Fyrir skömmu birtist í hinu virta breska tímariti Women´s History Review greinin „Transculturation, contact zones and gender on the periphery. An example from Iceland 1890–1920“ eftir Írisi Ellenberger. Í greininni birtist hluti niðurstaðna Írisar úr nýdoktorsverkefni hennar Mót innlendrar og erlendrar menningar í Reykjavík 1890–1920 sem hún vann með styrk frá Nýliðunarsjóði Háskóla Íslands.

Rannsóknarverkefni Írisar fjallar um mót, núning og samblöndun menningar í Reykjavík á tímabilinu 1890–1920 þegar hreyfanleiki fólks var mjög mikill á heimsvísu. Undir lok 19. aldar losnaði um búsetuhömlur á Vesturlöndum og víðar sem olli því að allmargt fólk færði sig um set, enda settu fá lönd verulegar lagalegar takmarkanir á aðflutning fólks fyrr en á þriðja áratug 20. aldar. Þótt Reykjavík stæði að mestu utan við það mikla flæði sem lá yfir Atlantshafið þá var hreyfanleiki eitt einkenni bæjarins. Íris skoðar því í rannsóknarverkefni sínu hvernig ólíkt flæði fólks, þ.e. sveitafólk sem fluttist á mölina, hreyfanleg dönsk-íslensk borgarastétt, erlendir innflytjendur og farandfólk, mótaði samfélag og menningu Reykjavíkur á áratugunum í kringum aldamótin 1900.

Íris Ellenberger.

Í greininni „Transculturation, contact zones and gender on the periphery“ beinir Íris sjónum að því hvernig núningur og átök milli tveggja ólíkra hreyfanlegra hópa mótuðu stéttaskiptingu og efnismenningu bæjarins. Hóparnir tveir eru annars vegar þverþjóðleg ráðandi stétt sem saman stóð af valdamesta fólki Reykjavíkur og var mjög hreyfanleg og þverþjóðleg, upp að því marki að sumir áttu jafnt heima í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hins vegar lægri og millistéttir bæjarins sem voru aðallega skipaðar nýaðfluttu fólki úr sveitum Íslands. Það er hópurinn sem átti stærstan þátt í að fjöldi Reykvíkinga nær fimmfaldaðist á þremur áratugum og fór úr 3.700 árið 1890 í 17.500 árið 1920.

Íris skoðar viðleitni hinnar ráðandi stéttar til að viðhalda stéttarstöðu sinni með því að draga í sífellu mörk milli sín og annarra bæjarbúa. Þar gegndu konur lykilhlutverki, líkt og víðar í borgaralegu samfélagi Evrópu, þar sem það kom í þeirra hlut að útbúa heimilið og íbúa þess á þann hátt sem samræmdist stéttarstöðu fjölskyldunnar. Reykvískar konur af ráðandi stétt voru hluti af þvermenningarlegu rými sem náði til Danmerkur og Bretlands, jafnvel víðar. Bréf Þóru Pétursdóttur Thoroddsen eru tekin til skoðunar en af bréfaskiptum hennar má sjá hvernig þvermenningarlega rýmið og tengslanetin sem það byggðist á gerði konunum kleift að verða sér úti um klæðnað, húsbúnað og annan neysluvarning erlendis frá sem undirstrikaði stéttarstöðu þeirra og skapaði þannig fjarlægð milli hinnar ráðandi stéttar og annarra stéttalaga í Reykjavík.

Íris leggur jafnframt höfuðáherslu á að greina viðtökur fólks af lægri stéttum á þeirri borgaralegu menningu sem hin ráðandi stétt flutti til Reykjavíkur í þeim tilgangi að skapa stéttaskiptingu innan bæjarins. Hún leitar til bandarísku fræðikonunnar Mary Louise Pratt og skoðar snertifleti (e. contact zones) Reykjavíkur þar sem eins konar þvermenningarleg samblöndun (e. transculturation) á sér stað. Þar er átt við ferli sem fer af stað þegar hópar með ólíka menningu komast í snertingu hver við annan með þeim afleiðingum að menningin blandast saman og tekur á sig nýjar myndir. Pratt leggur áherslu á að ferlið einkennist af átökum þar sem „ólík menning mætist, rekst á og tekst á, gjarna í ójöfnum valdatengslum sem einkennast af yfirráðum og undirskipun.“ Í greininni „Transculturation, contact zones and gender on the periphery“ fjallar Íris einmitt um hvernig slíkur núningur mótar stéttskiptingu og efnismenningu Reykjavíkur og gegna lægri stéttir og millistéttir þar ekki veigaminna hlutverki en hin ráðandi stétt.

Eins og Pratt segir þá stjórna valdahópar hvers konar menning er ráðandi en undirskipað fólk getur þó upp að vissu marki ráðið hvað það tekur upp í sína menningu, hvernig það notar hina ráðandi menningu og hvað hún er látin merkja. Í greininni „Transculturation, contact zones and gender on the periphery“ skoðar Íris hvernig reykvískar lægri stéttir og millistéttir glímdu við þá erlendu borgaralegu menningu sem hin ráðandi stétt notaði til að standa vörð um eigin völd og virðingu. Hún beinir sjónum sérstaklega að konum af lægri stéttum og millistéttum sem fóru ýmsar leiðir að því að glíma við menningu hinnar ráðandi stéttar. Sumar tóku upp klæðaburð hennar og ýmist settu sitt mark á hann eða reyndu að nota hann til að öðlast virðingu meðborgara sinna. Sumar tóku sér dönskuskotin nöfn að hætti heldri stéttar kvenna, t.d. með því að breyta eftirnafni eiginmanns eða föður þannig að það hljómað danskt. Það gerðu m.a. Maddama Vigfússen, Manga Svendsen og Thomsenssystur.

Áhugaverðust er þó glíma lægri stétta og millistétta við hið kóðaða tungumál hinnar ráðandi stéttar. Hún notaði gjarna dönsk, frönsk og ensk orð yfir þá muni sem konur í ráðandi stéttarstöðu fluttu inn til að búa heimili sín að hætti evrópskrar borgarastéttar og draga þar með mörk milli sín og annarra samfélagshópa. Í bréfum sem konurnar sendu sín á milli má lesa um rómana sem þær lásu yfirleitt á dönsku, kunstsyning sem þær kenndu yngri kynslóðinni, pavilliona sem þær vildu gjarna láta byggja í bænum, bilætin sem þær keyptu á tónleika og leiksýningar og spisestellin sem þær óskuðu eftir að vinkonur og skyldkonur í Kaupmannahöfn sendu til Íslands.

Íris vekur athygli á því að viðlíka orð gátu tekið á sig áhugaverðar myndir í notkun þeirra sem höfðu ekki tök á kóðuðu orðfæri hinnar ráðandi stéttarinnar. Nokkur dæmi eru um svokallaðar alþýðuskýringar, en með því er átt við það þegar fólk tekur orð sem eru ógagnsæ að merkingu og býr til ný orð úr þeim sem hljóma kunnuglegar en hafa þó stundum afar sérkennilega þýðingu. Sem dæmi má nefna danska orðið fyrir matarlím, husblas, varð snúið upp í húspláss á íslensku. Orðið hljómar kunnuglegar í eyrum þeirra sem ekki kunna dönsku en stendur þó í engu samhengi við fyrirbærið sem það á að lýsa. Það sama má segja um porthérana sem vísar ekki til dýrategundar heldur þykkra tjalda sem voru notuð sem skilrúm milli borðstofu og stássstofu á heldri heimilum. Hérar þessir eru alþýðuskýring á orðinu portérar og er líklega íslenskun á franska orðinu portières sem hefur borist til landsins með hinni ráðandi stétt í gegnum Danmörku. Sá kómíski blær sem einkennir húsplássið og porthérana er vafalaust ekki tilviljun heldur leið lægri stéttarinnar og millistéttarinnar til að glíma við þá menningu sem hin ráðandi stétt notaði til að móta stéttaskiptingu Reykjavíkur og treysta eigin stöðu efst í valdastiganum.

Greinin „Transculturation, contact zones and gender on the periphery. An example from Iceland 1890–1920“ leiðir þannig í ljós hvernig ólíkir fólksflutningsstraumar, innlendir sem erlendir, mótuðu menningu og samfélag Reykjavíkur með beinum hætti og dregur fram það mikilvæga hlutverk sem reykvískar konur gegndu í þessu ferli. Greinina má lesa í heild sinni á heimasíðu Women‘s History Review á: https://doi.org/10.1080/09612025.2019.1603267

 

[fblike]

Deila