Hundur í óskilum snýr aftur….

Ef það er rétt að hláturinn lengi lífið, held ég að meðalaldur áhorfenda í Borgarleikhúsinu, Nýja sviðinu, hafi hækkað umtalsvert á föstudaginn var. Þar frumsýndi “Hundur í óskilum” sína útgáfu og túlkun á sjálfri Njáls sögu.  Þessir “hvelpar tveir” eru Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson og það sem þeir geta verið fyndnir!

Endalaus sköpunargleði

Þórunn María Jónsdóttir sér um leikmynd og búninga. Leikmyndin er til margra hluta nytsamleg, einn heljarmikill hólmi er á sviðinu sem hægt er að hlaupa upp og ofan en þar sem hann er settur saman úr tveimur helmingum er hægt að opna hann og breyta í haug eða hof eða hvaðeina. Myndbönd Inga Bekk bættu svo við fallegri vídd í sviðsmyndina.

Í búningunum endurspeglast mikið hugarflug; frægur haddur Hallgerðar langbrókar er snúinn í fléttur og skreyttur með rósum og sameinar á undirfurðulegan hátt  spænskan höfuðbúnað hefðarkonu eða fléttur vafðar um höfuð konu eins og geislabaug. Hið síðara er nú ekki alveg að gera sig en Hallgerður/Hjörleifur hefur gert sitt besta. Bergþóra á Bergþórshvoli er komin langt fram úr henni í hár(kollu)tískunni og mér sýndist hún hallast að sautjándu aldar hártísku.

Elín S Gísladóttir vinnur leikgervin með Þórunni Maríu og þar sem persónur Njálu eru mörg hundruð manns og leikarar aðeins tveir þurfa mikil hamskipti að fara fram á sviðinu og það er leyst hugvitssamlega. Allt tekur hamskiptum. Vopn sem virðist vera Rimmugýgur reynist vera kontrabassi og bogi nokkur verður “helenuhristir” –  úr öllu gera þeir tónlist félagar eins og þeir eru þekktir fyrir úr fyrri sýningum og gera sér leik að vestrum og slögurum og klassík og salurinn klappaði og stappaði.

Ekkert hundavað….

Það er raunar ekki farið á neinu “hundavaði” yfir Njálu heldur er söguþræði þessarar miklu bókar fylgt í aðalatriðum, meðal annars til að rétta af kúrsinn eftir sýningu þeirrar „sirkus-Njálu“ sem áður hefur verið sýnd í Borgarleikhúsinu eins og Gunnar á Hlíðarenda er látinn segja.  Sessunaut mínum sem er afar vel kunnur Njálu var mjög skemmt yfir því “viðskiptatækifæri” sem bent var á í því að Njáll gerir Atla að frjálsum manni og stillir honum síðan upp þar sem hann veit að menn Hallgerðar munu drepa hann. Það er tvöfalt dýrara að drepa leysingja en þræl svo Njáll tapar ekki á því!

Eitt af sérkennum og einkennum Hunds í óskilum eru húmorískir og vel gerðir textar Hjörleifs sem tengdi haglega í rappútgáfu sína á Gunnarshólma og bætti um betur.

Og loks er það Ágústa Skúladóttir sem leikstýrir sýningunni og hennar aðalsmerki eru fjörugar, hugmyndaríkar og skemmtilegar sýningar sem kalla á gleði og hlátur áhorfenda.

Góða skemmtun!

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila