Kaldir pungar á Kanarí

Hádegisleikhús í Þjóðleikhúskjallaranum

Höfundur: Bjarni Jónsson
Leikstjóri: Gréta Kristín Ómarsdóttir
Leikarar: Guðrún S. Gísladóttir og Sigurður Sigurjónsson
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger
Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson

Ég varð afskaplega kát þegar ég sá á heimasíðu Þjóðleikhússins að þar yrði sett upp svokallað hádegisleikhús á þessu leikári, með styttri sýningartíma og mat. Þetta hljómaði fullkomið, 25 mínútna leiksýning, súpa og nýbakað brauð. Í Hádegisleikhúsinu verða frumsýnd fjögur ný íslensk verk sem valin voru úr innsendu efni í handritasamkeppni sem Þjóðleikhúsið hélt í samstarfi við RÚV. Verkin verða sýnd í hádeginu á virkum dögum, tekin upp og sýnd í Sunnudagsleikhúsi RÚV á næsta ári. Fyrsta verkið í Hádegisleikhúsinu nú í haust er Út að borða með Ester eftir Bjarna Jónsson.

„Stóllinn hans Jóa“

Út að borða með Ester fjallar um eldri borgarana Hauk og Ester sem hafa verið í tilhugalífi eftir að hún varð ekkja og hafa búið á Kanarí um skeið. Þessa dagana eru þau strand á Íslandi og fara saman út að borða í hádeginu. Á stefnumótinu sem við verðum vitni að verður svo uppgjör. Mér finnst alltaf gaman að sjá Sigurð Sigurjónsson sýna að hann getur leikið annað en gamanhlutverk, því þó verkið sé auglýst sem „drepfyndið nýtt verk” þá er eitthvað dapurlegt við það á köflum. Haukur hefur verið meðvirkur í sambandi þeirra Esterar, hann er þolinmæðin uppmáluð gagnvart henni og hefur augljóslega gert mjög mikið af málamiðlunum í þeirra sambandi. Þegar hann loks gerir uppreisn og reynir að ræða málin vill hún ekki kannast við að neitt sé athugavert við eigin hegðun, þó augljóst sé fyrir áhorfendum hvernig í hlutunum liggur. Á sviðinu er nefnilega aukastóll á móti þeim tveimur; stóllinn hans Jóa, látna eiginmanns Esterar. Jói er ástæðan fyrir því að Haukur má aldrei sitja á móti Ester og auður stóllinn sýnir þannig allt sem skilur þau að. Sigurði tekst ótrúlega vel að túlka manninn sem er alltaf í öðru sæti í lífi konunnar sem hann elskar, manninn sem alltaf er til staðar en hún sér bara sem einhvers konar staðgengil látins eiginmanns hennar. Á sama tíma er hann svolítill hrokagikkur sem er orðinn leiður á kyrrstöðunni í sambandinu og þessar tvær hliðar túlkar Sigurður listavel.

Guðrún Gísladóttir hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, kannski allar götur síðan hún lék í Dagur vonar árið 1988. Hún túlkar Ester sem pínu ráðvillta, eldri konu sem heldur sér vel og reynir að fylgjast með tímanum, en fortíðarþráin þvælist fyrir henni og hún á erfitt með að skilja eða útskýra hvað það er sem hún vill. Henni finnst kalt á Íslandi en klæðist samt gulu sumarfötunum, sem eru í stíl við Hauk. Hún þráir þorrablótin á Kanarí þegar Jói var á lífi en vill ekki sjá sviðasultu eða kalda hrútspunga, þar sem hún er jú orðin vegan – sem er alveg nýtt fyrir Hauki. Guðrún gerir Ester svo góð skil í nálgun sinni að einhvern veginn skín þessi kona í gegn á 25 mínútum; kona sem finnst lífið ekki vera alveg eins og það átti að verða og vill hvorki viðurkenna fyrir sjálfri sér né öðrum að kannski sé kominn tími til að leyfa Hauki að setjast í stólinn hans Jóa.

Listin að leika fyrir alla

Svið sýningarinnar er fyrir miðjum sal, á upphækkuðum ferköntuðum palli sem dekkar u.þ.b. dansgólf Kjallarans. Setið er allan hringinn í kringum sviðið. Þannig uppsetning er vandmeðfarin, því það er alltaf ein hlið sem er beint fyrir aftan leikarana og það þarf töluverða útsjónarsemi til að láta það virka fyrir alla áhorfendur. Á sviðinu er ekkert nema eitt lítið kringlótt borð og stólarnir þrír. Leikararnir tveir fá sér sæti í stólum hlið við hlið og hefja samræður sem stundum eru rofnar í tíma með beinu ávarpi til áhorfenda. Bæði Sigurður og Guðrún eru það reynd og góðir leikarar að þau gleymdu aldrei að beina orðum sínum til beggja hliða og fram, en uppsetningin gerði þeim erfitt um vik að snúa sér að þeim sem sátu fyrir aftan þau. Það fólk sá því meira og minna bara bakið á leikurunum. Fyrir utan þetta eru borðin fyrir áhorfendur líka hringborð og því alltaf einn við hvert borð á öllum hliðum sviðsins sem snýr hálfvegis baki að leikurunum líka. Þessi uppsetning dró aðeins úr ánægju minni með leikhúsferðina og ber svolítið merki um „því fleiri því betra” hugsun í markaðssetningu Þjóðleikhússins. Betur heppnuð var útfærslan á leikurunum sjálfum og skemmtilegt að klæða þau Hauk og Ester í sama lit. Bæði eru þau í gulum fötum í ýmsum tónum, hann í jakkafötum og hún í dragt og toppurinn hennar er líka gulur. Þetta litla atriði dregur íslensku þjóðarsálina dálítið fram og minnir á samstæða Henson galla, grísaveislur og olíuborna Íslendinga á Mallorca á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Það er óhætt að mæla með Út að borða með Ester og njóta leikhúss yfir hádegisverðinum. Verkið er heiðarlegt og skemmtilegt stuttverk sem reynir ekki að vera neitt annað en það er; mannlegt, hæfilega létt og umfram allt alveg sérlega íslenskt.

Um höfundinn
Hanna Kristín Steindórsdóttir

Hanna Kristín Steindórsdóttir

Hanna Kristín Steindórsdóttir er meistaranemi í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur lokið BA-gráðu í spænsku og íslensku frá Háskóla Íslands og starfar sem þýðandi á Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins.

[fblike]

Deila