Ingmar BergmanMargt hefur verið sagt ljótt um hjónabandið sem stofnun og sennilega allt satt. Ingmar Bergman dró ekkert undan í Scener ur ett äktenskap sem sýnt var í sex sjónvarpsþáttum um allan heim árið 1973 og varð upphaf að miklum skilnaðarbylgjum í Svíþjóð. Tveimur árum síðar skrifaði Suzanne Brøgger hina herskáu bók Fri oss fra kærligheden í Danmörku og boðaði lok hjónabandsins og upphaf frjálsra ásta. Bókin hafði mikil áhrif en höfundurinn upplýsti mörgum árum seinna að á sama tíma og hún boðaði þessar kenningar hafi hún verið haldin af ást til sænsks fæðingarlæknis og farið yfir öll velsæmismörk til að fá hann til að giftast sér. Það tókst ekki. Hann vildi frekar konuna þegar til kastanna kom. Svona getur fólk sagt eitt en gert annað. Því þrátt fyrir kenningar og reynslu svo margra eru menn tilbúnir til að veðja á hjónabandið þar til annað sannast. Um það er leikritið Brot úr hjónabandi.
Brot úr hjónabandi
Þýðandi: Þórdís Gísladóttir
Leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson
Borgarleikhúsið, 2016
Hann og hún
Samkvæmt leikskrá eru ekki persónur heldur bara leikendur í sýningunni og víst er að Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors gefa sig öll í hlutverk Jóhanns og Maríönnu (skv. Bergman) í leikritinu Brot úr hjónabandi sem frumsýnt var á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöld.
Sagan af þeim hjónum byrjar slétt og felld, vinátta og kærleikur milli þeirra, kynlífið nógu gott, tvær litlar og fínar dætur, ekkert að fjármálum og tengslum við fjölskyldur beggja og allt harla gott, nema það er eitthvað að sem hún vill að þau ræði og geri eitthvað í en hann sér enga ástæðu til að gera neitt.
Svo segir hann henni upp úr þurru stuttu síðar að hann sé ástfanginn af annarri konu, vilji skilja og þá byrjar ballið.Svo segir hann henni upp úr þurru stuttu síðar að hann sé ástfanginn af annarri konu, vilji skilja og þá byrjar ballið. Og þó byrjaði það ekki þar heldur áður. Þegar hún „gleymir“ pillunni og verður ólétt til að reyna á ást og samstöðu hans sem reynist engin vera og lausnin verður fóstureyðing. Skilnaður verður átakasamur og þau ganga nánast milli bols og höfuðs hvort á öðru í uppgjörum sem ganga nærri áhorfendum. Það tekur þau mörg ár að losa þau bönd sem tengja þau saman, við fáum að vita að þau byrja aftur, skilja aftur en skilja þó aldrei.
Fyndið og harmrænt
Þríeykið Unnur Ösp, Björn og Ólafur Egilsson, leikstjóri, hefur náð að færa leikritið til okkar tíma á fyndinn en um leið áleitinn hátt sem lyftir upp þeim sterku tilfinningum sem eru í gangi. Þarna eru líka fyndnar vísanir í leikhúsið og samtímann.
Það er ungi maðurinn sem brýtur upp hjónabandið með því að finna sér aðra ást og ganga út. En í lokin er það hann sem hefur kannski tapað mestu því að nokkrum konum síðar sér hann að enginn skildi hann betur en sú fyrsta sem skildi hann best. Hún finnur líka aðrar ástir og hún elskar hann ekki lengur þó henni þyki vænt um hann. Inni í henni er tóm sem enginn nær til. Hvorugt þeirra virðist eiga ást dætranna sem eru fjarverandi áhorfendur að tilfinningarússíbana foreldranna.
Það er mikið álag á öllum samböndum fólks í neyslusamfélagi samtímans þar sem menn eru logandi hræddir um að þeir séu að missa af einhverju betra en því góða. Eitt af þrástefjum samtímans er að fólk verði að standa með sjálfu sér en ófáir hafa farið illa á því að þjösnast áfram undir þeim formerkjum, skiljandi aðra eftir í rústunum. Það væri kannski ráð að reyna að standa með öðrum – til tilbreytingar?
Stjörnuleikarar
Unnur Ösp og Björn Thors eru afburðagóðir leikarar og léku á tilfinningar áhorfenda sem áttu það til að taka afstöðu til þeirra eftir kynjum ef marka mátti viðbrögð þeirra.
[pullquote type=”right”]Unnur Ösp og Björn Thors eru afburðagóðir leikarar og léku á tilfinningar áhorfenda sem áttu það til að taka afstöðu til þeirra eftir kynjum ef marka mátti viðbrögð þeirra.[/pullquote]Þau byrjuðu á að svara spurningum um sambandið eins og frægt fólk í viðtali sem segir að hið slétta yfirborð sé slétt yfirborð en smám saman byggðu þau upp spennu sem varð nánast áþreifanleg og braust út í atriði þar sem áhorfendum varð ekki um sel.
Tónlist Barða Jóhannssonar magnaði tilfinningarnar upp, afar vel valin. Búningar Ilmar Stefánsdóttur voru góðir og réttir fyrir ungt fólk á uppleið en leikmyndin var sérkennileg. Á heimili þeirra hjóna var teppi í grænum lit ríkjandi og stílfagrar „þúfur“ á víð og dreif sem nýttust ekkert í leiknum og eftir hlé og uppbrot heimilisins var teppið horfið, verið að endurvinna heimilið, plast breitt yfir húsgögnin og glitraði á það svo að það var eins og ísjakar væru á reki á sviðinu. Það var kalt en fallegt. Í bakgrunni voru stálþræðir og á þá varpað myndböndum Elmars Þórarinssonar en þær myndir sá ég ekki því ég sat fremst til hliðar við sviðið. Myndbönd eru misgóð hugmynd eftir því hvar þú situr í leikhúsi sem er hálfhringur.
Um okkur
Átök Björns/Jóhanns og Unnar Aspar/Maríönnu um hjónabandið eru bæði hversdagsleg og banöl en ég er handviss um að hver einasti leikhúsgestur þekkti í sýningunni eitt eða fleiri brot úr sínu eigin lífi og samböndum. Hér birtust þau manni í nýju ljósi og snurtu mann djúpt.
Sjáið endilega þessa sýningu – hún er verulega góð!
Ljósmyndir: Grímur Bjarnason
[fblike]
Deila