Stórskáldið var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 18. október síðastliðinn. Um er að ræða nýtt íslenskt leikrit eftir Björn Leó Brynjarsson, en hann var ráðinn leikskáld Borgarleikhússins fyrir leikárið 2017-2018. Í viðtali við Hafliða Arngrímsson í leikskrá sýningarinnar segist Björn Leó hafa viljað fjalla um minni, sannleika, miðlun og sögur. Persónur verksins eru rithöfundur, kvikmyndagerðarkona og kvikmyndatökumaður, en öll vinna þau á ólíkan hátt með þessi þemu í sínu starfi.
Óvæntar vendingar
Kvikmyndagerðarkonan Rakel (Unnur Ösp Stefánsdóttir) fer ásamt unnusta sínum, Andra (Hilmar Guðjónsson), til Suður-Ameríku í þeim tilgangi að gera heimildamynd um dauðvona Nóbelsskáldiðið Benedikt (Jóhann Sigurðarson). Hann er pabbi Rakelar sem hún hefur ekki hitt í 25 ár. Tilgangur kvikmyndagerðarfólksins er að afhjúpa skáldið, en þegar komið er á áfangastað hafa forsendur myndarinnar gjörbreyst. Það reynir á sambandið í þvölum hita regnskógarins og atburðir fortíðarinnar eru skoðaðir frá ólíkum sjónarhornum. Verkið tekur óvæntan snúning í lokin, en þegar upp er staðið á Rakel ef til vill meira sameiginlegt með stórskáldinu en hún kærir sig um.
Framandi umgjörð
Sögusvið sýningarinnar er hótelherbergi í miðjum Amazon-skóginum. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur kemur því vel til skila, en sviðið er hlaðið plöntum svo hótelherbergi stórskáldsins minnir helst á frumskóg. Lýsing, tónlist og búningar undirstrika hina framandi stemningu og umgjörðin er öll mjög exótísk. Eins og Björn Leó bendir á í leikskrá á verkið að gerast í „tilbúnum heimi“ en ekki í raunverulegum regnskógi. Sviðsetning skógarins er gerð af listafólki sem hefur aldrei komið til Amazon og getur aðeins gert sér hugmyndir um skóginn í gegnum ljósmyndir og stafræna miðla.
Óljós mörk sannleikans
Leikarar sýningarinnar eru sannfærandi í sínum hlutverkum. Hilmar Guðjónsson fer á kostum sem grandalaus Andri, en persóna hans er gott mótvægi við hina framadrifnu Rakel og ólíkindatólið Benedikt. Þá er samspil Unnar Aspar og Jóhanns Sigurðarsonar áhrifaríkt þegar feðginin fara saman yfir óljósa atburði úr fortíð þeirra beggja. Skemmtilega er unnið úr endurlitunum sem minna meðal annars á sápuóperu og grínþætti. Stokkið er fram og aftur í tíma og spurningum varpað fram um fortíðina. Stórskáldið fjallar um sannleika og miðlun á honum, en góð saga þarf ekki alltaf að líða fyrir sannleikann eins og raun ber vitni.
[fblike]
Deila