Undirtónn

Sigurður Pálsson
Ljóð muna rödd
JPV, 2016
Merkja má sterkan undirtón í nýjustu ljóðum Sigurðar Pálssonar sem hann deilir með okkur í bókinni Ljóð muna rödd. Röddin í ljóðunum er djúplæg og stöðug:

Rödd
alltaf rödd
bakatil í draumunum

Rödd sem heyrist varla
Rödd sem hverfur ekki
Skrýtið

Rödd sem er líf
Ég finn fyrir henni
Bakatil í draumunum

Alltaf[1]

Þetta er röddin sem gefur bókinni sjálfri og einum að fjórum hlutum hennar nafn en hann heitir „Raddir í loftinu“.

Lífsógn

Ljóðin eru ort á viðsjárverðum tímum. Skáldið veit að við sjóndeildarhringinn bíður skuggi, óvelkominn gestur, sem bíður færis að gefa sig fram og kveðja hann til fylgdar:

Nú bíður hann færis
þessi sem ég vil ekki nefna
bíður færis ég finn það[2]

Þessi ágengi gestur kemst þó ekki nær meðan skáldið getur rækt köllun sína sem felst í að „breyta draumum í orð“.[3] Skáldið óttast þó ekki hinn óboðna gest:

Ég ber enga virðingu fyrir honum
hann kemur þegar hann kemur
„Kom þú sæll, þá þú vilt“[4]

Skáldið veit samt að „síðasta daginn“ mun „rólegt svarthol“ gleypa hann, okkur, ljósið og allt sem er.[5] Þetta gráðuga, allt gleypandi myrkur kemur líka fram í ljóðinu „L´empire des lumières“ sem fjallar um tvö málverk eftir Magritte:

magritte
Ein af myndunum í myndaröðinni L’Empire des Lumières eftir René Magritte.

— — —
Sjö ár á milli myndanna
Líf mitt dregst saman
dregst stöðugt innar

inn að tjörninni
þar sem ljósin speglast

dregst inn að myrkrinu
sem speglar engin ljós[6]

Myrkrið ógnar skáldinu þó síður en svo:

Treystu náttmyrkrinu
fyrir ferð þinni

heitu ástríku
náttmyrkrinu

Þá verður ferð þín
full af birtu

frá fyrstu línu
til þeirrar síðustu[7]

Nýir möguleikar

Þrátt fyrir „svarthol“, „hyldýpi og „svimandi þverhnípi“ sem krefst þess að skáldið og lesendurnir standist „tómið og svimann“ vekur „svefninn“ og „draumurinn“ líka með honum grun um alveg nýja möguleika:

— — —
Svefninn færði mér draum
Draumurinn færði mér grun

um hyldýpi
um nýtt rými
nýjan  tíma
— — —[8]

Nokkru aftar í sama ljóði sem ber heitið „Það voru þarna litir“ er rætt um grun

— — —
um hyldýpi og fullvissu
um hina góðu fregn:

Nýtt rými
Nýjan tíma

fullvissu um nýja liti
og eilíft bergvatn[9]

Þetta er fagnaðarerindi, evangelíum, sem Sigurður boðar í Ljóð muna rödd. Í myrkrinu, útslokknuninni, felst nýtt rými, nýr tími, nýir litir. Að baki svarthols, hyldýpis og svimandi þverhnípis býr von um nýtt upphaf.

Glaðværð

Vegna þessa er ekki að undra að undirtónninn í ljóðum Sigurðar er alls ekki myrkur. Hann einkennist þvert á móti af „sólríkri glaðværð“ en í henni felst „rétta innstillingin“ eða lífsafstaðan að hans mati.[10] Glaðværðin er frumforsenda lífsins:

Að vera lifandi
er að viðhalda glaðværri spurn
og undrun

sem kviknar á hverjum morgni

fellur eins og
manna
brauð af himnum
— — —[11]

En eins og manna forðum geymast ekki spurningar og undrun …

Þess vegna
eiga nýjar spurningar
að kvikna
á hverjum morgni

Ný undrun
nýjar spurningar

verða að kvikna[12]

Í þessu felst lífið, nýrri undrun, nýjum spurningum og glaðværð sem kviknar með hverjum degi. Líklega er þarna komin skýringin á hinu mikla höfundarverki Sigurðar Pálssonar. Líklega hefur hann lifað þá gæfu að vakna hvern morgun til nýrra og ferskra spurninga.

Lokaljóð bókarinnar „Kærleikur“ er líka samfelldur óður til glaðværðarinnar:

Með kvöldinu birti stöðugt
Um miðnætti voru létt ský á himni
geislandi glaðvær

Ský sem heita örugglega eitthvað
við heitum líka örugglega eitthvað

Hvaðan kemur þessi birta
sem stöðugt vex með kvöldinu?

Hvaðan kemur þessi
geislandi glaðværð?
Öll þessi heilaga gleði!

Vatn í geislandi skál
Geislandi vatn í skál[13]

Víðar kveður við þennan tón sem ekki er alltaf undirtónn.  „Haustlitasinfóníunni“ sem fjallar um „haustið eilífa“ þegar engir litir „komast hjá því að breytast“ lýkur þannig:

— — —
Og haustið skipar þeim
að hætta að væla
skipar þeim harðri hendi

að gegna hlutverki sínu
göfugu hlutverki sínu:

Að syngja hinu hverfula dýrðaróð
Syngja hinu horfna saknaðaróð
Syngja hinu ókomna fagnaðaróð[14]

Engin léttúð

Glaðværi undirtónninn í ljóðum Sigurðar Pálssonar er ekki léttúðugur og hann leiðir ekki hjá sér alvöru lífsins eða óréttlætið í heiminum. Bálkurinn „Raddir í loftinu“ hefst þannig:

Hvað sem hver segir
byggir friður á réttlæti

Hvað sem hver segir
er fegurðin ekki skraut
heldur kjarni lífsins

Já gefðu mér rödd
gefðu mér spámannsrödd
til að bera fegurðinni vitni

Gefðu mér rödd
til að bera réttlætinu vitni[15]

Þetta er ómstrítt baráttuljóð og við svipaðan tón kveður síðar í bálkinum:

Röddin kom skyndilega og hvíslaði:
Þú átt þessi fjögur orð
á blaðinu

Frelsi
Löngun
Gleði
Hamingja

Ekki láta neinn ljúga öðru að þér

Moldin fýkur upp
af flaginu

Leggðu stein ofan á blaðið
svo það fjúki ekki[16]

Gæfa

Mikil er sú gæfa sem felst í að geta horft inn í myrkrið sem bíður okkar allra, skynja það jafnvel á næsta leyti en geta samt sungið glaðværðinni og fegurðinni lof og barist fyrir réttætinu. Bara að við lesendurnir mættum læra þá list af skáldinu.

[line]
[1] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, Reykjavík: JPV útgáfa 2016, bls. 11
[2] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 8.
[3] S. st.
[4] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 26.
[5] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 37.
[6] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 67.
[7] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 25.
[8] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 57.
[9] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 58.
[10] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 7.
[11] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 49.
[12] S. st.
[13] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 75.
[14] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 70.
[15] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 41.
[16] Sigurður Pálsson, Ljóð muna rödd, bls. 46.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila