„Ég vil afklæða þig með kossum, hægt og rólega“

Þegar þessi orð eru skrifuð (5. febrúar 2018, kl. 15.19) hefur upprunalega útgáfan af laginu „Despacito“ með þeim félögum Luis Fonsi og Daddy Yankee verið spiluð 4,8 milljarða sinnum á YouTube. Þrátt fyrir gegndarlausa spilun á síðasta ári bar lagið skarðan hlut frá borði þegar kom að Grammy-verðlaununum og íslensku Hlustendaverðlaunum. Í Áramótaskaupinu 2017 var síðan slökkt á laginu í stað þess að gera sér mat úr því. Hvað skýrir þetta óþol og hvaðan kemur þetta lag?

Luis Fonsi, Erika Ender og Daddy Yankee

Erika Ender samdi „Despacito“ ásamt Luis Fonsi.

Góður upphafspunktur er að fræðast meira um Luis Fonsi og Daddy Yankee og þá tónlistarstefnu og það land sem bindur þá saman: Reggaeton og Púertó Ríkó. Einnig er þarft að minnast á að panamska söngkonan Erika Ender samdi lagið með Luis Fonsi en þar sem hún kemur ekki fram í flutningum virðist hún ávallt gleymast. Fonsi hefur starfað sem söngvari og lagahöfundur síðan 1998 og aðallega einbeitt sér að rómansk-amerísku poppi. Hans fyrsta smell „Comenzaré“ má flokka sem nokkuð hefðbundið popp. Síðan hefur hann haldið sig nokkurn veginn innan þessarar stefnu, en í fyrra varð breyting á og samstarf hans með „konungi reggaetonsins“, Daddy Yankee, hefur haft víðtækar afleiðingar.

Reggaeton-tónlist

Reggaeton varð til í Púertó Ríkó á tíunda áratugnum og er blanda af hipphoppi, rómansk-amerískri tónlist og tónlist frá Karíbahafinu. Þetta er í raun rapptónlist á spænsku þar sem rómansk-amerískir taktar eru áberandi. Þessi áhrif má greina í „Despacito“ þegar Daddy Yankee rappar í einum hluta lagsins. Hann er talinn brautryðjandi í þessari gerð tónlistar og hefur samið reggaeton-tónlist allt frá árinu 1992. Hann sló samt ekki í gegn fyrr en 2004 þegar lagið „Gasolina“ fór eins og eldur í sinu (eða bensíni) um heimsbyggðina og heyrðist jafnvel í íslensku útvarpi um tíma á FM957.

Lag leikskólabarna

En er „Despacito“ yfir höfuð gott lag? Um það má vissulega deila og líklega hefur lagið aðallega slegið í gegn út af litríku myndbandi með föngulegum konum og skemmtilegum takti og svo vegna þess að jafnvel íslensk leikskólabörn geta hermt eftir viðlaginu „Deh-pa-sító!“ Kannski var þetta viðbúið? Lagið er sungið á spænsku, sem er það tungumál sem flestir jarðarbúar eiga að móðurmáli á eftir mandarín, og hálfur milljarður manna talar það sem fyrsta og annað mál.

Tilgangur Fonsi var að búa til lag sem væri þægilegt að syngja og mjög dansvænt, eins og hann sagði í viðtali við argentínska blaðið Clarín. Textinn er sem betur fer þó ekki skiljanlegur leikskólabörnum. Að mestu leyti fjallar hann um að sá sem syngur vilji kynnast konu, hægt og rólega, sem er hrá þýðing á orðinu „despacito“. Síðan þróast hann út í kynferðislegri sálma, til dæmis segir þar: „Ég vil afklæða þig með kossum, hægt og rólega“. Á öðrum stað er sagt: „Leyfðu mér að kanna þín hættusvæði, svo að þú öskrir og gleymir ættarnafni þínu“. Daddy Yankee hefur síðan rapptexta sinn á að krefjast þess að fá koss frá konunni, þótt ekki komi fram hvort það sé sú sama og Luis syngur til. Það verður því seint sagt að textinn uppfylli Bechdel-prófið.

Daddy Yankee er talinn brautryðjandi í reggaeton-tónlist.

Latínókvöld og Grammy-verðlaunin

Rómönsk-amerísk tónlist er byrjuð að gera sig talsvert gildandi víða um heim. Hér á Íslandi eru reglulega haldin latínókvöld á skemmtistaðnum Kofa Tómasar frænda þar sem plötusnúður spilar eingöngu tónlist frá þessum heimshluta. Vinsældirnar mátti auk þess sjá á Grammy-verðlaunahátíðinni í ár þar sem „Despacito“ fékk þrjár almennar tilnefningar sem Besta smáskífan, Besta lagið og Besti hópflutningurinn. Veitt eru fern Grammy-verðlaun í flokki rómanskrar tónlistar: Besta rómansk-ameríska poppplatan, Besta rómansk-ameríska rokk/hipphopp/jaðartónlistarplatan, Besta svæðisbundna mexíkóska platan og Besta rómansk-ameríska hitabeltistónlistin (e. Tropical Latin album). „Despacito“ fékk engar tilnefningar í þeim flokkum, líklega vegna þess að það var tilnefnt í aðalflokkunum.

Þar með er ekki sagt að lagið umrædda sé gott, enda fékk það engin Grammy-verðlaun þrátt fyrir gríðarmikla hlustun, eða kannski einmitt út af henni. Það fékk hins vegar öll verðlaunin á Rómansk-amerísku Grammy-hátíðinni í nóvember í fyrra, sem er sérstök hátíð tileinkuð rómansk-amerískri tónlist. Lagið fékk þar verðlaun fyrir Smáskífu ársins, Lag ársins, Besta flutninginn og Besta stutta tónlistarmyndbandið. Það virðist því eiga meira upp á pallborðið í Rómönsku-Ameríku en annars staðar. Hér heima hlaut lagið (endurhljóðblönduð útgáfa með Justin Bieber) í lægra haldi fyrir Ed Sheeran og lagi hans „Perfect“ á Hlustendaverðlaununum 2018. Sjálfur tel ég líklegt að lagið hafi verið ofspilað og ofnotað. Ekki bætti úr skák að hinn heimsfrægi Justin Bieber gerði endurhljóðblöndun af laginu, án þess þó að geta sungið textann á spænsku, og var af því tilefni sakaður um að eigna sér menningu annarra. Sú útgáfa er enda margfalt verri en sú upprunalega.

Ráð fyrir þreytta hlustendur

Besta ráðið ef lagið, sem ég nenni ekki að nefna lengur, leggst á heilann er að spila eitthvert annað lag frá sama heimshluta. Ég mæli með öðrum brautryðjanda á sviði reggaeton-tónlistar: Tego Calderón en lag hans „Pa‘ que retozen“ hljómar enn í öllum betri partýjum. Síðan er það maðurinn sem ég gæti trúað að muni eiga næsta ofursmell: Nicky Jam en lag hans „Travesuras“ er nálægt því að komast í milljarða klúbbinn á YouTube. Þrjú laga hans eru þar nú þegar: „Hasta el amanecer“, „El perdón“ og „El amante“. Ljóst má vera að „Despacito“ var einungis fyrsta rómanska-ameríska lagið til að verða ofursmellur á YouTube og um heim allan en varla það síðasta.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Vignir Árnason

Vignir Árnason

Vignir Árnason er meistaranemi í ritlist.

[fblike]

Deila