Jon Fosse
Morgunn og kvöld
Þýðandi: Hjalti Rögnvaldsson
Dimma, 2015
Norski höfundurinn Jon Fosse er þekktastur fyrir leikverk sín en hefur líka skrifað skáldsögur, nóvellur og barnabækur og margt fleira. Árið 2015 hlaut hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þríleikinn Andvake, Olavsdaumar og Kvældsvævd. Bókin Morgon og kveld kom út árið 2000 og Morgunn og kvöld er fyrsta íslenska þýðingin á verki eftir Fosse en Hjalti Rögnvaldsson sá um þýðinguna.

Titill verksins gefur upp heitið á þeim tveimur köflum sem mynda verkið: Morgunn og kvöld. Fyrri hlutinn lýsir fæðingu Jóhannesar frá sjónarhorni Óla föður hans. Óli fær ekki að vera viðstaddur en er í næsta herbergi og heyrir konu sína Mörtu engjast um og ljósmóðurina Önnu stumra yfir henni. Hugsanir þjóta um kollinn á Óla þar sem hann bíður í varnarleysi sínu og hugsar um framtíð barnsins sem er að líta dagsins ljós. Óli trúir jöfnum höndum á Guð og Satan og tengir Guð við handanheiminn á meðan Satan ræður yfir jarðlífinu. Það má lesa ákveðin fyrirheit um það sem koma skal í seinni hlutanum þegar Óli hugsar um líf sonarins sem er framundan:

… og svo á hann, þegar allt er afstaðið, þegar hans tími er kominn, að leysast upp og verða að engu og hverfa aftur til upphafs síns, frá engu og að engu, það er gangur lífsins, hjá fólki, dýrum, fuglum, fiskum, húsum, ílátum, hjá öllu sem til er já, hugsar Óli … (s. 12-13)

Í seinni hlutanum er Jóhannes sögumaðurinn, hann vaknar inn í nýjan dag sem reynist ólíkur öllum öðrum dögum. Skynjun hans er önnur og fortíðin blandast saman við nútíð. Eina stundina gengur hann inn í furðuheiminn og aðra stundina furðar hann sig á þeim breytingum sem hafa orðið allt í kringum hann. Við sögu koma Signý, dóttir hans, ásamt eiginkonunni Ernu sem er þegar látin og vininum Jakobi sem líka er látinn. Jakob og Jóhannes eru, rétt eins og lærisveinar Jesú, fiskimenn og hlutverk Jakobs er að sækja Jóhannes og brúa bilið yfir í handanheiminn. Sigla með hann út úr lífinu.

Söguþráður bókarinnar er ekki flókinn og væri í raun hægt að rekja hann í fáum línum. Það sem ber verkið uppi er stíllinn sem höfundur beitir. Þar blasir strax við það stílbragð að sleppa öllum punktum en punktaleysið breytir algjörlega þeim hefðbundna rytma sem texti er vanur að fylgja. Línurnar streyma og flæða saman og það passar vel við það vitundarflæði sem einkennir textann því við erum stödd inni í höfði Óla og svo Jóhannesar þar sem hugsanir þeirra fara fram og til baka, uppfullar óvissu og spennu. Í fyrri hlutanum er tilfinningum á nokkrum stöðum lýst með stökum hljóðum og þar minnir textinn á hljóðverk þar sem endurtekningar, rytmi og hljóð mynda eina heild og komast tímabundið handan við tungumálið. Þó eru kommur í verkinu og ef til vill gegna þær hlutverki hiks eða þagnar. Það vekur líka athygli að í kjölfar beinnar ræðu koma alltaf orð eins og „sagði Jóhannes“ eða „sagði Erna“ og þegar fólk talar þá segir það aldrei meira en eina setningu áður en þessi frasi kemur í beinu framhaldi. Það sama á við þegar farið er inn í huga til dæmis Jóhannesar en þá eru hugsanirnar reglulega brotnar upp með „hugsar Jóhannes“. Lesandinn veit hver er að hugsa og líka oft hver er að tala en samt er þetta notað eins og sefandi endurtekning. Þetta stílbragð ljær bókinni sterkan blæ og má segja að þetta brjóti upp frásögnina þannig að samtölin flæða til dæmis ekki óhindrað fram heldur eru brotin upp. Þetta uppbrot fær að halda sér út alla bókina og ef til vill skapar uppbrotið (eða inngrip söguhöfundar) mótvægi við lestrarhraðann sem myndast í punktaleysinu. Verkið fjallar um það að leysast upp og fara handan tungumáls og punktaleysinu fylgir ákveðin upplausn. Síðustu orð Péturs í lokin kallast á við þetta: „Nú eiga orðin að hverfa, segir Pétur og röddin í Pétri er svo ákveðin“ (bls. 117).

Um nóvellu er að ræða. Verkið er tiltölulega stutt, opið og aðgengilegt. Á yfirborðinu virðist textinn barnslega einlægur og einfaldur en það býr margt stærra og stórbrotnara undir og yfir. Má þar nefna tilvist mannsins, nekt og varnarleysi hans gagnvart lífinu og dauðanum og förinni inn í lífið og inn í dauðann. Bókin lýsir þessu ferðalagi inn í lífið og svo aftur inn í dauðann, tilvistin þar á milli er ekki þungamiðja verksins heldur umbreytingin sem Jóhannes fer í gegnum. Í verkinu er Jóhannes á leiðinni inn í heiminn og svo á leiðinni úr honum og það eru þessi tvö mikilvægu ferðalög mannverunnar sem verkið hverfist um. Sagan fjallar líka um fjölskyldutengsl, söknuð og ást. Sjónarhornið færist tímabundið yfir til Signýjar, dóttur Jóhannesar, þegar hún kemur að honum látnum. Í blálokin fær lesandinn síðan að sjá þá ást sem Jóhannes ber til dóttur sinnar og ást dóttur til föður við jarðarförina. Það má greina trúarheimspekilega afstöðu í verkinu og í því er allt morandi af trúarlegum táknum. Það er eitthvað við verkið sem minnir á aðrar bækur af svipuðum toga og þrátt fyrir að bókin hafi komið út árið 2000 gæti hún allt eins verið 100 ára. Það er tærleikinn og einfaldleikinn sem eykur slagkraftinn og þessi stutta saga varpar ljósi á flókin fyrirbæri. Vísir að tíma- og staðleysu ásamt draumkenndri berstrípun gefur verkinu klassískt yfirbragð. Það er fengur að því að fá íslenska þýðingu á verki eftir Jon Fosse og þýðing Hjalta flæðir hnökralaus fram. Vonandi fáum við sem fyrst að sjá þýðingar hans á fleiri verkum eftir Fosse.

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila