Sungið milli menningarheima

Söngur Kanemu var frumsýnd á Skjaldborg sl. vor, heimildarmyndahátíðinni á Patreksfirði, þar sem hún hreppti hvoru tveggja, dómnefndar– og áhorfendaverðlaunin, og er í sýningum um þessar mundir í Bíó Paradís. Myndin fjallar um Ernu Kanemu, átján ára stúlku sem alist hefur upp í Reykjavík, en er af sambísku bergi brotin – faðir hennar, Harry, er frá Sambíu en hefur búið hér á landi í tvo áratugi – og lifir hún því á mörkum tveggja menningarheima. Ásamt fjölskyldu sinni (föður, móður, systur og frænda) ferðast Erna til Sambíu og hverfist myndin um þetta ferðalag, mismun menningarheimanna tveggja og þýðingu þess fyrir Ernu að tengjast arfleifð sinni með beinum hætti, hitta fjölskyldu sína og upplifa menninguna, ekki síst tónlistina.

Eins og titillinn gefur til kynna gegnir tónlist ríku hlutverki í lífi Ernu og myndinni sjálfri. Erna, sem virðist gæfusamlega hæfileikarík söngkona, nemur djasssöng í FÍH. Hún er eðlilega áhugasöm um afrískar tónlistarhefðir og litast ferðalagið af þessum áhuga, sem hún deilir með systur sinni, Auði, en sambandi þeirra er miðlað með fallegum hætti og skipar Auður mikilvægan sess í myndinni. Landið sem þær ferðast til er um margt framandi, en þær eru þarna saman, systurnar, og það skiptir skýrlega máli. Erna og Auður nota hvert tækifæri til að viða að sér þekkingu og innsýn í þjóðlegar tónlistarhefðir Sambíu, nema hjá innlendum tónlistarmönnum og Erna gengur til fundar við háskólafræðimenn til að öðlast innsýn í þýðingu tónlistar í samfélaginu.

 

Ferðalagið sem myndin hverfist um er ekki í fyrsta sinn sem Erna ferðast til Sambíu, raunar hið þriðja. Fyrst þegar hún var þriggja ára, svo þegar hún var átta, en það öðruvísi fyrir fullorðna manneskju að taka sér fyrir hendur svona ferðalag en það er fyrir barn, enda hefur Erna nefnt í viðtali að ef frá er skilin heimsókn í kirkju hafi þessar fyrri ferðir ekki skilið eftir margar varanlegar minningar. Svo vill hins vegar til að þær voru engu að síður festar á filmu, og orsakast það af þeirri staðreynd að leikstjóri (og framleiðandi, klippari, og tökumaður) Söngs Kanemu, Anna Þóra Steinþórsdóttir, er móðir Ernu, og mögulegt reynist því að flétta myndefni úr fyrri ferðunum inn í nýja ferðalagið með upplýsandi og skemmtilegum hætti, nokkuð sem víkkar og dýpkar þá mynd sem dregin er upp af söguhetjunni, Ernu Kanemu.

 

Söngur Kanemu snýst öðrum þræði um rætur og hvernig sjálfsskilningur okkar er samfélagslega mótaður. Nú er Ísland einsleitt land og blöndun menningarheima hefur jafnan verið af skornum skammti, þótt það sé sem betur fer að breytast í hnattvæddum og samtengdum heimi. En hörundslitur Ernu hefur óhjákvæmilega stillt henni upp á örlítið sérstökum stað hér á hvíta Íslandi, að upplifa sig öðruvísi er auðvitað ekki óvanalegt en það að mismunurinn sé sjáanlegur, óumflýjanlegur í sjálfri líkamsgerðinni, kann að vekja spurningar – ekki endilega frá öðrum heldur spurningar sem maður spyr um sjálfan sig, og hafa þannig djúpstæð áhrif á manns innra líf og mynd af sjálfum sér, skilgreining er ávallt samþætt skilningi. Í staðinn fyrir að kveða svona spurningar í kútinn, hafna eða bæla, opnar myndin fyrir skoðun og hugleiðingu um þær. Auðvitað er Sambía allt öðruvísi en Ísland. Auðvitað skiptir máli að reyna að skilja lykilhluta af uppruna sínum. Þessi opna og jákvæða umföðmun á mismun er hluti af því sem gerir Söng Kanemu jafn gleðiríka og ánægjulega og raun ber vitni. Áhorfandi getur ekki verið ósammála Ernu um gildi þess að kynnast þessum nýja menningarheimi, framandi sem hann kann að vera.

Það að standa svona á milli tveggja heima þarf auðvitað ekki að hamla nokkrum hlut, rýra eitt eða neitt; þvert á móti, það auðgar litróf lífisins og gefur sjálfinu tækifæri til að stækka og verða víðsýnna. Hér gegnir tónlistin mikilvægu hlutverki, það er tónlistin sem brúar bilið og skapar rými til að yfirstíga mismun, bæði fyrir Ernu og fjölskyldu hennar í Sambíu, sem auðvitað mætir jafnframandi einstaklingi í Ernu og hún í þeim.

 

Söngur Kanemu er afskaplega vel gerð heimildarmynd, mæðgnanándin í viðtölunum við Ernu og Auði er næstum áþreifanleg, allavega takast þær á við burðarhlutverk sín í myndinni af stökustu prýði, það sem þær hafa að segja er forvitnilegt, einlægt og algjörlega laust við tilgerð. Myndskeiðin sem sýna Ernu eina eða með systur sinni í Sambíu eru oft ótrúlega falleg, jafn vel til fundin og þau eru römmuð og tekin. Myndavélin er jafnan í mikilli nánd við persónurnar en hún er líka sérlega hreyfanleg (sumar hreyfingar myndavélarinnar eru reyndar furðu metnaðarfullar miðað við aðstæðurnar sem áhorfandi getur ímyndað sér að hafi markað tökurnar) og fangar vel félagsleg rýmisvensl milli fjölskyldunnar sem ferðast hefur til Sambíu og heimafólksins. Viðtölum við Ernu þar sem hún veltir vöngum um upplifun sína og reynslu er haganlega skeytt saman við atburðina sjálfa. Og svo er það tónlistin fallega sem ómar yfir framvindunni og nær ákveðnum hápunkti í blálokin þegar systurnar vinna og flytja saman lag sem rætur á að rekja til og kallast á við ömmu þeirra, Kanemu. Yfir myndinni allri er hjartanlegur bjarmi, hún er fumlaus og á sannarlega erindi.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila