sem flaug á snúru. Leikritið er um ástina.“ 1985. Morgunblaðið, 5. maí.
  • Jóhann Hjálmarsson. 1985. „Svart lauf. Leiklist.“ Morgunblaðið, 14. maí.
  • Nína Björk Árnadóttir. 1968. Undarlegt er að spyrja mennina. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
  • Skáld.is. „Nína Björk Árnadóttir.“. Sótt 22. febrúar 2023 af https://skald.is/skaldatal/243-nina-bjork-arnadottir