Í ríki gæludýranna

Arnar Már Arngrímsson
Sölvasaga unglings
Sögur útgáfa, 2015
Sölvasaga unglings er áhugaverð bók á margan hátt. Leggur þrælerfiðar spurningar fyrir foreldra, unglinga, kennara og bókmenntafræðinga en hún er líka skemmtileg aflestrar, fyndin, spennandi og getur snert tilfinningar lesenda, jafnvel þó að þeir hafi kynnst mörgum unglingum og lesið margar bækur.

Sagan er á yfirborðinu felld inn í gamalkunnan ramma sem sjálfsagt er einhverjum nóg til þess að vísa henni frá sér og telja sér trú um að þeir hafi lesið hana áður: Vandræðaunglingur er sendur í sveit, lætur af ósiðum, víkur frá sér mannskemmandi borgarsiðum og verður hvers manns hugljúfi. Þetta virðist fljótt á litið ekki sérstaklega frumlegt, sögufléttan minnir við fyrstu sýn á gamlan, götóttan sokk. Passar á fótinn en það vill enginn ganga í honum. Þessi lýsing stenst hins vegar ekki þegar betur er að gáð. Ég hef lesið Sölvasögu tvisvar, hún hefur þolað það vel og er ólík sínum fyrirrennurum.

Sagan er á yfirborðinu felld inn í gamalkunnan ramma
Þegar þau ótíðindi berast Sölva að hann eigi að fara í sveit og megi ekki taka símann með sér bregst hann ókvæða við og svarar móður sinni með fúkyrðum. Meira að segja hann þekkir þessa sögufléttu sem áður var nefnd, en að vísu ekki af lestri sveitasagna heldur nútímalegri vettvangi og býður við tilhugsuninni um að búa hjá ömmu í sveitinni:

Haldið þið að ég ætli að búa hjá þessari kellingu heilt sumar? Þetta er refsing. Ég þekki plottið. Ég hef séð nógu margar myndir til að þekkja léleg plott. Dekraður strákur lendir í erfiðum aðstæðum; fyrst er rosa erfitt en í lokin er hann orðinn þvílíkt flottur og hann mun meira að segja laga til í herberginu sínu án þess að vera beðinn um það og skammta sér passlegan tölvutíma og gerast sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn.  (6)

Það þekkja allir þessa fléttu, lesandinn, höfundurinn og meira að segja aðalpersónan í sögunni. Lesandinn hlýtur líka að spyrja með Sölva: frá hverju fer hann þegar hann yfirgefur borgina og hver er þessi sveit sem við honum tekur? Hér sprettur upp röð forvitnilegra andstæðna sem koma í staðinn fyrir andstæðurnar í sveitasögum tuttugustu aldar þar sem meginmunur á lífi í borg og sveit snýst um spillingu og úrkynjun í vaxandi borgarsamfélagi andspænis góðu og heiðarlegu fólki sem aflar sér matar með því að yrkja jörðina í sveita síns andlitis.

Hér sprettur upp röð forvitnilegra andstæðna sem koma í staðinn fyrir andstæðurnar í sveitasögum tuttugustu aldar
Sölvi neyðist til þess að yfirgefa hinn rafræna veruleika sem einkennist annars vegar af gríðarlegu magni heillandi möguleika en hins vegar stöðugri áminningu um allt það sem upp á vantar í hans ömurlega lífi. Í staðinn fær hann gamlar, skítugar bækur. Ungt fólk hverfur næstum því út úr veröld hans en í staðinn kemur gamalt fólk. Hann þarf að vinna, taka á og reyna á líkamann sem að sjálfsögðu hefur nokkur áhrif á andlegt ástand og hvíld og hann kynnist húsdýrum í hefðbundnu sambýli við manninn, ástríku og harmrænu á sinn hátt. Það er í skýrri andstæðu við gæludýrin í borginni og einhvern veginn er eins og þessi andstæða verði mjög skýr táknmynd af tengslum sem eru til þess að sýnast, andspænis tengslum sem reynast sterk í gleði og sorg. Gamli fjárhundurinn Sólon fer eftir reglum og er glaðvær hundur:

