Orð ársins 2019: Hamfarahlýnun

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Steinþór Steingrímsson, verkefnisstjóri hjá sömu stofnun, skrifa um val á orði ársins 2019.

Nafnorðið hamfarahlýnun varð fyrir valinu sem orð ársins 2019 hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hvað ræður því vali?

Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er upplýsingum um málnotkun safnað allt árið. Fjölbreyttum textum úr ýmsum áttum er stöðugt bætt við svokallaða Risamálheild en þar er nú gífurlegt magn texta, rúmlega 1,4 milljarðar lesmálsorða úr nútímamáli.

Kallaðir voru fram þrír tíðnilistar úr Risamálheildinni: listi yfir ný orð árið 2019 sem aldrei hafa komið fram áður, listi yfir orð sem birtust tvöfalt oftar árið 2019 en öll fyrri ár til samans og listi yfir orð sem birtust að lágmarki sex sinnum árið 2019 en sjaldnar öll önnur ár.

Við val á orði ársins er unnið úr tíðnilistunum en þeir duga þó ekki einir og sér. Til að hafa eitthvað fram yfir önnur orð í vali á orði ársins þurfa orð að uppfylla einhver eða sem flest af eftirfarandi skilyrðum:

  • Þau segja okkur eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna.
  • Þau hafa möguleika á að lifa áfram í daglegri notkun eða sem minnisvarði um atburði sem áttu sér stað á árinu.
  • Þau eru lýsandi fyrir málnotkun, annaðhvort almennt eða á tilteknu sviði.
  • Þau eru ný í málinu eða eru gömul orð sem fengið hafa nýja merkingu.

Tíu orð voru valin úr listunum yfir þau orð sem uppfylltu þessi skilyrði en þegar tölfræðin var skoðuð var orðið hamfarahlýnun ótvíræður sigurvegari.

Hamfarahlýnun (no. kvk.)

Elsta þekkta dæmið um orðið hamfarahlýnun er í grein eftir Ara Trausta Guðmundsson jarðeðlisfræðing í Fréttablaðinu 1. júní 2013. Þar segir Ari Trausti: „Samkvæmt Umhverfisstofnun SÞ og Alþjóðabankanum má aðeins vinna lítinn hluta óunnins kolefnis eldsneytis ef komast á hjá hamfarahlýnun.“ Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra notar orðið mánuði síðar í grein í Fréttablaðinu þar sem hún fjallar um styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum.

Þó að fyrstu heimildir um orðið séu frá 2013 varð það ekki algengt í almennri umræðu um loftslagsmál fyrr en árið 2019. Það var áberandi í fjölmiðlaumræðu en var einnig mikið notað annars staðar, t.d. í umræðum á Alþingi.

Hamfarahlýnun er ekki fræðiorð eða svokallað íðorð. Það er frekar svokölluð augnablikssamsetning sem hefur fengið athygli og náð flugi. Orðið er gildishlaðið og lýsir ekki núverandi ástandi í loftlagsmálum en með forvörnum má komast hjá því að slík hlýnun verði með skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna og fólkið á jörðinni þegar fram líða stundir. Hnattræn hlýnun (e. global warming) er aftur á móti fræðilegt orð sem notað er um þá hækkun á meðalhitastigi sem mæld hefur verið á jörðinni síðan mælingar hófust.

Loftlagskvíði (kk.), flugskömm (kvk.) og flugviskubit (hk.)

Umræður um umhverfismál voru áberandi í fyrra og flugsamgöngur fengu líklega einna mestu athyglina í þeirri umræðu. Mikið var rætt um koltví­sýr­ingslosun flugvéla sem voru úthrópaðar sem mikill umhverfisskaðvaldur enda þótt ýmislegt fleira beri einnig ábyrgð á útblæstri koltvísýrings, s.s. framleiðsla á fatnaði. Í íslensku hefur orðið flugskömm stundum verið notað, en það er bein þýðing á sænska orðinu flygskam sem vísar til sektarkenndar flugfarþega yfir áhrifum flugferða á umhverfið. Algengari íslensk þýðing á sænska orðinu er flugviskubit en ekki eru allir ánægðir með þá orðmyndun [https://blogg.ordabokin.is/tag/ordaothol/] og benda á að samsetningin sé gölluð þar sem hvorki er til flugviskaviskubit. Það eru þó greinilega ekki allir sömu skoðunar og benda má á að í Nýyrðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum má finna annað orð myndað með sama hætti, þ.e. kjötviskubit sem myndað er á sama hátt og flugviskubit og vísar til samviskubits yfir að borða kjöt. Ekki finnast þó aðrar heimildir um það orð.

Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um umhverfisáhrif í daglegu lífi, s.s. hvað varðar einnota umbúðir og orkusóun. Loftlagsváin getur jafnvel gripið hugann og leitt til loftlagskvíða yfir ástandi jarðarinnar og því að mengun og loftslagsbreytingar muni gera hana illbyggilega í náinni framtíð.

