Vitsmunalegar rætur frumleikans

Soffía Auður Birgisdóttir
Ég skapa – þess vegna er ég: Um skrif Þórbergs Þórðarsonar
Opna, 2015
Soffía Auður Birgisdóttir hefur sent frá sér heildstæða og löngu tímabæra bókmenntafræðilega rannsókn á helstu frumsömdu verkum Þórbergs Þórðarsonar með áherslu á Bréf til Láru, Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar og Suðursveitarbækurnar – þó að Ofvitinn, Íslenskur aðall og Sálmurinn um blómið fái líka töluverða athygli, auk kveðskaparins og skrifa Þórbergs um stílfræði. Þá er sérstakur kafli um enduróm af Þórbergi í verkum yngri höfunda á síðari árum. Minna er fjallað um áhuga Þórbergs á guðspeki, aðdáun hans á Stalín og söfnun þjóðlegs fróðleiks sem þeir Sigurður Nordal gáfu út saman í Gráskinnu – og juku við í Gráskinnu hinni meiri – auk þess sem Þórbergur skrifaði sérstaka bók um Viðfjarðarundrin.

Verk Soffíu er að mörgu leyti brautryðjendaverk í Þórbergsrannsóknum, að því leyti að hún setur bækur hans í hugmyndafræðilegt og bókmenntalegt samhengi um leið og hún brýtur upp þann einkennilega vandræðagang sem hefur verið í umhugsun margra um samband helstu bóka Þórbergs við hugsanlegan veruleika þess fólks sem er augljósar fyrirmyndir bókmenntapersóna hans. Það hefur loðað við ímynd Þórbergs að hann væri að vísu mjög frumlegur og persónulegur stílisti, eins og Þorleifur Hauksson skrifaði um í Stílfræðinni, en þó fyrst og fremst sveitamaður á mölinni sem hefði fallið fyrir billegustu hugmyndunum á götunni um guðspeki og kommúnisma og nær eingöngu skrifað um sjálfan sig með meðfætt geníalitet og nákvæmnisáráttu eina að vopni – og síðan látið prófast af Snæfellsnesi ljúga sig fullan með þjóðlegan fróðleik þegar hann heyktist á að skrifa meira um sjálfan sig.

Það er afrek í sjálfu sér að höfundur sem fæddist í Suðursveit árið 1888 skuli enn vera jafn mikið lesinn og raun ber vitni. Nýlegar bækur Halldórs Guðmundssonar og Péturs Gunnarssonar um Þórberg bera vinsældum hans og erindi við nútímann fagurt vitni, og hafa án nokkurs vafa opnað mörgum nýjum lesendum leið inn í undraheim verka hans. Að ekki sé minnst á stórfróðlegar útgáfur Helga M. Sigurðssonar á dagbókum Þórbergs sem hafa upplýst margt á baksviði skáldverkanna.

Sá Þórbergur sem Soffía leiðir fram með sínum rannsóknum er miklu bókmenntalegri, menntaðri og sálfræðilegri höfundur en menn hafa gert sér grein fyrir.
Sá Þórbergur sem Soffía leiðir fram með sínum rannsóknum er miklu bókmenntalegri, menntaðri og sálfræðilegri höfundur en menn hafa gert sér grein fyrir. Ýmsir hafa áður bent á að sum kvæða Þórbergs hafi verið undir áhrifum frá Heinrich Heine en Soffía gengur lengra og bendir á að Þórbergur hafi verið handgenginn lausamálsverkum Heines og að þangað hafi hann sótt sér fyrirmynd og innblástur að forminu á Bréfi til Láru – án þess að hafa nokkurn áhuga á því sjálfur að tala mikið um það.

Á svipaðan hátt sýnir Soffía fram á hversu hugvitsamlega Suðursveitarbækurnar eru upp byggðar út frá kenningum um þróun skynjunarinnar hjá börnum – sem Þórbergur sökkti sér ofan í þegar hann skrifaði Sálminn um blómið. Að í þessum bókum sé viðfangsefnið ekki fyrst og fremst smásmuguleg yfirferð á öllu sem hann man úr sinni persónulegu barnæsku, heldur mjög meðvituð uppbygging á sístækkandi heimsmynd í barnshuganum eins og sálfræðingar töldu að hún yrði til. Í því samhengi má hugsa sér að Suðursveitin sé aukaatriði því að sama pæling hefði allt eins getað verið sviðsett í öðru umhverfi. Það hefur þó væntanlega hentað blekkingarleiknum betur að nota sveitina sem hann ólst sjálfur upp í því þar gat hann rannsakað allt á efri árum og þannig gætt þess að sig „misminnti“ ekki um neitt.

Soffía staldrar töluvert við mótunarár Þórbergs og ekki síst háskólamenntun hans. Þórbergur sat í norrænudeild Háskóla Íslands, sótti alla fyrirlestra og sökkti sér ofan í námsefnið en gat aldrei útskrifast því hann hafði ekki lokið grunnnámi í menntaskóla – sem strandaði á fullkomnu áhugaleysi hans um hnífaframleiðsluna í Sheffield eins og frægt er úr Ofvitanum. Ein mikilsverðasta hugljómunin sem hann gæti hafa orðið fyrir í náminu gæti hafa orðið í fyrirlestrum hjá Birni M. Ólsen sem var á þessum árum að leggja grunn að bókfesturannsóknum íslenska skólans á fornritunum. Eitt veigamikið nýmæli fyrir íslenskan alþýðudreng í þeim fræðum var að ekki væri hægt að lesa Íslendingasögur sem sannleikann sjálfan um persónur og atburði á söguöld. Í fornsögum hefði veruleikanum verið umbreytt í frásagnir, sem sumar hverjar væru jafnvel hreinn uppspuni. Þessa hugmynd telur Soffía að Þórbergur hafi gjörnýtt sér til að búa til þann sagnaheim úr veruleikanum sem við lesendur hans kynnumst í Ofvitanum og Íslenskum aðli. Þórbergi tókst svo vel upp að lengst af á tuttugustu öld trúðu lesendur bókum Þórbergs líkt og menn höfðu áður trúað Íslendingasögum. Það var svo ekki fyrr en Helgi M. Sigurðsson fór að gefa út dagbækurnar að það rann upp fyrir fólki að hinar meintu minningabækur Þórbergs væru meira í ætt við skáldskap en veruleika – og þannig hafa þær runnið greiða leið inn í skáldævisögutísku síðari ára og hinar tilbúnu og margslungnu sjálfsmyndir sem nú eru efst á baugi.

