Ósköp saklaus saga um dáinn mann

Unnur Birna Karlsdóttir
Ævintýri um dauðann og saga af venjulegu fólki
Bjartur, 2016
Nýjasta skáldsaga sagnfræðingsins og rithöfundarins Unnar Birnu Karlsdóttur er Ævintýri um dauðann og saga af venjulegu fólki. Áður hefur hún sent frá sér bókina Það kemur alltaf nýr dagur sem hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda.

Steini er ósköp venjulegur maður sem á hefðbundna fjölskyldu, vini og vinnu. Allt ósköp normalt – alveg þangað til hann deyr en það er þá sem saga Unnar Birnu hefst – um það bil sem hann hann missir stjórn á bíl sínum þar sem hann brunar á yfir hundrað kílómetra hraða eftir Keflavíkurveginum og reynir að teygja sig eftir símanum sem hefur dottið niður á bílgólfið. Þessum fyrsta kafla bókarinnar lýkur á fallega ljóðrænan hátt þar sem því er lýst hvernig hinn nýlátni „upplifir“ dauðann og hvernig honum finnst hann vera borinn í burtu, finn hann heyra í niði „hafsins deyja út“ og hann sjálfur „líða burt“ og „allt verða að engu“. Sagan sem svo fylgir í kjölfarið er lýsing á því hvernig Steini tekst á við að vera dáinn en vera engu að siður hér á þessari jörðu og fylgist með fjölskyldu sinni, einkum ástkærri eiginkonunni, takast á við dauða sinn.

Sagan um þann sem deyr of snemma, of snögglega eða ekki á réttu augnabliki og fær ekki, einhverra hluta vegna, að yfirgefa þennan heim um leið hefur oft verið sögð.
Sagan um þann sem deyr of snemma, of snögglega eða ekki á réttu augnabliki og fær ekki, einhverra hluta vegna, að yfirgefa þennan heim um leið hefur oft verið sögð og til allmörg nýleg dæmi. Má hér til að mynda nefna hinar stórgóðu bækur Bókaþjófinn eftir Markus Zusak og Hin fögru bein eftir Alice Shebold sem báðar eru lagðar í munn ungra stúlkna. Og fleiri bækur og höfunda mætti nefna sem hafa reynt fyrir sér með látna sögumenn, svo sem William Faulkner í As I lay Dying og Saving Fish from Drowning eftir Amy Tan. Og það eru ekki aðeins fullorðnir lesendur sem fá að njóta svo óvenulegra sögumanna, unglingar dagsins í dag fá það líka í bókum á borð við Þrettán ástæður, Áður en ég dey og Elsewhere, sem ég held að hafi ekki komið út á íslensku. Sumsé: Unnur Birna fetar ekki ótroðnar slóðir í sínu ævintýri en þó ekki fjölförnustu vegina og raunar hef ég mun oftar rekist á bækur þar sem látnar konur segja frá en karlmaður.

Steini þarf að venjast því að vera dáinn, venjast því að enginn heyrir í honum, hann getur ekki snert neinn en er hins vegar líkamlega fær um ótal margt sem hann ekki gat áður – svo sem að stökkva hátt upp í loft og fljúga. Það tekur hann tíma að átta sig á nýjum takmörkunum og möguleikum og hin nýja tilvíst – mitt á milli lífs og dauða – verður ögn bærilegri þegar hann rekst á konur í svipuðum sporum sem virðast hafa það hlutverk að leiðbeina honum í gegnum þetta tímabil. Þeir kaflar sem fjalla um tilvist hins nýdána eru einkennilega þokukenndir – smáatriðin óljós, staðreyndir fáar og lítið um staðhæfingar og vissu. Jódís og fleiri sem hafa meiri reynslu af dauðanum en Steini veita honum óljós svör sem taka bæði á taugarnar hjá honum og lesendum. Spurningarnar sem Steini varpar fram eru spurningar sem við öll könnumst við og varpa ljósi á hversu lítið við vitum um líf, dauðann og allt þar á milli. Frústreraður og óöruggur spyr hann Jódísi hvar guð sé og hvort hann fái að sjá hann og heldur áfram:

