Prjónað af fingrum fram

Kristín Schmidhauser Jónsdóttir
Prjónað af fingrum fram.
Líf og list Aðalbjargar Jónsdóttur. Undurfínir handprjónaðir viðhafnar-
kjólar úr íslenskri ull

Sæmundur, 2016
Íslenska ullin skapar hönnuðum á hvaða aldri sem er óendanleg tækifæri til nýsköpunar. Það mátti til dæmis vel greina á árlegu markaðstorgi Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 3. til 7. nóvember sl. Þar gat á að líta bæði hand- og vélprjónaðar hlýlegar yfirhafnir, húfur og úrval af peysum þar sem íslenska ullin var meginuppistaðan. Íslenska ullin hefur verið Íslendingum mikilvæg afurð um aldir, ofin hafa verið úr henni klæði og fyrsti vísir að smáiðnaði hófst með ullarvefsmiðjunum í Reykjavík seint á átjándu öld. En það var ekki fyrr en um aldamótin 1900 að ullariðnaður hófst að einhverju marki – þekktastar og langlífastar voru klæðaverksmiðjurnar Álafoss (st. 1896) í Mosfellssveit og Gefjun (st. 1908) á Akureyri og vert er að minnast uppgangs í íslenskum ullar- og prjónaiðnaði sem varð á síðari hluta 20. aldar.

Sem betur fer er almenn þekking á prjóni hér á landi enn til staðar og áhuginn fer vaxandi ef marka má útgáfu undanfarin ár á prjóna- og handvinnubókum með tilheyrandi uppskriftum og leiðbeiningum. Auðveldara virðist að fá slíkar bækur gefnar út frekar en þær sem fræðilegri eru. Það er því mjög ánægjulegt að bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi hefur nýlega gefið út bókina Prjónað af fingrum fram. Líf og list Aðalbjargar Jónsdóttur. Undurfínir handprjónaðir viðhafnarkjólar úr íslenskri ull. Höfundur er Kristín Schmidhauser Jónsdóttir , handavinnukennari og sagnfræðingur, sem um árabil hefur skoðað og birt greinar um handverk á Íslandi og má síðast minna á nýlega MA-ritgerð hennar í sagnfræði frá HÍ, Fíngerð fegurð í sporum kvenna. Útsaumur frá síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld. Þar skýrir hún m.a. hvernig útsaumsverk íslenskra kvenna færðu nýja þekkingu til Íslands á erlendum útsaumshefðum á við hvítsaum, harðangurs- og klaustursaum o.fl., þ.e.a.s. hefðum sem tengdust miklu frekar nýsprottnu borgarsamfélagi heldur en gamla sveitasamfélaginu.

Sýningarstúlkur í handprjónuðum kjólum eftir Aðalbjörgu
Sýningarstúlkur í handprjónuðum kjólum eftir Aðalbjörgu. Myndin á auglýsingunni var tekin í versluninni Íslenskur heimilisiðnaður sem var í Hafnarstræti 3 í Reykjavík. Mynd á bls. 31 í bókinni.

Hér er fyrst og fremst sögð saga Aðalbjargar Jónsdóttur (f. 1916) sem hefur prjónað af fingrum fram, í bókstaflegri merkingu, marga fínlega kjóla úr Gefjunareingirni sem „bregða ljósi á eiginleika og sérstöðu íslensku ullarinnar“ eins og höfundur kemst að orði í inngangi.  Hér beitir Kristín áhugaverðri aðferð munnlegrar sögu sem hún byggir á tveimur viðtölum við Aðalbjörgu þar sem hún lýsir uppvexti og helstu áföngum í lífi sínu allt fram á síðustu ár en hún er nú nær hundrað ára. Þannig stiklar Kristín í stuttum köflum á lífshlaupi þessarar konu sem gædd er næmu form- og litaskyni og býr yfir einstakri snilld í að útfæra flókin prjónamunstur úr einspunninni íslenskri ull svo úr verða fínlegar peysur, sjöl og viðhafnarkjólar og fléttar saman við frásagnir af torfbænum, tóvinnu, Gefjunareingirninu og sögum af prjónakjólum sem eftirspurn var eftir á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Bókinni var ekki ætlað að vera venjuleg prjónabók með uppskriftum að verkum Aðalbjargar og leiðbeiningum heldur miklu frekar frásögn af sögu og listsköpun alþýðukonu
Bókinni var ekki ætlað að vera venjuleg prjónabók með uppskriftum að verkum Aðalbjargar og leiðbeiningum heldur miklu frekar frásögn af sögu og listsköpun alþýðukonu sem alin var upp í torfbæ í Steingrímsfirði á Ströndum allt til 14 ára aldurs en þá missti hún föður sinn. Í torfbænum kynntist hún verklagi gamla sveitasamfélagsins, lærði tóvinnu og prjón af móður sinni og ömmu en stundaði síðan nám við Kvennaskólann á Blönduósi í einn vetur auk þess að afla sér síðar hagnýtrar menntunar í kjóla- og kápusaumi. Hún giftist ung, varð sjö barna móðir og flutti með stóra fjölskyldu sína til Reykjavíkur árið 1947. Upp frá því rak hún saumastofu á heimili sínu, samhliða húsmóðurstörfum. Þar sneið hún og saumaði bæði drengja- og telpuföt sem og kjóla, dragtir, kápur og fína samkvæmiskjóla fyrir konur. Hún naut vinsælda sem vandvirk saumakona en hætti þeirri starfsemi um miðjan áttunda áratuginn. Þegar hér var komið sögu var Aðalbjörg komin á sjötugsaldur og þá hófst ævintýrið með handprjónuðu flíkurnar úr einspunninni íslenskri ull.

hugras_prjonad2
Þríhyrna Þórdísar Egilsdóttur (1878–1961) úr einspunninni íslenskri ull í sauðalitunum. Ljósmynd fengin að láni úr sýningarskrá frá Formes Scandinaves frá 1958.

Það eru einkum handprjónaðir kjólar Aðalbjargar sem athyglin beinist að í þessari bók en hún hóf að prjóna þá í tengslum við þing norrænna heimilisiðnaðarfélaga sem haldið var á Íslandi sumarið 1977. Fyrr á öldinni var þessi hárfína vinna með einspunninn þráð úr íslenskri ull, sem oft má sjá í þríhyrnum og langsjölum, iðkuð um land allt. Þetta voru verk sem rötuðu m.a. á heimilisiðnaðarsýningar og jafnvel á merka norræna hönnunarsýningu, Formes Scandinaves, í París árið 1958–59, sýningu sem sýna átti nútíma listiðnað og hönnun frá Norðurlöndunum. Einn sýningargripurinn, þríhyrna Þórdísar Egilsdóttur (1878–1961) úr einspunninni íslenskri ull í sauðalitunum, sem valin var sem tákn fyrir íslenskan listiðnað í anddyri Louvre sýningarhallarinnar, telst þó frekar til hefða en nútíma.

Viðhafnarkjólar Aðalbjargar, sem taldir eru vera á annað hundrað, bera hinsvegar nútímanum vitni. Hún var í senn hög í höndum og hugmyndarík, teiknaði og gerði skissur og mótaði bæði prjónamunstur og einföld form kjólanna í anda ríkjandi fatatísku. Það var mánaðarvinna að fullgera hvern kjól og flestir þeirra voru prjónaðir í sauðalitunum, laufléttir líkt og um blúndu væri að ræða og nutu vinsælda bæði innanlands og utan. „Margir kjólar seldust til Noregs“ kemur fram í bókinni og „nokkrar óperusöngkonur keyptu kjóla […] einnig konur í sendiráðum og aðrar konur er stóðu í sviðsljósinu“. Líkt og Vígdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sem notaði þá við hátíðleg tækifæri eins og sjá mátti á sýningunni Ertu tilbúin, frú forseti? í Hönnunarsafni Íslands árið 2014.