Soffía beitir mjög sálfræðikenningum, bæði Freuds og annarra, á þessi skrif Þórbergs en sú spurning vaknar hvort Þórbergur sjálfur hafi ekki verið á kafi í Freud í tengslum við guðspekiáhuga sinn og hafi beitt kenningum hans til að greina sjálfan sig.
Enn er þó langt í land að öll kurl séu komin til grafar hér og að klippt hafi verið að fullu á naflastreng bókanna við veruleikann. Minnisrannsóknir á undanförnum áratugum gætu orðið gott hjálpartæki við það starf og hjálpað til við að skilja að eiginlega er enginn veruleiki til, heldur bara frásagnir sem mótast alltaf af aðstæðum hverju sinni. Hugmyndir Þórbergs og frásagnir í kringum 1940 um það sem hann segir þá að hafi verið að gerast í lífi sínu um 1910 eru því að mestu mótaðar af því sem hann hefur lesið og hugsað á þeim áratugum sem liðnir eru síðan – og því sem hann vill segja þegar hann skrifar bækurnar. Soffía beitir mjög sálfræðikenningum, bæði Freuds og annarra, á þessi skrif Þórbergs en sú spurning vaknar hvort Þórbergur sjálfur hafi ekki verið á kafi í Freud í tengslum við guðspekiáhuga sinn og hafi beitt kenningum hans til að greina sjálfan sig. Draumsöguna um hrökkálinn í Tjörninni sem bítur í besefann á Þórbergi í Bréfi til Láru mætti túlka sem vísbendingu um að hann sé þar að vísa í draumafræði Freuds, sem flugu hátt í umræðum á þessum árum. Líklegt er að Freud hafi vakið athygli Þórbergs því Ágúst H. Bjarnason benti á í Tímanum 1920 að djúpsálarfræðin gæti skipt máli fyrir andatrúna og skýrt margt sem menn hefðu hingað til haldið vera af öðrum heimi – sem Þórbergur trúði staðfastlega á. Þá minnir greining Þórbergs á því sem hann kallar sinn æðri mann í Ofvitanum ekki lítið á hugmyndir Freuds um yfirsjálfið eins og Soffía bendir á (204) – og Þórbergur gat lesið um í grein sem Björg C. Þorlákson skrifaði um sálgreiningu í Iðunni árið 1929. Sjálfum hefur mér dottið í hug hvort grunnhugmyndin að Ofvitanum sé ekki í veigamiklum atriðum mótuð eftir óperunni La Bohème sem var vinsælasta kassastykkið á meginlandinu þegar Þórbergur var þar mest á ferðinni á þriðja áratugnum. Báðum verður aðalpersónunum starsýnt á hendur elskunnar þegar hún kemur til þeirra í fyrsta sinn og titillinn á Ofvitanum endurspeglar og snýr út úr La Bohème líkt og Þórbergur hafði áður gert þegar hann kallaði ljóðabók sína Hvíta hrafna – til að snúa út úr Svörtum fjöðrum Davíðs Stefánssonar. Menntamaður í París verður ofviti í Suðursveit.

Síðast en ekki síst sýnir Soffía fram á að Þórbergur hefur ekki bara verið trúgjarn og hrekklaus skrásetjari alls þess sem séra Árni lét sér detta í hug að segja honum. Þar hafi Þórbergur einnig lagst í miklar pælingar um ævisagnaritun og staðnæmst við stórvirki James Boswell (1740-1795) um Samuel Johnson sem kom út árið 1791. Það rit hafi orðið honum fyrirmynd um aðferðafræðina við „skrásetninguna“.

Þegar upp er staðið frá lestri bókar Soffíu Auðar er maður eiginlega hissa á hvað það hefur tekið bókmenntafræðin langan tíma að ná utan um hversu frumlegur Þórbergur var en jafnframt hvað sá frumleiki byggðist á margbreytilegum bókmennta-, lærdóms- og hugmyndagrunni sem Þórbergi sjálfum var mjög umhugað um að glytti aldrei í til að viðhalda ímyndinni sem hann vildi skapa af sjálfum sér um að hann hefði fattað upp á þessu öllu sjálfur og segði eingöngu satt og rétt frá. Það liggur kannski í því að nú er tíðarandinn loksins að tengja sig við Þórberg eins og sést þá bæði á því að fræðin hafa komist á það stig að ná tökum á honum og ekki síður í því að samtímahöfundar okkar skrifa sig inn í verk Þórbergs sem aldrei fyrr.

Um höfundinn
Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson stundaði háskólanám í íslensku, bókmenntafræði og miðaldafræðum og fornírsku á Íslandi, í Kanada og á Írlandi. Hann hefur skrifað bækur og greinar um gelísk áhrif á Íslandi, bókmenntir og munnlega hefð að fornu og nýju, og gefið út eddukvæði og þjóðsögur Vesturíslendinga. Hann er rannsóknarprófessor við Árnastofnun og kennir við þjóðfræðideild HÍ.

[fblike]

Deila