Árið 2016 kom út áhugaverð bók sem of mikil þögn hefur ríkt um. Hugsanlega veldur efnið þar miklu um og er það kaldhæðnislegt þar sem ritið ljáir einmitt þögguðum hópi rödd en það fjallar um ömmur. Kynni okkar af eigin ömmum eru eins ólík og við erum mörg. Móðuramma mín lést mörgum áratugum áður en ég fæddist. Um föðurömmuna á ég aftur á móti tvær ljúfar en afar óljósar minningar. Í mínum huga hefur orðið amma því óljósa en dularfulla merkingu. Meðal annars þess vegna eru ömmur andlitslaus hópur gamalla kvenna í mínum huga. En ömmur eru ekki alltaf gamlar. Þær sem ekki urðu ömmur ungar voru þó eitt sinn ungar. Allar ömmur hafa einnig átt sér sögu og haft sín áhrif á umhvefi sitt og samfélag — sumar hverjar langt út fyrir hóp eigin afkomenda.
Í bókinni er að finna 11 ritgerðir eftir jafnmarga höfunda auk færðilegs inngangs eins ritstjórans, Irmu Erlingsdóttur og formála eftir forseta Íslands, sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson. Sumir höfundanna fjalla um báðar ömmur sínar eða langömmur ef því er að skipta. Þannig er fjallað um 16 konur og þó tvær að auki sem vikið er að í inngangi ritstjórans. Elsta konan var fædd 1853 en ein er enn á lífi (f. 1926). Ritið spannar því kvennasögu í rúm 160 ár en á fyrri hluta þess tímabils hóf nútíminn innreið sína í íslenskt samfélag með öllum þeim breytingum meðal annars á stöðu, kjörum og hlutverkum kvenna. Eins og gefur að skilja eru þær myndir af ömmum sem brugðið er upp því næsta ólíkar. Fjölbreytnin í ritinu stafar líka öðrum þræði af því að höfundarnir koma af mjög mismunandi fræðasviðum hug-, félag- og menntavísinda með enn ólíkari rannsóknaráherslur. Hér er því um gott þverfræðilegt rannsóknarrit að ræða.
Önnur hlið fjölbreytileikans felst í kjörum kvennanna sem fjallað er um. Margar komu úr neðstu lögum samfélagsins, lifðu við skort og höfðu enga möguleika til að láta drauma sína rætast. Aðrar voru mun betur settar eða lifðu mikinn hluta ævinnar eftir að nútíminn með öllum sínum tækifærum hafði hafið innreið sína og gátu af þeim sökum skapað sér örlög sjálfar.
Þrátt fyrir fjölbreytileika ritgerðanna liggur þó rauður þráður í gegnum þær allar sem sé saga sem lengst af lá í þagnargildi, saga kvenna sem ekki höfðu rödd í hinu opinbera rými og skorti t.a.m. lengi atkvæðisrétt. Ein hreppti jafnvel þau dapurlegu örlög að hljóta kosningarétt en glata honum að nýju vegna félagslegrar örbirgðar.
Þá er ótalinn mikilvægur kostur sem Margar myndir ömmu hefur umfram mörg önnur svipuð ritgerðasöfn. Auk þess að segja sögu sem allt of lengi hefur verið þagað yfir er glímt við fjölmörg aðferðafræðileg viðfangsefni sem skjóta upp kollinum þegar skrifa skal sögu þaggaðra einstaklinga og félagshópa en líka þegar fjallað skal um menn eða málefni sem fræðimönnunum eru nákomnir og þeir hafa jafnvel verið tengdir tilfinningaböndum. Þar er raunar komið að einu af þeim atriðum sem ollu því að þagað var um ömmur og fjölda annarra samfélagshópa um daga þeirrar söguritunar sem umfram allt leitaði hlutlægni og hlutleysi. Hér er á hinn bóginn glímt við þau vandamál sem upp koma og leitað lausnar á þeim. Fléttu-heftið um ömmurnar er því mikilvægur skerfur til endurritunar sögunnar á breiðum grundvelli — í þessu tilviki Íslandssögunnar á á mótum nútímans og gamla sveitasamfélagsins.
Eftir að hafa lesið Margar myndir ömmu hefur vaknað hjá mér áhugi að kynnast frekar ömmum mínum og umhverfi þeirra þótt þar sé við ramman reip að draga. Hvorug lét eftir sig skriflegar heimildir og þeir ekki margir sem muna enn eftir þeim. Af ritgerðunum í bókinni má þó ráða að með hugkvæmni og skapandi vinnubrögðum má lengi grafa upp brot til að raða saman í eitthvað sem að lokum getur orðið að minnta kosti óljós mynd. Bókin vakti því sannarlega margar ágengar vangaveltur hjá þessum lesanda hér og líklegt er að svo verið um fleiri.
Margar myndir ömmu
Konur og mótun íslensks samfélags á 20. öld.
Ritstj.: Irma Erlingsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir.
Fléttur IV
Reykjavík: Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum, Háskólaútgáfan, 2016
[fblike]
Deila