Fæ ég að hitta hann, vera í návist hans? Er hann yfirleitt til, hann er til, er það ekki? Það hlýtur að vera, eins mikið og talað er um hann á Íslandi, alla vega á stórhátíðum. Á maður ekki að komast í guðsríki eftir dauðann, og hvernig kemst ég þangað, eru það englar sem sækja mig eða hvernig gengur þetta fyrir sig? Ert þú kannski engill? Ætlar þú að fara með mig a betri stað, til guðs eða hvað á nú að kalla þetta? (147)

Svarið sem hann fær frá konunni sem ætti að vita meira en hann sjálfur er svipað því svari sem við sjálf myndum fá ef við berðum þessar spurningar upp: „Af hverju heldurðu að það sé til eitthvað sem heitir guð?” (147). Sagan veitir þannig engin svör við lífsgátunni eða hvað gerist þegar við raunverulega yfirgefum þessa jörð en hún bregður ljósi á þær og knýr lesandann til að hugsa um möguleg svör – velta fyrir sér stóru spurningunum.

Ævintýri um dauðann og saga af venjulegu fólki er þægileg bók aflestrar og fjallar um atburði sem allir kannast við.
Fólkið sem Steini skilur eftir eru Lilja, eiginkona hans, og sonur þeirra, Símon. Þess utan á hann foreldra sem honum þykir mjög vænt um, systur og bróðurinn Jóa sem hann var mjög náinn en þeir áttu fyrirtæki saman. Steini eltir þetta fólk og horfir á það án þess að geta nokkuð aðhafst, án þess að geta huggað þau eða aðstoðað á nokkurn hátt. Andlát hans hefur tekið mismikið á þau og einkum er það Lilja sem á um sárt að binda. Hún syrgir eiginmann sinn ákaflega mikið – fær sig ekki til að vinna, borða, snyrta sig eða hugsa um son þeirra hjóna – og Steini, sem lýsir sér sem dálítið stífum og gamaldags karlmanni sem vildi alltaf skaffa fyrir heimilið, á gríðarlega erfitt með að geta ekki gripið inn í og komið lagi á ástandið. Hann þarf sjálfur að sætta sig við það að geta eingöngu verið áhorfandi í lífi ástvina sinna og lesandinn fylgist með honum læra á hið nýja hlutverk og meðlimi fjölskyldunnar læra á lífið án hans. Það er ekki fyrr en allir hafa lært að lifa með dauðanum sem Steini breiðir út faðminn og leyfir vindum að grípa sig – en hvert hann fer, hvern hann hittir og hvað tekur við fáum við ekki að vita.

Ævintýri um dauðann og saga af venjulegu fólki er þægileg bók aflestrar og fjallar um atburði sem allir kannast við og varpar upp spurningum sem allir takast einhvern tíma á við. Textinn er vel skrifaður þótt mér finnist samtöl persónanna stundum helst til uppskrúfuð og olli því meðal annars að mér fannst ég ekki geta nálgast þær nógu mikið – þær urðu að týpum frekar en persónum við lesturinn. Ef til vill er þetta gert viljandi og hugsunin sú að lesendur eigi auðveldara að máta eigin reynslu, ættingja og vini inn í söguna. Sömuleiðis finnst mér aðalpersónan Steini smátt og smátt hverfa mér, verða óraunverulegri, óljósari og ljóðrænni – allt þar til hann finnur að það sé kominn tími til að halda í burtu og snúa aldrei aftur. Þetta er í raun það sem mér finnst best lukkað í sögunni – að sjá hvernig sá dáni sleppir smám saman takinu af lífinu og hvernig það endurspeglast í orðum hans, gjörðum og textanum.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila