Engar stjörnur mæla með á RIFF 2017

Engar stjörnur, gagnrýnendalið kvikmyndafræði Háskóla Íslands, hefur tekið saman lista yfir þær 5 kvikmyndir á RIFF sem hópurinn mælir með, og telur að áhugasamir kvikmyndaunnendur ættu að leggja sérstaka áherslu á að sjá meðan á kvikmyndahátíðinni stendur. Listinn er þannig samsettur að þær myndir sem flest atkvæði hlutu raðast efst en allar fá gæðastimpil Engra stjarna.

1. Visages Villages (Andlit smábæja/Faces Places, 2017) í leikstjórn Agnés Varda.

Agnés Varda er á níræðisaldri og á að baki einn merkasta feril nokkurs núlifandi leikstjóra. Hún kvað sér hljóðs sem einn af lykilleikstjórum frönsku nýbylgjunnar með La Pointe Courte (1955) og Cléo de 5 à 7 (Cleo frá 5 til 7, 1962), og fagnaði því sextíu ára leikstjóraafmæli sínu fyrir tveimur árum. Árið 2008 sendi hún frá sér sjálfsævisögulegu heimildarmyndina Les plages d’Agnès (Strendur Agnesar), þar sem hún lítur um öxl og veltir vöngum yfir leikstjóraferli sínum og minnist samferðarmanna. Sú er ein merkasta heimildarmynd síðustu áratuga og Visages Villages má e.t.v. líta á sem sjálfstætt framhald. Hún vakti gríðarlega athygli á Cannes í vor og var af mörgum talin merkasta framlagið í ár til þessarar mikilvægustu kvikmyndahátíðar veraldar. Ef þú sérð aðeins eina mynd á RIFF þetta árið – sem við auðvitað vonum að sé ekki tilfellið, heldur að þú sjáir margar, fjölmargar – þá er þetta myndin sem ætti ekki fram hjá þér að fara.

Sýnd:
5. október, kl. 19.00, Háskólabíói
8. október, kl. 16.45, Háskólabíó

2. Tom of Finland (Tom frá Finnlandi, 2017) í leikstjórn Dome Karukoski.

Heimildarmynd um finnska listamanninn Touko Laaksonen, en hann hlaut alþjóðlega frægð fyrir teikningar sínar af óþvinguðum, stoltum, vöðvastæltum hommum. Hann merkti myndirnar með nafninu „Tom of Finland“. Myndirnar urðu vinsælar víða og settu aukinn kraft í hreyfingu samkynhneigðra.

Sýnd:
2. október, kl. 19.15, Háskólabíói
7. október, kl. 20.00, Háskólabíó

3. Fitzcarraldo (1982) í leikstjórn Werner Herzog.

Sagan um Sweeney Fitzgerald, mjög staðfastan mann sem er harðákveðinn í að byggja óperuhús í miðjum skóginum.

Sýnd:
5. október, kl. 17.15, Háskólabíó

4. Grab and Run (Hrifsið og flýið, 2017) í leikstjórn Roser Corella.

Frá því Kirgistan fékk sjálfstæði árið 1991 hefur hin gamla hefð Ala-Kachuu eða „Hrifsið og flýið,“ skotið upp kollinum á ný. Yfir helmingur kirgiskra kvenna eru giftar mönnum sem hafa rænt þeim. Sumar hafa flúið eftir að hafa verið beittar miklu ofbeldi. En flestar eru sannfærðar um að vera um kyrrt vegna hefðarinnar og ótta við hneyksli.

Sýnd:
2. október, kl. 18.30, Norræna Húsið
6. október, kl. 22.30, Háskólabíó
8. október, kl. 14.45, Háskólabíó

5. Looking for Oum Kulthum (Leitað að Oum Kulthum, 2017) í leikstjórn Shirin Neshat.

Mitra byrjar á draumaverkefni sínu að gera kvikmynd um hina víðfrægu egypsku söngkonu Oum Kulthum. Myndin segir frá baráttu og fórnum Oum Kulthum og hvað velgengnin kostaði hana sem listakonu í samfélagi þar sem karlmenn ráða ríkjum.

Sýnd:
2. október, kl. 21, Háskólabíó
8. október, k. 15, Háskólabíó

Aðrar myndir sem mælt er með: Distant Constellation, Gabriel And the Mountain, God’s Own Country, Julia ist, Candelaria, Bobbi Jene, Borg vs. McEncore, Brexitannia, Vinterbrodre og Nothingwood.

Að lokum vilja Engar stjörnur óska RIFF til hamingju með dagskrá hátíðarinnar. Enn eitt árið kemur RIFF færandi hendi með alþjóðleg librigði kvikmyndalistarinnar inn í aðvífandi skammdegið.

Bestu kveðjur, Engar stjörnur

Heimasvæði Engra stjarna.

 

[fblike]

Deila