Hlaðvarp Engra stjarna: Greg Burris og kvikmyndir Palestínu

Í sautjánda hlaðvarpsþætti Engra stjarna er rætt við bandaríska kvikmyndafræðinginn Greg Burris en hann er deildarforseti fjölmiðlafræða við The American University of Beirut í Líbanon. Burris hefur birt víða, þ. á m. í tímaritum á borð við CineAction, Cinema Journal, Electronic Intifada, og Quarterly Review of Film and Video, og greinasöfnum á borð við Futures of Black Radicalism og Global Raciality: Empire, Post-Coloniality, De-Coloniality. Árið 2018 gaf hann út bókina The Palestinian Idea: Film, Media and the Radical Imagination í ritröðinni Insubordinate Spaces hjá Temple University.

Sérstök ástæða er til vísa áhugasömum á ritgerðina „Donald Trump: Lynchian Monster“ sem birtist í Bright Lights Film Journal árið 2019, en þar tengir Burris fyrrum forsetann við hina myrku ónotatilfinningu í verkum bandaríska leikstjórans David Lynch, og les Trump í raun sem skrímsli sem vel gæti hafa stigið beint út úr kvikmynd leikstjórans:

„Að mínu mati er Trump lifandi holdgervingur alls þess sem er ógnvænlegt í myrkum huga Davids Lynch – alræðisstrengurinn, ruddalegt kynferðið, ofgnóttin af ofbeldi, fordómafull viðhorfin sem sett eru á svið, eitraða karlmennskan, smábarnaleg bræðin […] og svo ber hann meira að segja klikkaða appelsínugula hárið hans Baron Harkonnen“.

Hin greinin sem ástæða er til að minnast á er „From Beirut to Iceland: Strife, Cinema, and Getting Unstuck“ sem birtist fyrr á þessu ári í Current Affairs. Þar lýsir Burris því hvernig hann notaðist meðal annars við íslenskar kvikmyndir til að vinna úr áfallinu sem fylgdi hafnarsprengingunni í Beirút árið 2019.

Í þættinum ræðir Björn Þór Vilhjálmsson við Greg Burris um framferði Ísrael á hernumdu svæðunum og vandasamt tilvistarástand Palestínumanna, og það hvernig þeim hefur engu að síður tekist að eignast þjóðarbíó – sem er kraftaverki líkast. Rætt er um pólitík og kvikmyndir, og Adam Curtis, Nicolas Winding Refn og Teddy Adorno koma við sögu ásamt fleirum. Þá afhjúpa Björn og Greg sínar fimm eftirlætis íslensku kvikmyndir.

Því til viðbótar var Greg Burris beðinn um að mæla með þremur palestínskum kvikmyndum sem gætu verið forvitnum íslenskum áhorfendum stökkpallur inn í þessa kvikmyndamenningu, sem og bókum sem upplýsandi eru um stöðu mála.

Kvikmyndirnar sem Burris mælir með eru þessar:

1. The Time That Remains – Elia Suleiman (2009)

 

2. Wajib – Annemarie Jacir (2017)

 

3. Ghost Hunting – Raed Andoni (2017)

Fyrir þá sem áhugasamir eru um að kynna sér ástandið í Palestínu og aðþrengd tilvistarkjör Palestínumanna mælir Greg Burris sérstaklega með þessum tveimur bókum: The Question of Palestine eftir Edward Said sem fyrst kom út árið 1979 og svo Justice for Some: Law and the Question of Palestine eftir Noura Erakat, sem kom út hjá Stanford háskóla árið 2019 (en titillinn ber með sér skýra tilvísun í verk Said).

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila