Framtíðin og barnið

Leikritið Andaðu (Lungs) eftir Duncan Macmillan er áhugavert verk. Þar glímir par á þrítugsaldri við spurninguna um hvort rétt sé að eignast barn – eða ekki. Sú spurning felur líka í sér um ákvörðun um sambandið, axla þau sameiginlega ábyrgð – eða ekki? Ætla þau að trúa á lífið og framtíðina – eða ekki?

Skynsamlegt og rökrétt svar við þessum spurningum er ekki til enda eru þær í raun trúarlegar og snúast ekki um rök eða skynsemi.  Og þau geta ekki svarað þeim, þar og þá. Og því fer sem fer – í fyrstu umferð.

Persónurnar tvær í leikritinu Andaðu, konan (Hera Hilmarsdóttir) og karlinn (Þorvaldur Davíð Kristjánsson), eru mennta- og listamenn, alin upp í efahyggju og ótta við að vera ekki gott heldur vont fólk sem stefnir hratt í heimsendi loftslagshlýnunar og umhverfisslysa,  leiksoppar illra örlaga þar sem öll gerendahæfni virðist rokin út í veður og vind. Þau geta ekki bjargað neinu prívat og persónulega og hvers konar ábyrgðartilfinning væri það þá að fæða enn eitt barnið inn í þennan súra heim? Samt þrá þau það. Þetta vandamál þarf að leysa og þau eru svo hrædd við að eyðileggja sambandið í leiðinni að allar samræður enda á orðinu: Fyrirgefðu. Það er algengasta staka orðið í öllu leikritinu. Allar samræður eru þannig afturkallaðar og byrjað upp á nýtt!

Stundum var sektarkennd parsins, einkum hennar, svo yfirþyrmandi og móðursýkisleg að minnti á Woody Allen (O MY GOD – I think I´ve become polymorph perverse!)  Bæði í textanum og sýningunni er gert létt grín að áhyggjunum á köflum – en þær eru hápólitískar.

Duncan Macmillan ætlaði fyrst að skrifa leikrit sem sviðsetti hnitmiðaðar samræður án sviðsmyndar, leikið á svörtu sviði með einn ljóskastara – sýningu sem (vonandi) héldi áhorfendum hugföngnum af list leikarans í tvo tíma. Verkið ætti að verða „bein íhlutun í líf áhorfandans“.

Ekki hugnast öllum  leikstjórum svo látlaus sýning og á netinu má sjá ýmiss konar stílfærslu í uppsetningu verksins. Sá frægi, breski leikstjóri Katie Mitchell sem Macmillan hefur unnið mikið með lét leikarana sína á Schaubühne í Berlín leika textann hvort á sínu æfingahjólinu og knýja ljósin í  sýningunni með því að stíga hjólin – þegar orkan var í hápunkti varð hún uppljómuð en undir lokin dvínaði og dó ljósið út.

Þórey Sigþórsdóttir, leikstjóri verksins, trúir á texa Macmillan en mótvægi við hinn langa, dramatíska texta er mikil hreyfing og líkamleiki, mikil nánd leikaranna Heru og Þorvaldar Davíðs og aftur nánd þeirra við áhorfendur. Til liðs við sýninguna hefur Þórey fengið danshöfundinn, Alicju Ziolko. Báðir leikararnir eru kattliðugir og dansa hvor kringum annan af  mýkt og þokka – en líka hörku og fjarlægð þegar því er að skipta. Sviðið er miðja stóra salarins í Iðnó sem leikhópurinn hefur breytt í hringleikasvið, áhorfendur sitja í kringum þau. Það krefst útsjónarsams leikstíls sem þessir góðu leikarar hafa fullkomið vald á.

Hera og Þorvaldur Davíð hrifu áhorfengur með sér inn í verulega einlægt en um leið pólitískt verk sem gaman var að sjá.

Maður: Þorvaldur Davíð Kristjánsson
Kona: Hera Hilmarsdóttir
Leikstjóri: Þórey Sigþórsdóttir
Þýðing: Hera Hilmarsdóttir
Útlit kynningarefnis: Ingi Kristján
Ljósmyndir: Kristín Bogadóttir
Kynningar- og markaðsstjóri: Ingibjörg Gréta Gísladóttir
Framleiðandi: Leikfélagið Fljúgandi fiskar

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila