„Made in Children“

Made in Children er spennandi og metnaðarfullt verkefni sem skilur eftir sig margvísleg áhrif hjá áhorfanda. Frumlegar lausnir virka misvel en þokki, hæfileikar og orka barnanna fylgja áhorfanda og ylja honum um hjartarætur.
Ekki gefur titill leiksýningarinnar Made in Children mikla hugmynd um hvað áhorfandi er að fara að sjá en falleg eru markmið sýningarinnar: „Made in Children er á mörkum mikils vonleysis og öfgafullrar bjartsýni og er börnunum gefinn laus taumur og þau send af stað í leit að háleitu siðferði, djúpstæðum innri frið og betri framtíð.“

hugras_madeinchildren2
LJósmyndari: Hörður Sveinsson

Hvað sjáum við?

Sýningin er leidd af þríeykinu Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts, sem bæði eru danslistamenn, og Aude Busson sem er leiklistarmenntuð. Verkið er flutt af tíu börnum á aldrinum 8-12 ára.  Sýningin er unnin í samvinnu við börnin á þriggja mánaða tímabili. Þau ávarpa hvert annað á víxl með nafni. Margrét Vilhelmína Nikulásardóttir opnaði leikinn með því að spyrja Flóka Dagsson: Hvað sérðu? Nútímanum er þannig varpað inn í framtíðina og svarið hefst á: Þú munt ….

Áhrifin af því að sjá barn spá á þennan hátt fyrir öðru barni um sjálfsblekkingar og sorgir fullorðinsára þess eru mjög sterk.
Á eftir fer lýsing viðmælandans á lífi barnsins sem spurði eins og það á eftir að þróast þegar það hefur verið þegn í stressuðu neyslusamfélagi nokkra hríð. Það mun hafa átt ævi sem stundum er tragísk, stundum kómísk og stundum tragíkómísk. Til dæmis var einræða Jörundar Orrasonar um miðaldrakreppu og ástarþríhyrning Kolbeins Einarssonar mjög harmræn. Textabrotin eru oft kaldhæðin, misjöfn að gæðum og börnin eiga varla  mikið í  endanlegri gerð þeirra. Áhrifin af því að sjá barn spá á þennan hátt fyrir öðru barni um sjálfsblekkingar og sorgir fullorðinsára þess eru mjög sterk. Því fylgir merkileg framandgerving sem byggist á væntingum okkar til þess að börn eigi að hvíla í fáfróðu en glöðu sakleysi sínu. Það gera þau sjaldnast. Börnin í sýningunni eru ekki leikarar sem eiga að kunna skýra framsögn heldur „venjuleg“ börn. Eða kannski eru þau ekki laus við að vera ofurbörn þvi allt virðist leika í höndunum á þeim.

 

Flókið form

hugras_madeinchildren1
LJósmyndari: Hörður Sveinsson

Milli hinna formlegu textasamskipta dönsuðu þau og fluttu tónlist, Freyja Sól Francisco Heldersdóttir, Óðinn Sastre og Kolbeinn Orfeus Eiríksson léku á hljómborð/píanó og ásláttarhljóðfæri og Matthildur Björnsdóttir og Ylfa Aino Eldon Aradóttir fluttu  einræður sínar vel. Öll sungu, dönsuðu og flöngsuðust um sem vofur inn á milli. Dansarnir voru afar fjölbreytilegir, allt frá austurlenskum dansi eins og þeim sem Herdís Sigurðardóttir dansaði af miklum þokka yfir í vélmennahreyfingar og frjálsan dans. Tónlistin fór líka yfir víðan völl  og Kolbeinn Orfeus Eiríksson stóð undir söngvaranafni sínu í laginu um að vera þrjá mánuði frá að eignast sitt fyrsta barn. Inn á milli atriðanna brutust svo raddir barnanna óhamlaðar fram og þau öskruðu, þau öskruðu reiði, öskruðu ótta og sorg og í því síðastnefnda var undirrituð alveg á mörkum þess að fara að gráta líka, svo hjartaskerandi var upphaf þeirrar senu. Þokki, lífsgleði og dýpt í leik barnanna fylgir áhorfandanum út af sýningunni.

Búninga og sviðsmynd gerði Guðný Hrund Sigurðardóttir. Búningar barnanna voru frábærir, þau voru klædd í venjuleg barna- og unglingaföt, létt og þægileg en valin saman í mikilli litadýrð og fjölbreyttum mynstrum úr öllum heimshornum. Lítið fannst mér hins vegar koma til vofanna sem klæddar voru í kufla, í stöðluðu teiknimyndadraugsgerfi, ættuðu frá krúttinu Kaspar og ég skildi ekki tilgang þeirra í sýningunni.  Ef þau áttu að vera einhvers konar „memento mori“ hefði vel mátt gera þau að alvöru uppvakningum.

Það voru með öðrum orðum ansi margir boltar á lofti í  útfærslu þeirra snjöllu og spennandi hugmynda sem hér voru í gangi.
Milli hljómlistarmannanna og framsviðsins og til hliðanna voru flekar með myndum af náttúru landsins sem börnin erfa og barist er um völdin yfir þessa stundina. Myndaflekarnir virkuðu alls ekki vel, börnin færðu þá til og byggðu úr þeim tjöld og skilrúm en þeir runnu ekki inn í sýninguna, þvældust frekar fyrir. Sömuleiðis spakmæli sem varpað var upp á skjá hátt yfir sviðinu og fóru fyrir ofan garð og neðan hjá áhorfendum á hliðarvængjunum. Það voru með öðrum orðum ansi margir boltar á lofti í  útfærslu þeirra snjöllu og spennandi hugmynda sem hér voru í gangi. Minna hefði kannski orðið meira.[line]

Listrænir stjórnendur eru Alexander Roberts, Ásrún Magnúsdóttir og Aude Busson
Leikarar eru:  Matthildur Björnsdóttir, Herdís Sigurðardóttir, Jörundur Orrason, Flóki Dagsson, Ylfa Aino Eldon Aradóttir, Margrét Vilhelmína Nikulásardóttir, Freyja Sól Francisco Heldersdóttir, Kolbeinn Orfeus Eiríksson, Kolbeinn Einarsson og Óðinn Sastre Freysson.

Leikmynd og búningar: Guðný Ýr Sigurðardóttir
Ljósahönnun:  Friðþjófur Þorsteinsson

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila