Lífshlaupsmyndin Bohemian Rhapsody (2018, Bryan Singer) rekur söguna frá því að Freddie Mercury (Rami Malek) hittir gítarleikarann Brian May (Gwilym Lee) og trommuleikarann Roger Taylor (Ben Hardy) – og síðar meir bassaleikarann John Deacon (Joseph Mazzello) – þar til að þeir spila saman sem hin goðsagnakennda hljómsveit Queen á stórtónleikunum Live Aid árið 1985, þar sem þeir halda jafnframt sýnikennslu í hvernig flytja eigi lifandi tónlist og hrífa áhorfendur.
Í lifanda lífi var Mercury andlit hljómsveitarinnar, eins og svo oft vill verða með söngvara, og ekki að ósekju. Hann var með framandi útlit, óbeislaða og ögrandi sviðsframkomu og afar forvitnilegt einkalíf. Hefði það ekki verið fyrir hrifmagn og persónutöfra Mercury væri sagan allt önnur og einblínir frásögn Bohemian Rhapsody því á hann umfram aðra meðlimi hljómsveitarinnar. Sem betur fer – og eðlilega – í þessu tilfelli en persónur þeirra Brian, Roger og John eru allar ákaflega flatar; Taylor reiðist, Deacon spaugar og May miðlar málum á milli þeirra fjögurra sem og annarra. Það er aftur á móti með ólíkindum hversu líkir leikararnir fjórir eru fyrirmyndum sínum. Líkamstjáning og framkomutaktar Malek eru svo gott sem óaðfinnanlegir á sviðinu; sérhver taktviss handarhreyfing, tiplandi dansspor og tvíræð notkun hljóðnemastatífsins er nákvæm eftirmynd af frammistöðu Mercury. Í mikilfenglegri endurgerð Wembley leikvangsins er eins og áður óséð efni hafi fundist og á risastóru tjaldi birtist Freddie Mercury ljóslifandi enn á ný.
Fleiri eftirmyndir gegna veigamiklu hlutverki í Bohemian Rhapsody en gjörvöll umgjörð lokatónleikanna á Wembley er tvímælalaust hápunktur myndarinnar og því vel við hæfi að ljúka frásögninni að þeim loknum. Endurhljóðblöndun þeirra fyrir nútíma kvikmyndasali ásamt stórkostlegri framkomu Malek er hreint mögnuð upplifun sem ekki verður skákað. Það má víst teljast ábyggilegt að enginn sem þetta les hafi sótt tónleikana en fleiri urðu vissulega vitni að tónleikunum í sjónvarpinu. Við megum þó öll þakka fyrir hversu vel skjalfest einhver sú albesta framkoma hljómsveitar á tónleikum er, hvort sem um er að ræða beina útsendingu á jafn miklu stórvirki og Live Aid var, eða einstaka tónleikum. Það er löngu orðið goðsagnakennt hversu vel Queen stóð að tónlistaratriði sínu m.t.t. framkomu, spilamennsku, hljóðs og hrifningu áhorfenda sem skila sér allt ákaflega vel í myndinni.
Sem lífshlaupsmynd, markast frásagnarstíll Bohemian Rhapsody af dramatíseringum og rammafrásögninni (áðurnefndir Live Aid tónleikar). Markmiðið er að kjarna ævi Mercury annars vegar og starf hljómsveitarinnar Queen hinsvegar, í stað þess að fara yfir sögu af mikilli nákvæmni, en það gera heimildarmyndir mun frekar. Þetta eykur skemmtanagildi myndarinnar þó það kunni jafnframt að angra hörðustu aðdáendur. Þá tekur kvikmyndin sér dágóðan tíma til að koma sögunni til skila og áskilur sér þar svigrúm til að miðla tónlist Queen með þeim aðferðum sem kvikmyndir búa yfir til þess, þ.e.a.s. tónleikaframkomum, hljóðversatriðum – sem segja upprunasögu sumra frægustu laganna – og myndfléttum (e. montage) með öðrum þekktum lögum, en hið síðastnefnda þjónar m.a. þeim tilgangi að gefa gang tímans til kynna. Á Live Aid tónleikunum í lok myndarinnar er einungis tveimur lögum af þeim sex sem þeir fluttu sleppt; Crazy Little Thing Called Love og We Will Rock You, sem var annars komið mjög vel til skila annarsstaðar í myndinni. Mercury fær áhorfendur til þess að bergmála sig með löngu þekktum raddspuna sínum að loknu öðru lagi sem var aldeilis biðarinnar virði.
Bohemian Rhapsody tekur pent á persónulegu lífi Mercury og hikar við að skilgreina kynhneigð hans á afgerandi hátt; hann segir unnustu sinni að hann sé tvíkynhneigður sem hún nokkurn veginn rekur ofan í hann með því að segja hann vera samkynhneigðan. Eftir það er hann aldrei við kvenmann kenndur í myndinni. Vissulega hefði mátt kafa dýpra í kynvitund Mercury en þá hefði annað þurft að víkja og það væri ekkert endilega til hins betra. Myndin tekur á því á sinn hátt á blaðamannafundi, þar sem hver spurningin á fætur annarri beinist að Mercury og kynhneigð hans. Hann ýmist neitar að svara, hæðist að þeim eða spyr blaðamenn hvort þeir hafi hreint engan áhuga á tónlist Queen, en myndin endurspeglar þannig þau svör sem Freddie gaf við slíkum spurningum í viðtölum á meðan hann lifði. Bohemian Rhapsody sviðsetur viðhorf Freddies á blaðamannafundinum í víðara samhengi með því að leggja áherslu á tónlist hljómsveitarinnar og tilurð hennar í stað þess að kafa dýpra í sálarlíf meðlimanna og einkalíf.
Þegar uppi er staðið er Bohemian Rhapsody ákaflega skemmtileg mynd sem af ráðnum hug flækir málin ekkert alltof mikið. Tónlistin fær að lifa heilt í gegnum frásögnina og skemmtileg mynd er dregin upp af samskiptum fjórmenninganna, hversu sannsöguleg sem hún kann nú að vera. Ef hugað er að Bohemian Rhapsody sem bíóupplifun er myndin dásamleg.
[fblike]
Deila