Leikritið Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal var frumsýnt í Borgarleikhúsinu sunnudagskvöldið 9. maí. Það var mikið hlegið og leikurum fagnað að leikslokum.
Tvö tímasvið
Leikritið gerist á tveimur tímasviðum, í fortíðinni, þar sem dóttirin Ella (Katla Njálsdóttir) elst upp hjá mömmu (Sólveigu Guðmundsdóttur) og pabba (Sveini Ólafi Gunnarssyni), og í nútíðinni þar sem Ella (Sólveig Guðmundsdóttir) býr með manni sínum (Sveini Ólafi Gunnarssyni) og Matthíasi syni sínum (Arnaldi Halldórssyni) og um tíma mömmu sinni (Kristbjörgu Kjeld). María Ellingssen leikur Áslaugu heilbrigðisstarfsmann og Rachel, ameríska vinkonu Ellu.
Skiptin milli tímasviða eru hröð og felast í einföldum búningaskiptingum fyrir opnu sviði. Leikmynd Egils Ingibergssonar er frumleg því hún er eins konar tímarými. Á tveimur yfirfylltum veggjum, veggfóðruðum með stórmynstruðu veggfóðri frá sjötta/sjöunda áratugnum, gefur að líta þjóðernisrómantísk landslagsmálverk og klukkur og klukkustrengi og smáhillur sem rúma inniskó, kaffikönnur og ýmislegt annað. Þar hanga líka skúlptúrar á vegg, notaðir síðar sem lambahryggir. Leikmunirnir verða þannig hluti leikmyndarinnar. Í húsinu búa fyrst foreldrar Ellu og síðar hún og maður hennar, nútímalegt hátekjufólk sem af einhverjum ástæðum velur að búa í þessari undarlegu búslóð foreldranna.
Faðir og dóttir, dóttir og móðir.
Í eldra hjónabandinu ríkir friður meðan mamma Ellu er heimavinnandi húsmóðir en pabbinn fyrirvinna fjölskyldunnar og æðsta vald í smáu sem stóru. Hann grunar ekki svo séð verði að eitthvað sé bogið við framkomu hans. Húsmóðirin er auðmjúkur þjónn karlrembunnar sem hún er gift en svo kynnist hún kvenfrelsissinnum, „í augsýn er þá frelsi“, hún byrjar að standa með sjálfri sér, rís upp gegn karlinum, hann segir bitur: Þú ert ekki konan sem ég giftist. Það er rétt hjá honum. Svo kveður hann dóttur sína, lætur sig hverfa og er þar með úr þessari sögu þangað til í blálokin.
Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson fóru vel með hlutverk sín sem þessi hjón en þau eru einhliða persónur og erfitt að vekja samúð með þeim, einkum honum, fyrr en skerst í odda. Í seinni hlutanum snúast hlutverk við, hún er fjarverandi og hvorki sér né heyrir aðra á meðan nútímapabbinn verður skýrari persóna í meðförum Sveins Ólafs. Katla Njálsdóttir fer mjög vel með hlutverk unglingsins sem togaður er milli ástar sinnar á hinum reiðu foreldrum og annar ungur og verðandi góðleikari er Arnaldur Halldórsson í hlutverki Matthíasar unglings í nútímahjónabandinu. María Ellingsen var í aukahlutverki sem ameríska vinkonan og heilsugæslustarfsmaðurinn, hvorugt hlutverkið var sérlega þakklátt.
Meira en tuttugu árum eftir að fyrri hlutinn gerist reynir faðirinn að ná sambandi við dótturina Ellu sem þá er orðin ofþrælkaður læknir sem annað hvort er í útkalli eða tölvunni eða að sinna manni, barni og afskaplega amasamri móður sinni sem gerir til hennar miklar og þversagnakenndar kröfur. Aldraður faðir hennar er leikinn af Sigurði Skúlasyni sem túlkar hann af næmi og snertir hjarta manns.
Ella hefur afneitað föðurnum vegna reiði móðurinnar en það stríðir gegn tilfinningum hennar og hana langar að vita hvað varð um hann og vekja aftur upp sambandið. Þetta kemur nokkuð skyndilega inn í verkið en verður óhjákvæmilega að uppgjöri milli mæðgnanna, álagið vex og verður of mikið fyrir Ellu sem fær taugaáfall.
Hin ótrúlega Kristbjörg Kjeld
Kristbjörg á salinn frá því hún kemur fyrst fram í seinni hluta verksins sem móðir Ellu. Hún er frábær leikari! Framsögnin er svo góð, tímasetning fullkomin, hún hefur vald á öllum blæbrigðum þess að segja það sem ekki er meint og kemur öllu til skila. Bæði því sem hún segir og því sem hún meinar, hvort sem hún er að hæðast að tengdasyninum eða hæla honum eða kúska dótturina til að taka hagsmuni veikrar móður sinnar fram yfir allt annað. Samleikur þeirra Sigurðar Skúlasonar var mjög skemmtilegur.
Kristbjörg lék gömlu móðurina af djúpu innsæi og markvissu skopskyni og salurinn elskaði hana. En hin hlutverkin voru ekki eins fyndin, bláþræðir augljósari og uppgjör þeirra mæðgna sem átti að verða harmrænt varð ekki sannfærandi.
Leiknum lauk hins vegar í sátt og samlyndi, í bili að minnsta kosti, og þetta var skemmtilegt kvöld, þess virði að leggja leið sína í Borgarleikhúsið fyrir það.
[fblike]
Deila