hugras_prjonad3
Handprjónaðir kjólar eftir Aðalbjörgu í sýningarglugga verslunar Íslensk Heimilisiðnaðar í Hafnarstræti í apríl 1983. Mynd á bls. 93 í bókinni.
Bókin beinir sjónum að merkilegu starfi þessa hæfileikaríka prjónahönnuðar sem lengi tilheyrði þeim þögla hópi íslenskra kvenna sem gerðu prjón, vefnað og sauma af ýmsu tagi að starfi sínu á 20. öld. Hún er jafnframt enn einn óður til ágætis íslensku ullarinnar
Flestir kjólarnir voru prjónaðir á áratugnum 1977–87 og voru sýndir víða á tískusýningum á vegum Íslensks heimilisiðnaðar sem rak vinsæla verslun í Hafnarstræti á þessu tímabili. Þeir fóru einnig á sýningar í Chicago 1979, á sýninguna Listiðn íslenskra kvenna á Kjarvalsstöðum 1980 og á tískusýningu í tengslum við Scandinavia Today í Bandaríkjunum 1983. Sjálf hélt Aðalbjörg einkasýningu á Kjarvalsstöðum í nóvember 1982 og sýndi þar um fjörutíu handprjónaða kjóla. Og allt fram á þennan dag er hún að sýna prjónaverk sín, nú síðast í október 2016 í sýningarsal Kirsuberjatrésins við Vesturgötu í Reykjavík.

Bók Kristínar Schmidhauser Jónsdóttur beinir vissulega sjónum að merkilegu starfi þessa hæfileikaríka prjónahönnuðar sem lengi tilheyrði þeim þögla hópi íslenskra kvenna sem gerðu prjón, vefnað og sauma af ýmsu tagi að starfi sínu á 20. öld. Bókin er jafnframt enn einn óður til ágætis íslensku ullarinnar og tækifærunum sem í henni býr fyrir hönnuði.

Bókin er ríkulega myndskreytt með á annað hundrað ljósmynda með skýringartextum —  misgóðar og jafnvel of margar á hverri síðu. Ljósmyndirnar koma flestar úr safni Aðalbjargar Jónsdóttur. Yfirleitt er vandlega unnið úr heimildum en þess má þó geta að tilvitnun sem eignuð er Jónasi Guðmundssyni, undir myndatexta á bls. 37 og í megintexta á bls. 96, er bein tilvitnun hans í frumheimild, texta Hrafnhildar Schram úr formála í sýningarskrá frá sýningunni Listiðn íslenskra kvenna, en birtist í umfjöllun Jónasar um tiltekna sýningu í Tímanum 22. febrúar 1980. Og væntanlega sökum þess að frásögnin fer fram og aftur í tíma er einnig nokkuð um endurtekningar. Letur er þægilegt aflestrar og pappír góður en hönnun og umbrot voru í höndum Aðalsteins Svans Sigfússonar.

Um höfundinn
Arndís S. Árnadóttir

Arndís S. Árnadóttir

Arndís er sjálfstætt starfandi fræðimaður og sýningarstjóri. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og hafði áður lokið MA-prófi í hönnunarsögu frá DeMontfort háskólanum í Leicester á Bretlandi og BA-prófi frá Háskóla Íslands í bókasafns- og upplýsingafræði með listasögu sem aukagrein. Hún hefur rannsakað og birt fjölbreytt efni m.a. tengt íslenskri hönnunar- og húsgagnasögu og listiðnaði kvenna. Doktorsrannsóknin fjallaði um Nútímaheimilið í mótun. Fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900–1970 og nýverið hlaut hún styrk úr hönnunarsjóði til að rannsaka eldhúsið í íslenskum híbýlum á 20. öld.

[fblike]

Deila