Einungis þegar Tómas kallaði til hans mátti hann setjast við borðið og þiggja mola úr höndum meistarans. Hvílík stjórn, hvílíkur agi. Sölvi þekkti til gæludýra á nokkrum heimilum kunningja og frændfólks og Skuggi átti tvo kjölturakka. Alls staðar voru það gæludýrin sem stjórnuðu. Nett feit með fýlusvip og Smáralindargeðvonsku í svipnum. Umkringd skálum með ósnertu gæludýrafóðri, heimtandi humar, túnfisk og harðfisk í öll mál. Eini munurinn á gæludýrunum og krökkunum á heimilinu var frasinn „pabbi pening“ eða styttri útgáfan „pening“; gæludýrin skorti ennþá orð. (73)

Í upphafi sögunnar er Sölvi ansi óhamingjusamur unglingur sem finnur sér ekki markmið. Tími Sölva í borginni er sneisafullur af viðfangsefnum sem hann hefur ekki valið sjálfur og nær ekki góðu taki á. Það sem gerist þegar hann fer í sveitina er ekki beinlínis að hann fari úr óheilnæmri borg og í heilnæma sveit. Sveitasamfélagið er á fallanda fæti, þar er drykkjuskapur og ýmiss konar hirðuleysi, hæfileg virðing fyrir lögum og almennir mannasiðir eiga það til að gleymast. Það mikilvæga er breytingin sem verður í lífi hans, ekki það að hann fari úr vondum stað í góðan. Hér liggur umsnúningurinn á gömlu sveitasögufléttunni. Reyndar líka á kvikmyndafléttunum sem Sölvi þekkir strax í upphafi, kannski er það einmitt í þessum punkti sem saga Arnars dýpkar og fer að skipta lesendur miklu máli. Það er þegar við stígum út úr heimi gæludýranna, yfirgefum fóðurdallana, sem við viljum ekki hvort eð er, slökum aðeins á í Smáralindargeðvonskunni og áttum okkur á því að heimurinn er stór og margbreytilegur og bæði góður og illur.

Þar liggur leiðin aftur að þessum erfiðu spurningum sem minnst var á í upphafinu. Búum við unglingana okkar undir líf sem bæði á það til að vera yndislegt og ömurlegt, eða ljúgum við að þeim að vilji sé allt sem þarf og allir geti orðið hamingjusamir og náð gríðarlegum árangri? Fá unglingarnir okkar svigrúm til þess að sjá fjölbreytileika lífsins?

Það er þegar við stígum út úr heimi gæludýranna, yfirgefum fóðurdallana, sem við viljum ekki hvort eð er, slökum aðeins á í Smáralindargeðvonskunni og áttum okkur á því að heimurinn er stór og margbreytilegur og bæði góður og illur.
Eitt af því sem gerist í lífi Sölva er að með símanum hverfa út úr lífi hans hundrað klámsíður og ókjör af rössum og brjóstum. Í staðinn kemur hann auga á eina stúlku á sínum aldri og eina unga konu og uppgötvar að kynhvötin þarf ekki meira en sjáist í bert hold milli buxna og peysu. Hann áttar sig jafnframt á því smám saman að kynferðislegt hugmyndaflug ungra pilta getur verið óheppilegt ef jarðsambandið er ekki í lagi. Þetta með klám og unglinga er svolítið eins og  fúlu gæludýrin og fóðurdallarnir.

Þó að hér hafi verið vikið að mörgu af því sem áhugavert er í þessari gagnmerku verðlaunasögu verður fjölmargt látið órætt í bili. Þar með er til dæmis bráðskemmtilegt samtal milli rapptexta, dægurlaga og tilfinningaríkra kvæða úr menningu gamla fólksins. Sköpunin brýtur niður múra tíma og rúms eins og fyrri daginn. Ég giska á að sá þáttur hafi munað mestu í því að bókin fékk verðlaun Norðurlandaráðs.

Um höfundinn
Kristján Jóhann Jónsson

Kristján Jóhann Jónsson

Kristján Jóhann Jónsson er dósent í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað bækur og greinar um bókmenntir og bókmenntafræði, gefið út þrjár skáldsögur, þýtt á annan tug bóka og á að baki langan feril sem gagnrýnandi.

[fblike]

Deila