Rafmagnshlaupahjól (hk.), rafhlaupahjól (hk.) og rafskúta (kvk.)

Á síðasta ári varð nýr fararmáti áberandi í umferðinni. Um er að ræða rafknúin hlaupahjól og enda þótt um sé að ræða vistvæn farartæki eru skiptar skoðanir um þau. Ýmsir telja að setja þurfi skýrari reglur um notkun þessara hjóla svo að þau valdi síður hættu eða truflunum fyrir aðra umferð.

Ekki er enn komið eitt ákveðið íslenskt orð yfir þessi farartæki. Heitin rafhlaupahjól og rafmagnshlaupahjól eru nánast jafnalgeng en þó finnast aðeins fleiri dæmi um fyrrnefnda orðið. Sumir vilja nota heitið rafskúta um þessi hjól og þá er seinni liður orðsins aðlagað tökuorð úr ensku (e. (electric) scooter. Heitið rafskúta er talsvert minna notað en hin tvö fyrrnefndu.

Með aukinni áherslu á vistvænar samgöngur hafa komið fram fleiri orð á þessu sviði, s.s. deilireiðhjól, deilihjól, deilihjólaleiga og rafhlaupahjólaleiga. Í fyrstu þremur orðunum hefur forliðnum deili– verið skeytt framan við en merking þess þar er sú sama og í orðinu deilihagkerfi, sem er það fyrirkomulag að margir deili vöru eða þjónustu og þannig aukist nýting og dragi úr útgjöldum. Í þessum tilvikum er þó raunverulega um nokkuð hefðbundna leigustarfsemi að ræða, að því undanskildu að tækin eru leigð og þeim skilað með snjallsímaforritum. Síðasta orðið segir svo aðeins það að um sé að ræða leigu á rafhlaupahjóli.

Skólaverkfall (hk.)

Orðið skólaverkfall var áberandi í fyrra og á við um það þegar tugþúsundir nemenda um allan heim tóku sig saman um að mæta ekki í skóla til þess að taka þátt í að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum. Með verkföllunum vilja nemendur hvetja leiðtoga heims og forsvarsmenn fyrirtækja til að standa við markmið svokallaðs Parísarsamnings í umhverfismálum.

Skólaverkfall er innblásið af sænska aðgerðarsinnanum Gretu Thunberg sem hefur haldið slíkt verkfall á hverjum föstudegi frá því í ágúst 2018.

Orðið loftslagsverkfall hefur einnig verið notað um þessi verkföll nemenda.

Skólaforðun (kvk.)

Með orðinu skólaforðun (e. school refusal) er átt við meðvitaða eða ómeðvitaða hegðun sem barn eða unglingur sýnir og birtist í erfiðleikum með að sækja skóla, hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma. Könnun Velferðarvaktarinnar leiddi í ljós að um 2,2% barna á grunnskólaaldri glími við skólaforðun. Skólastjórnendur nefna andlega vanlíðan nemenda eins og kvíða og þunglyndi og erfiðar aðstæður á heimilum þeirra meðal helstu ástæðna skólaforðunar.

Orðið skólaforðun er fremur nýlegt í umræðu um skólamál á Íslandi en var töluvert í umræðunni í samfélaginu eftir birtingu skýrslu Velferðarvaktarinnar.

Ekki eru allir sammála um að orðið skólaforðun sé gott orð. Seinni hluti orðsins (nafnorðið forðun) á að vera myndað af sögninni að forðast en e.t.v. flækist merking orðsins forði (uppsöfnun) fyrir. Í Nýyrðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa verið send inn orðin skólauggur og skólabeygur fyrir þetta hugtak en skólaforðun er þó það orð sem almennt er notað um þetta fyrirbæri.

Rafíþróttir (kvk. ft.)

Orðið rafíþróttir er nýlegt orð í íslensku og er notað um skipulagða keppni í tölvuleikjum. Notkun orðsins jókst á síðasta ári enda hafa vinsældir rafíþrótta aukist mikið og sífellt fleiri íslensk íþróttafélög eru farin að bjóða upp á æfingar í rafíþróttum. Mikill áhugi er á því að fylgjast með rafíþróttaviðburðum og samkvæmt upplýsingum frá Rafíþróttaskólanum (rafithrottaskolinn.is) standa rafíþróttir nú meðal fremstu íþrótta heims hvað varðar

verðlaunafé, áhorf og umgjörð og stuðning við atvinnuspilara.

Á ensku kallast þessar íþróttir esports eða electronic sports og er íslenska orðið rafíþróttir bein þýðing á því.

Raddstýring (no. kvk.)

Stöðugt koma fram ný orð sem tengjast tækniþróun. Eldri og vel þekkt dæmi eru t.d. tölva og þota. Lengi hefur verið rætt um raddstýringu á tækjum en hún hefur ekki orðið almenn fyrr en á allra síðustu árum.

Ýmiss konar tæki nota hugbúnað sem notendur geta átt í samskiptum við með tali. Með raddstýringu á bílaútvarpi og síma getur ökumaður t.d. fylgst með umferðinni án truflana og einnig má nefna að raddstýring getur aukið lífsgæði þeirra sem búa við fatlanir og sjúkdóma.

Orðið sjálft er mjög gagnsætt, myndað á þann hátt sem algengastur er við nýmyndun orða, þ.e.a.s. tvö orð eru sett saman. Orðið er ekki nýtt, kom fyrst fram fyrir aldamót þegar mörg tæknifyrirtæki hófu tilraunir með þessa tækni en notkun þess hefur aukist síðustu ár í takt við aukna útbreiðslu þess sem orðið vísar til.

Þungunarrof (hk.)

Nýyrðið þungunarrof kom fram 2017 í skýrslu nefndar sem vann að heildarendurskoðun á lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Orðið þungarrof hefur sömu merkingu og orðið fóstureyðing, þ.e. það merkir það þegar þungun er stöðvuð með aðgerð eða lyfjagjöf. Lagt er til að þetta orð sé tekið upp í stað orðsins fóstureyðing í áðurnefndri skýrslu og síðar í frumvarpi um þungunarrof sem lagt var fram á Alþingi 2018–2019. Orðið fóstureyðing var talið vera gildishlaðið og í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að sambærileg orðanotkun þekkist ekki í nágrannalöndum okkar. Í ensku er almennt notast við orðið abortion eða termination of pregnancy og annars staðar á Norðurlöndum er almennt notað orðið abort. Nýyrðið þungunarrof þykir lýsa aðgerðinni betur en hið gamla ásamt því að vera hlutlausara í eðli sínu.

Einnig hefur verið bent á að þungunarrof eigi betur við enda vísi það til byrjunar meðgöngu og í því samhengi er t.d. orðið þungunarpróf notað.

Orðið þungunarrof var mikið í umræðu ársins 2019 þegar lög um þungunarrof voru samþykkt (lög nr. 43/2019).

Siðrof (hk.)

Orðið siðrof er alls ekki nýyrði í íslensku en engu að síður vakti það athygli á síðasta ári. Samkvæmt Vísindavefnum er það þýðing á franska hugtakinu anomie sem er þekktast úr ritum félagsfræðingsins Émilie Durkheims. Siðrof er það þegar siðferðileg viðmið og almennt viðurkennd gildi víkja fyrir siðleysi og upplausn.

Almennt er orðið siðrof ekki mikið notað í daglegri orðræðu og áhugavert er að skoða grafið hér á myndinni sem sýnir þrjá toppa í notkun þess. Fyrsti toppurinn var eftir 2008 en umræður um siðrof á þeim tíma tengdust hruninu og því að gömul gildi höfðu vikið fyrir nýjum í íslenskum fjármálaheimi. Næsti toppur tengist umræðum um svokölluð Panamaskjöl þegar í ljós kom að fjöldi Íslendinga hafði fært fé sitt í erlend skattaskjól.

Í fyrra komst orðið siðrof aftur í hámæli þegar Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands ræddi um að minnkandi traust til Þjóðkirkjunnar mætti rekja til siðrofs í samfélaginu sem orðið hefði eftir að hætt var að kenna kristinfræði sem sérstakt fag í grunnskólum landsins. Ummælin vöktu talsverða athygli enda er siðrof mjög sterkt orð í þessu samhengi og ýmsir efins um að upplausnarástand hafi ríkt í þjóðfélaginu þegar hætt var að kenna kristinfræði sem sérstakt fag.

Áhrifavaldur (kk.)

Orðið áhrifavaldur er ekki nýtt orð í íslensku en notkun þess hefur aukist á síðustu árum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er merking orðsins skýrð „persóna eða atburð sem hefur áhrif á e-n“.  Á síðustu árum hefur það að auki fengið nýja sérhæfðari merkingu og nú er það jafnframt notað um þá einstaklinga sem á ensku eru kallaðir influencers og hafa oft mikinn fjölda fylgjenda á samfélagsmiðlum eins og Instagram eða Snapchat. Áhrifavaldar kynna þar jafnan ýmiss konar vöru eða þjónustu og fá oft fyrir það greiðslu frá seljendum eða framleiðendum.

Orðið samfélagsmiðlastjarna er stundum notað um vinsæla áhrifavalda. Það kom fram árið 2015 og sjónvarpsstjörnur virðast fljótlega hafa fallið í skuggann af þeim.

Um höfundinn
Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson

Guðmundur Hörður Guðmundsson er kynningar- og vefstjóri Hugvísindasviðs HÍ. Sjá nánar

[fblike]

Deila