Rithöfundurinn Andri Snær Magnason fylgir nýútkominni bók sinni, Um tímann og vatnið, eftir á stóra sviði Borgarleikhússins um þessar mundir. Ekki er um eiginlega leiksýningu að ræða heldur frekar listrænan fyrirlestur. Hann er hluti af verkefninu „Kvöldstund með listamönnum“ en síðar í vetur munu Bergur Ebbi Benediktsson og Vera Illugadóttir stíga á svið undir sömu formerkjum. Í fyrirlestrinum fjallar Andri Snær um stærsta og mikilvægasta málefni samtímans: Hamfarahlýnun jarðar. Hann fjallar um efnið á persónulegum og fræðilegum nótum og setur hlýnun jarðar í samhengi við sjálfan sig, fortíðina og komandi kynslóðir.
Áhrifarík kvöldstund
Í fyrirlestrinum styðst Andri Snær við glærur og varpar myndum og myndbandsupptökum á stórt tjald. Myndirnar glæða fyrirlesturinn lífi og eru margar mjög fallegar. Áhorfendur eru leiddir í ferðalag um votlendi Amazon-skóganna, kynnast manninum sem skar upp Oppenheimer og fara í brúðkaupsferð upp á Vatnajökul. Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson er Andra Snæ til halds og trausts á sviðinu og tónlist hans fléttast við efni fyrirlestrarins. Andri Snær hefur lýst því yfir að loftslagsvandinn sé stærri en tungumálið, en á einni kvöldstund nær hann að taka utan um efnið á frumlegan, fræðandi og áhrifaríkan hátt.
Fortíð og framtíð
Tíminn er Andra Snæ hugleikinn í fyrirlestrinum. Í fyrri hlutanum leggur hann áherslu á fortíðina en færir sig yfir í framtíðina þegar líður á seinni hlutann. Hann kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ímynd jökla hafi breyst í hugum kynslóðanna; í stað þess að vera eilífir eru þeir nú orðnir tákn hnignandi náttúru á tímum hamfarahlýnunar af mannavöldum. Andri Snær setur myndbandsupptökurnar af Vatnajökli frá árinu 1956 í samhengi við söfnun á handritum og rímum – þær bera vitni um eitthvað sem heyrir bráðlega sögunni til. Að lokum varpar Andri Snær fram spurningunni: „Hvenær er einhver enn á lífi, sem þú munt elska?“, en komandi kynslóðir eiga síðasta orðið á sviðinu með táknrænum hætti.
Hlutverk leikhússins
Borgarleikhúsið hefur upp á síðkastið lagt áherslu á að eiga í samtali við samfélagið og skapa umræðu um málefni líðandi stundar. Fyrirlestur Andra Snæs er einn liður í því, en Um tímann og vatnið er mikilvægt innlegg í umræðuna um hamfarahlýnun af mannavöldum. Fyrirlestrarformið er nýjung í íslensku leikhúsi og býður upp á spennandi möguleika í miðlunarleiðum. Hér hefur skapast listrænn vettvangur fyrir málefni sem brenna á samtímanum og áhugavert verður að sjá hvort þetta form muni festa sig í sessi í leikhúsinu.
[fblike]
Deila