Árhringir kvenna aftur um aldir


Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Soffía Bjarnadóttir og Æsa Strand Viðarsdóttir
Ég erfði dimman skóg
Skógurinn, 2015
Ein fallegasta bókarkápa síðasta árs er hönnuð af Ragnari Helga Ólafssyni og umvefur ljóðverkið Ég erfði dimman skóg – áhugavert safn ljóða eftir sjö konur sem gefa bókina út undir merkjum skáldasamsteypunnar Skógarins. Skáldkonurnar stara alvarlegar í augu lesenda af baksíðu kápunnar þar sem þær sitja uppstilltar við borð, umkringdar gömlum húsgögnum og antíkborðbúnaði; sumar klæddar í pelsa með perlufestar og hatta en aðrar í íburðarminni klæðnað, svartan að mestu. Það er jarðarfararblær yfir þessari mynd og bókin sjálf er einnig klædd í svarta kápu. Framan á henni er þó fögur teikning sem grípur augað, ekki síst af því að litirnir í henni njóta sín sérlega vel á svörtum bakgrunninum.

Myndin framan á bókinni er fíngerð teikning af plöntuhlutum – stilkum, fræjum, frjókornum, blómknúppum – þar sem hverju smáatriði er gefinn gaumur og stíllinn minnir á skýringarmyndir í plöntuhandbókum. Í miðjunni er græn, blómlaus planta með stórum blöðum; hún er marglaga og ystu lögin liggja dauð við ræturnar en innan úr miðjunni spretta sífellt nýir sprotar, fullir af lífi. Til hliðar eru myndir af fræjum, blómum og öðrum plöntuhlutum sem ekki er ljóst hvort tilheyri þeirri fyrrnefndu. Þeir eru stakir og kannski afklipptir og þar með deyjandi en þó um leið tákn fyrir lífið – fræ veita fögur fyrirheit um framtíðina og blóm framleiða fræ og bera vott um fegurð lífsins. Þetta er sérstök mynd í fallegum litum en fegurð hennar felst þó kannski ekki síst í því hve innilega hún fléttast saman við ljóðverkið sjálft og viðfangsefni þess: eilífa hringrás lífs og dauða og samspil nútíðar og fortíðar.

Ljóðin í þessari bók eiga það sameiginlegt að vera innblásin af prósaljóðinu „Madrigal“ eftir sænska verðlaunaskáldið Tomas Tranströmer sem birtist fremst í bókinni og hefst einmitt á orðunum „Ég erfði dimman skóg“ í íslenskri þýðingu Njarðar P. Njarðvík. Þar gengur ljóðmælandi um skóga sem breytast sífellt og fela í sér von um birtu, kærleik og áhyggjuleysi jafnvel þótt þeir séu dimmir. Ljóð Tranströmers fjallar með öðrum orðum um skóga sem eru tákn fyrir eins konar innra ástand eða innri heim en líka um erfðir – það hvernig við erfum ýmislegt frá forfeðrum og -mæðrum og samfélaginu, meðal annars myrka hugarskóga.

Ljóðkonurnar eru staddar í ýmiss konar hugarskógum sem sumir eru ógnvekjandi en aðrir spennandi.
Ljóð skáldkvennanna sjö taka upp þessi viðfangsefni og vinna með þau í ýmsar áttir. Skógar- og trjámyndmál er gegnumgangandi þema í verkinu og kápumyndin tengist því sannarlega. Ljóðkonurnar eru staddar í ýmiss konar hugarskógum sem sumir eru ógnvekjandi en aðrir spennandi. Í þeim eru stígar sem þær freistast stundum til að fylgja en þær þyrstir líka oft í að villast, fara út af stígunum og leita að öðru en því sem er fyrirframgefið og ákveðið:

Framundan greini ég stíg og tek gamalkunnugt viðbragð, kem mér á stíginn og mæni á þráðinn sem flæðir framundan. En þá man ég. Ég kom hingað til að leggja lykkju á leið mína, prjóna nýjan garð um líf mitt. Fjörbaugsgarð. Ég neyði mig af stígnum og tek stefnuna á þetta vaxandi myrkur sem ég sé hinum megin. (bls. 9)

Kvenlegir þræðir liggja í gegnum ljóðin og lesandinn er oft minntur á arf formæðranna en arfur er einmitt áberandi þema. Meðal þess sem erfist er sorg – eitt ljóðið er bara ein lína: Ég erfði sorg móður minnar (bls. 34) – en einnig hugmyndir eða viðmið:

Ég erfði andstyggð á fölskum söng.

Það er ljótt að leggja sig á daginn,
tímaeyðsla að lesa bók þegar sólin skín.

Gerðu ekki of mikið af neinu bara passlegt af sumu. (bls. 15)

Meðal þess sem tengir þessi tvö þemu saman, trén og arfinn, eru árhringir en konurnar bera arf formæðranna innra með sér líkt og tré varðveita sögu sína í stofninum. Eitt áhrifamesta ljóð bókarinnar sýnir þetta vel en þar er ljóðkonan í leit að „kjarnanum í sjálfri sér“ og lætur því saga búkinn á sér í sundur. Hún horfir inn í skurðinn og þar blasir við:

[…] Móðir mín, amma, langamma, svo koll af kolli, innar, innar. Árhringir kvenna aftur um aldir.

Í innsta hringnum logaði eldur. (bls. 21)

Þessi mynd kallast einnig á við kápumyndina þar sem nýir sprotar spretta sífellt upp úr miðju plöntunnar en ytri og eldri lögin safnast saman við ræturnar. Þótt þetta sé reyndar öfugt við árhringi trjánna, þar sem hið elsta er innst, er engu að síður um að ræða fortíð sem er ekki týnd heldur hluti af lífinu og nútíðinni. Líf og dauði eru enn fremur miðlægt viðfangsefni og jarðarfararstemmingin aftan á kápu bókarinnar er, líkt og teikningin framan á henni, þannig í takt við innihaldið – hina eilífu hringrás lífsins sem enginn fær ráðið við og verður kannski sérlega áberandi í skógum þar sem rotnun og vöxtur eru sífellt í gangi samtímis.

Það er áhugavert að lesa ljóð sem eiga sér engan einn höfund heldur eru unnin í samstarfi og þar af leiðandi er ekki hægt að rekja orðin eða hugmyndirnar á einn ákveðinn stað.
Það er áhugavert að lesa ljóð sem eiga sér engan einn höfund heldur eru unnin í samstarfi og þar af leiðandi er ekki hægt að rekja orðin eða hugmyndirnar á einn ákveðinn stað. Í þessari bók er skemmtileg margröddun en titillinn á ljóði Tranströmers, „Madrigal“, vísar einmitt til veraldlegrar söngljóðahefðar þar sem sungið er margraddað. Þræðirnir sem liggja milli þess ljóðs og þeirra sem urðu til við vinnslu þessarar bókar eru því mjög margvíslegir, vísa í ýmsar áttir og auka við lestraránægjuna sé þeim fylgt eftir. Ljóðin höfðuðu misvel til þessa lesanda eins og gengur og gerist en á heildina litið er hér um að ræða margslungið og áhugavert ljóðverk sem vex við hvern lestur og sómir sér þar að auki afskaplega vel í uppstillingu á vel völdum stað í bókahillunni.

Um höfundinn
Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og University College Dublin. Hún sinnir einnig stundakennslu og landvörslu þegar svo ber undir. Doktorsverkefni hennar fjallar um samkynja ástir í verkum eftir Elías Mar. Sjá nánar

[fblike]

Deila