Í nýliðinni viku héldu ritlistarnemar upp á tíu ára afmæli greinarinnar undir yfirskriftinni Pár í tíu ár. Hátíðarhöldunum lauk með veglegri dagskrá í Veröld laugardaginn 20. október þar sem Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist, flutti eftirfarandi ávarp. Hér getur jafnframt að líta myndband sem Kennslumiðstöð Háskóla Íslands gerði í tilefni af afmælinu.
Velkomin á þessa afmælishátíð okkar sem ber yfirskriftina Pár í tíu ár. Það fannst mér hæfilega léttúðugt vegna þess að maður opnar best fyrir sköpunina ef maður tekur sig ekki of hátíðlega. Ef við hefðum tekið okkur of hátíðlega, gleymt gleðinni sem þarf helst að fylgja sköpuninni, er eins víst að þetta hefði orðið Fár í tíu ár. Svo var sem betur fer ekki, þetta hefur verið eitt samfellt ævintýri.
Grunnurinn að því var lagður á fundi 17. október árið 2007 þegar Sveinn Yngvi Egilsson prófessor bar upp tillögu í íslenskuskor um að ritlist, sem þá hafði verið kennd sem aukagrein frá 2002, yrði gerð að aðalgrein til BA-prófs. Í meðfylgjandi rökstuðningi sagði:
„Til þess að svo megi verða þarf að ráða sérstakan umsjónarmann námsins og auka námsframboðið þannig að hægt verði að ljúka 60 einingunum á tveimur árum [innskot: þarna er átt við gamla einingakerfið]. Aðsóknin að ritlistarnámskeiðum hefur verið svo jöfn í áranna rás að allar líkur eru á því að slíkt nám muni standa undir sér. Hér með er farið fram á samþykki fjármálanefndar til að auglýsa lektorsstarf í ritlist.“
Sjaldan hefur einn maður hitt naglann jafn vel á höfuðið og Sveinn Yngvi í þessum rökstuðningi sínum. Sveinn Yngvi hafði þá haft umsjón með ritlistarnáminu eftir að sá sem hafði átt mestan heiður af því að koma því á laggirnar fór á eftirlaun. Það var Njörður P. Njarðvík bókmenntafræðingur, rithöfundur og þýðandi, sem er erlendis en sendir kveðjur og hamingjuóskir. Það var Njörður sem lagði námsgreininni til þetta ágæta heiti: ritlist.
Lektor var síðan ráðinn frá og með 1. júlí 2008 og það var sá sem hér stendur. Ég hafði þá verið stundakennari í um 15 ár og naut þess þegar ég hóf störf að þekkja svolítið til innviða Háskólans. Ég naut þess líka að þekkja ekki of vel til innviða hans. Ég setti undir mig hausinn og með stuðningi Sveins Yngva, Eiríks Rögnvaldssonar, þáverandi deildarforseta, og Ástráðs Eysteinssonar, þáverandi sviðsforseta, lagði ég upp í þá för sem nú hefur staðið í áratug. Við buðum þó ekki BA-nám í ritlist nema í þrjú ár en samt náðu 35 manns að ljúka því. Haustið 2009 brustu allar gáttir og nemendafljótið flæddi yfir bakka sína. Þá skráðu sig 111 manns í inngangsnámskeiðið sem við vorum með á þeim tíma en ekki þykir æskilegt að hafa nema svona 15-20 manns í ritsmiðju. Við settum samt undir okkur hausinn og tókst einhvern veginn í ósköpunum að klóra okkur fram úr þessu. Jafnframt hugsuðum við okkar gang því við svo búið mátti ekki standa ef tryggja ætti gæði námsins. Við máttum ekki takmarka aðgang á grunnstiginu en það mátti á meistarastiginu. Ég fór því í það ferli ásamt sviðsforseta og fleirum að sækja um leyfi til að hefja meistaranám í ritlist og hófst kennsla á meistarastigi haustið 2011. Síðan hafa 55 manns útskrifast með MA í ritlist. Ég held að það sé óhætt að segja að námið hafi tekið flugið þegar við gátum þarna haft hópa í viðráðanlegri stærð. Eins hefur það reynst mikilvægur vaxtarbroddur fyrir íslenskudeild Háskólans, já og fyrir íslenskuna sjálfa því að við erum eina smiðjan í heiminum þar sem skapað er á íslensku.
Hátt í 150 verk hafa nú verið gefin út eða sýnd eftir höfunda úr okkar röðum og nú eru þau farin að birtast erlendis líka. Verkin hafa verið afar fjölbreytileg enda kostuðum við kapps að steypa ekki alla í sama mótið. Við höfum reynt að skapa umhverfi sem höfundar geta vaxið í, forðast forskriftir og unnið þess í stað með það sem kemur upp úr grasrótinni. Eins höfum við búið svo um hnúta að allir eigi möguleika á plássi í ritlist, sama hvaða háskólanám þeir hafa að baki; þau sem ekki hafa bakgrunn í bókmenntum bæta þá við sig sem nemur einu misseri. Þetta hefur skilað okkur höfundum af öllu tagi.
Kennarar gleðjast yfir velgengni nemenda sinna og ég hef svo sannarlega haft mörg tækifæri til þess. Tilnefningar og verðlaun hafa streymt inn, allt frá verðlaunum í samkeppnum á vegum Stúdentablaðsins og Vikunnar til Nýræktarstyrkja, Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, Fjöruverðlaunanna, Ljóðstafs Jóns úr Vör, Íslensku barnabókaverðlaunanna, Bóksalaverðlaunanna, Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég hef reynt að halda utan um þetta og þegar ég skoðaði listann í gær voru á honum um 80 færslur. Ritlistarnemar hafa þó ekki einungis haslað sér völl sem höfundar bóka og leikrita heldur hafa þeir komið sér fyrir víða um samfélagið þar sem þörf er fyrir ritfært og skapandi fólk, jafnt á fjölmiðlum sem í öðrum fyrirtækjum.
Það hefur sem sagt verið fjör í tíu ár. Við höfum staðið fyrir fjölmörgum viðburðum á þessum tíma, fjórum alþjóðlegum ráðstefnum í samvinnu við þýðingafræðina og fyrirlestraröð þar sem flestir helstu höfundar landsins tróðu upp. Blekfjelagið, nemendafélag meistaranema, hefur ennfremur staðið fyrir margskonar viðburðum, bæði hér í borginni og úti á landi. Þar hafa ritlistarnemar m.a. fengið þjálfun í að koma fram. Á hverju vori gefa svo nemendur út sýnisbók í samvinnu við nema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og litla jólabók í desember. Kennarar hafa flestir verið úr röðum rithöfunda og ritstjóra en einnig höfum við átt góða samvinnu við ýmsa kennara aðra í menningargreinum.
Samfélagið sem myndast í náminu hefur reynst vera góður jarðvegur fyrir nýsköpun. Þegar tenging skapast milli andlegra skyldmenna verður til samlegðarorka; tveir eru sterkari en einn. Þau styðja og styrkja hvert annað eftir að námi lýkur, finna upp á ýmsu saman og rjúfa þá að vissu marki hina ægilegu einangrun rithöfundarins.
[fblike]
Deila