Mjólkurhvítt víti

Athena Farrokhzad
Hvítsvíta
Þýðandi: Eiríkur Örn Norðdahl
Mál og menning, 2016
Athena Farrokhzad (f. 1983) hefur getið sér gott orð fyrir verk sín í Svíþjóð og starfar jöfnum höndum sem höfundur, bókmenntagagnrýnandi og ritlistarkennari. Hún er fædd í Íran og ólst upp í Gautaborg. Hún hefur gefið út verk í samstarfi við aðra listamenn og skrifað leikrit auk þess sem ljóðabókin Hvítsvíta (Vitsvit) var tilnefnd til Augustverðlaunanna árið 2013.

Hvítsvíta er margradda verk þar sem ólíkir fjölskyldumeðlimir taka til máls og skiptast á að varpa fram stökum setningum. Þarna eru á ferðinni bróðir, faðir, móðir, amma og frændi og allar setningar byrja á svipuðum þremur orðum eins og „Móðir mín sagði:“ eða „Faðir minn sagði:“. Alltaf eru það ættingjar ljóðmælanda sem tala og þannig er minnt á tengslin. Þessar endurtekningar virka nánast yfirþyrmandi og ágengar þegar líður á bókina. Að baki „móðir mín sagði“ er heill heimur flókinna tengsla, fortíð sem er lesandanum hulin. Á fyrstu síðunni er fjallað almennt um móðurina en á næstu síðu hefst hið margradda form sem heldur sér út alla bókina. Hægt er að líta á þessa fyrstu síðu sem einhvers konar inngang (það að síðan sé ónúmeruð styður það) en þar segir í lokin:

Að hugsa sér að ég hafi sogið þessi brjóst
Að hugsa sér að hún hafi stungið villimennsku sinni upp í mig

Ávörp persónanna eru ekki endilega til ljóðmælanda og lesanda heldur ávarpa persónurnar hver aðra og tala jafnvel hver um aðra og þannig magnast upp átök og spenna. Í ljóðunum er samtal á milli kynslóða, samtal ólíkra menningarheima, raddir úr ólíkum víddum. Oft tala persónurnar í boðhætti og leggja ljóðmælanda (og lesandanum um leið) lífsreglurnar. Þess á milli tjá persónurnar eigin veruleika, reynslu og afstöðu.

Í ljóðunum er samtal á milli kynslóða, samtal ólíkra menningarheima, raddir úr ólíkum víddum.
Hin hvíta mjólk kemur víða við sögu (bls. 22, 24-27, 48 og 66). Móðirin færir ömmunni mjólkina aftur og krefur dótturina um að skila aftur mjólkinni. Hin skýlausa krafa sem ein kynslóð gerir til annarrar kemur þarna fram og hin hvíta móðurmjólk rennur á milli kynslóða, nærir og hlekkjar í senn.

Dauðinn er ekki langt undan og raddirnar bera fram óskir um legstað. Þessum persónum liggur mikið á hjarta og þær fjalla um drauma, stríð, sársauka, ofbeldi og hörku. Þær segja: „Grafðu mig ekki hér …“ og dregin er upp mynd af flóknum tilfinningum sem tengjast því sem er hér, því sem er þar, fortíð og nútíð, afleiðingum ofbeldis og ægivaldi þess jafnvel löngu eftir að því er lokið.

Faðir minn sagði: Þar sem að ekkert af þínu fólki liggur grafið í þessari mold
tilheyrir moldin ekki þér
Móðir mín sagði: Ekki fyrren þú grefur mig í þessari mold
tilheyrir moldin þér   (bls. 54)

Tungumálið er miðlægt í bókinni, það að eiga og eiga ekki tungumál, að segja það sem maður segir og það sem ekki má segja, að vera sviptur tungunni og hvernig margir tala í einu og hvernig tungumálið hefur takmarkanir og ofbeldiskraft en neitar því um leið. Í verkinu eru tengd saman áföll ættingja, kynslóða og þjóða sem eru bæði þar og þá og hér og nú. Það er spenna á milli móðurmáls og ríkjandi tungumáls og innan tungunnar felur ofbeldið sig:

Bróðir minn sagði: Þú átt ekkert tungumál til að fordæma níðingsskapinn nema
tungumál níðingsins
og tungumál níðingsins er tungumál sem var skapað til þess að réttlæta
níðingsskapinn   (bls. 62)

Tónninn er harkalegur, kraftmikill og áhrifaríkur.
Ósjálfrátt fer maður að lesa bókina sem mikilvæga rödd innflytjenda og þannig hefur hún almenna skírskotun og lýsir veruleika margra.[1] Tónninn er harkalegur, kraftmikill og áhrifaríkur. Reiðin mallar undir og henni er miðlað óbeint, hún er skugginn að baki hvítra bókstafa, hvíts samfélags. Bókin sýnir lamandi vonleysi en aftarlega glittir í örlitla von þegar móðirin og amman byrja setningar sínar á: „Kannski að við hittumst einn daginn …“ (bls. 67) og svo útlista þær eitthvað til að gleðjast yfir eða hlakka til. Amman nefnir á þremur ólíkum stöðum í bókinni hvernig myntan óx við árbakkann á vorin í Marghacho (bls. 25, 46 og 67). Í lokin er fjallað um fræin sem fá ekki að verða blóm og maður fær það sterklega á tilfinninguna að þessi bók sé skrifuð til að benda á þessi sömu fræ sem fá ekki að festa rætur og fá ekki rödd. Það má líta á verkið sem mikilvægar raddir rótlausra fræja.

Að baki tungumálinu er svartur skuggi, tungumálið er hvítt og sést ekki án skuggans
Hönnun bókarinnar vekur eftirtekt en bókstafirnir eru hvítir á svörtum fleti sem liggur eins og borði/ræma að baki stöfunum. Með þessum hætti fær innihald orðanna að kallast á við letrið og það býður upp á ýmsa túlkunarmöguleika. Hin hvíta mjólk og móðurmjólkin sem birtist á víð og dreif um bókina tengjast þessu einnig. Að baki tungumálinu er svartur skuggi, tungumálið er hvítt og sést ekki án skuggans, tungumál og skuggi eru tengd órjúfanlegum böndum.

Á forsíðu bókarinnar er nafn þýðandans, Eiríks Arnar Norðdahl, en það er ekki algengt að nafn þýðenda fái slíka athygli og í raun til eftirbreytni því þeir mættu vera mun sýnilegri en almennt tíðkast.

Það er ekki algengt að við fáum ljóðabækur ungra erlendra höfunda gefnar út í íslenskri þýðingu. Árið 2014 kom þó ljóðabók hins dansk/palestínska Yahya Hassan út hjá Máli og menningu í þýðingu Bjarka Karlssonar. Þessar tvær ljóðabækur eru um margt ólíkar enda harkan og ofbeldið yfirgengilegra í bók Hassans. Þær eru þó báðar afsprengi þeirrar fjölmenningar sem „blómstrar“ á Norðurlöndunum og draga upp allt aðra mynd en þá sem gjarnan er sýnd af norrænu velferðarsamfélagi. Raddir Íslendinga af erlendum uppruna hafa þó ekki fengið þann hljómgrunn sem þeim ber í bókmenntunum hér á landi og er það áhyggjuefni. Reyndar hefur þriðja hefti Tímarits Máls og menningar þessa árs að geyma sögur höfunda sem búa á Íslandi og eru af erlendu bergi brotin. Einnig styður Ós pressan við slíka höfunda og gefur út tímarit með verkum þeirra. Við höfum þegar fengið ljóðabækur frá Toshiki Toma og Elíasi Knörr svo einhverjir séu nefndir. Þess má geta að Sólveig Ásta Sigurðardóttir skrifaði MA ritgerð í bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 2015 um efnið undir yfirskriftinni Landvistarleyfi í bókmenntaheiminum. Birtingarmyndir innflytjenda í íslenskum samtímaskáldsögum og í lokaorðunum fjallar hún einmitt um skort á höfundum sem eru Íslendingar af erlendum uppruna.

Í öllum samfélögum eru þögul fræ sem fá ekki að blómstra og það eru þau sem bókmenntir og listir þurfa að ljá rödd líkt og gert er í Hvítsvítu.

[line]
[1] Um leið getur verið varasamt að skilgreina bókina alfarið út frá rödd og stöðu innflytjenda því ef það er gert er verið að gefa í skyn að höfundar skrifi einungis út frá þjóðerni auk þess sem slíkt hefur verið notað í öflugri markaðssetningu m.a. á svokölluðum eftirlendubókmenntum og í raun jaðarsett þær. Hér er komin áhugaverð togstreita í þessum ritdómi og vert að gaumgæfa hvort í honum leynist dulin jaðarsetning af nokkru tagi. Ef til vill er ljóðið besta formið til að takast á við svo flókna tilveru sem er full af blindum punktum.

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila