Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin

Jean Paul Getty (Christopher Plummer) stendur fyrir framan æsta fréttamenn sem spyrja hvort hann ætli að greiða lausnargjald sonarsonar síns, Getty III (Charlie Plummer), sem hefur verið rænt á Ítalíu. Getty glottir við tönn, svarar neitandi og gengur í burtu eins og Jesús á vatni enda ósnertanlegur þar sem öll velsæld heimsins er hans. Ridley Scott þekkir góða sögu þegar hann sér hana og þetta þema; peningagræðgi andspænis fjölskyldutryggð, er síendurtekið í myndinni All the Money in the World (2017) sem byggð er á sönnum atburðum og greinir frá ráninu á barnabarni hins kaldhamraða auðkýfings og hvernig móðir fórnarlambsins, Abigail „Gail“ Harris (Michelle Williams), berst með kjafti og klóm til að endurheimta son sinn. Á milli þeirra stendur svo Fletcher Chase (Mark Wahlberg), fyrrum leyniþjónustumaður, sem Getty ræður til þess að hjálpa Gail við leitina en hlutverk hans er að gefa áhorfendum óhlutdræga innsýn í átök þessara tveggja gilda.

Þó svo að Gail sé átakamiðja myndarinnar og Fletcher sé greinanlegur á hliðarlínunni er meginviðfang hennar Getty sjálfur. Persónueinkenni hans, græðgi og einangrun, eru áhorfendum kunnug í örbyggðarhetjum á borð við Bjart í Sumarhúsum sem telur hvern aur og horfir á börn sín sem tæki til aukins sjálfstæðis í hinum jarðneska heimi. Báðar persónur myndu aldrei segja skilið við veraldlegar eigur sínar, hversu smáar sem þær væru, en Bjartur kann ekki að byggja sér hús og verður því sorgleg söguhetja á meðan Getty býr í höll og því sýndur sem hið versta illmenni. Plummer, sem tilnefndur er til Óskarsverðlauna fyrir hlutverkið, gefur Getty aukið mannlegt vægi með ljúfu augnarráði og litlum brosum sem afhjúpa mann sem veit að hann á allt sem hann girnist þó ekki sé það nóg. Efst á óskalistanum er nefnilega stofnun ættarveldis og til að undirstrika það telur hann sig vera rómverskan keisara endurborinn. Út úr persónu hans má lesa aldalanga arfleifð stéttaskiptingar og valds sem stangast svo á við persónu Gail sem sýnir mannlegan þráð sögunnar. Gail er ávallt með karlmenn í kringum sig sem biðja hana um að fórna grunngildum sínum fyrir mammón. Sem merkisberi góðra gilda reynir hún að halda börnum sínum hlífisskildi eftir að ókindin, afi þeirra, kaupir sig inn í líf þeirra. Gail skilur tilfinningalegar þarfir barnanna á meðan Getty nálgast þær út frá eigin ágæti og þörf þeirra á peningum hans. Þetta sést til dæmis þegar hún faðmar dætur sínar uppi í rúmi á meðan hann kaupir enn einn listmuninn, fágætt málverk af móður sem heldur utan um barn sitt. Verðmætin sem Gail raungerir þarf Getty að kaupa í formi listmunar.

Nú á tímum eru auðjöfrar eins og Getty fleiri en áður og eigur þeirra meiri en nokkru sinni fyrr. All the Money in the World nýtir gremjuna sem misskiptingin skapar og stillir upp vondri yfirstétt gegn góða pöplinum. Hugsanlega til að selja okkur miða í bíó svo við getum samsamað okkur ljúfu og einföldu lífsviðhorfi. En það er samt ekki boðskapurinn sem gerir All the Money in the World að áhugaverðri mynd – hafa ber í huga að meira að segja titillinn selur – heldur felst aflvaki myndarinnar í íburði, ríkidæmi og persónugerð ókindarinnar sjálfrar, Gettys. Ridley Scott stillir upp siðgæði þeirra sem dvöldu á neðra þilfari Titanic sem eftirbreytnisverðu, samhliða því sem hann veit, líkt og James Cameron gerði einnig, að það er syndumspillt framferði og glitrandi óhóf þeirra á hæðinni fyrir ofan sem í raun heillar áhorfendur.

Um höfundinn
Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson

Vilhjálmur Ólafsson er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila