Súffragetturnar, kvenfrelsisbaráttan og sagan

Kvikmyndin Súffragetta (Suffragette, 2015) fjallar um baráttu breskra kvenna fyrir kosningarétti og kjörgengi til þings, nánar tiltekið þeirra kvenna sem störfuðu með kvenréttindafélaginu Women’s Social and Political Union (WSPU).

Súffragettan Ada Wright liggur í götunni eftir mótmælafund á Svarta föstudeginum 1910. Það var fyrsti fundurinn þar sem súffragetturnar voru barðar af lögreglu (og öðrum körlum sem voru þar).
Súffragettan Ada Wright liggur í götunni eftir mótmælafund á Svarta föstudeginum 1910. Það var fyrsti fundurinn þar sem súffragetturnar voru barðar af lögreglu (og öðrum körlum sem voru þar).

WSPU var stofnað af Emmeline Pankhurst og dóttur hennar Christabel í Manchester árið 1903. Félagið var eingöngu ætlað konum og markmið þess var að vinna að því að konur fengju kosningarétt og kjörgengi með sömu skilyrðum og karlar. Kosningaréttur kvenna hafði verið á dagskrá í Bretlandi í áratugi en hvorki gengið né rekið og margar konur því orðnar þreyttar á hægaganginum og sviknum loforðum. Félagskonur í WSPU gripu fljótlega til róttækari aðgerða en tíðkuðust meðal kvenréttindakvenna, svo sem að kalla fram í ræður karlanna á þingmála- og framboðsfundum og krefjast svara um kosningarétt kvenna (voru fangelsaðar fyrir vikið). Þær skipulögðu mótmælagöngur og eftir því sem árin liðu og ekkert bólaði á kosningarétti bættust við rúðbrot og íkveikjur, póstkassar voru sprengdir í loft upp, þær hlekkjuðu sig við grindverk og fleira sem ekki þótti hæfa konum. Sumar þessara aðgerða sjást í kvikmyndinni og einnig hvernig samfélagið brást við með því að úthrópa þær sem smán – þær væru sjálfum sér og eiginmönnum sínum (væru þær giftar) til skammar. Oft enduðu mótmæli í ofbeldisfullum uppákomum þar sem konur voru barðar, teknar fastar og fangelsaðar í lengri og skemmri tíma.

Áróðursplakat frá 1910 sýnir hvernig matur var þvingaður ofan í súffragettur í hungurverkfalli.
Áróðursplakat frá 1910 sýnir hvernig matur var þvingaður ofan í súffragettur í hungurverkfalli.

Þá gripu þær til hungurverkfalla sem enduðu með enn meira ofbeldi því ofan í þær var þvingaður matur á svo harkalegan hátt að sumar biðu þess aldrei bætur. Í kvikmyndinni má til dæmis sjá slöngu troðið upp í nef og niður í maga aðalsöguhetjunnar og mjólk hellt ofan í hana. Stundum var munnur baráttukvennanna þvingaður upp og mat komið ofan í þær með einhvers konar trekt. Þótt fangelsisyfirvöld héldu öðru fram var verr farið með verkakonur úr hópi Súffragettanna en milli- og yfirstéttarkonur, eins og lafði Constance Lytton komst að þegar hún var fyrst í haldi sem yfirstéttarkona en síðan dulbúin sem verkakona.

Emily Wilding Davison dó fáeinum dögum eftir að hún stökk fyrir veðhlaupahest konungs árið 1913.
Emily Wilding Davison dó fáeinum dögum eftir að hún stökk fyrir veðhlaupahest konungs árið 1913.

Ekkert dauðsfall varð þó í þessum aðgerðum eftir því sem ég best veit nema þegar Emily Wilding Davison hljóp fyrir veðhlaupahest konungs á Derby-veðreiðunum árið 1913. Fyrir vikið varð hún í senn píslarvottur og táknmynd öfgafullrar kvenréttindakonu. Fræðimenn deila enn um það hvort Davison hafi ætlað að henda sér fyrir hestinn eða stöðva hann með því að grípa í beislistaumana, og koma fyrir á honum flaggi WSPU með áletruninni Kosningarétt handa konum eða Votes for Women. Þessi sena er endurgerð á áhrifaríkan hátt í kvikmyndinni þar sem áhorfandinn veit ekki, rétt eins og fræðimennirnir, hvað Davison ætlaði raunverulega að gera. Til er upptaka af þessum atburði sem gerir þetta enn meira sláandi, finnst mér, endurgerðin er nákvæm – og svo er súmmað á myndatökumennina sem hamast við að snúa sveifum upptökuvélanna.

Dæmi um baráttufána súffragettanna. Litir þeirra voru hvítur, grænn og fjólublár.
Dæmi um baráttufána súffragettanna. Litirnir sem þær notuðu í baráttu sinni voru hvítur, grænn og fjólublár.

Í kvikmyndinni er aðeins stutt tímabil tekið fyrir, 1912–1913. Áhugasamir um hvað leiddi til þessarar hörðu baráttu verða að leita annað, til dæmis má horfa á þætti sagnfræðingsins Amanda Vickery, Suffragettes Forever (BBC 2015), þar sem hún rekur í þremur þáttum hvað leiddi til þess að konur gáfust upp á friðsamlegri baráttu, að biðja karlana um mannréttindi, og gripu til vopna, ef svo má að orði komast. Þættirnir eru á Youtube.

Öruggara hefur þótt að hafa góðan hóp af lögreglumönnum þegar Sylvia Pankhurst var handtekin árið 1912.
Öruggara hefur þótt að hafa góðan hóp af lögreglumönnum þegar Sylvia Pankhurst var handtekin árið 1912.

Í kvikmyndinni eru „venjulegar“ konur aðalsöguhetjurnar, ekki mæðgurnar Emmeline og Christabel Pankhurst, eða Sylvia Pankhurst, önnur þekkt dóttir Emmeline. Þær eru allar nefndar í myndinni en aðeins Emmeline kemur þar fram, í stuttri senu þar sem hún ávarpar baráttukonur á áhrifaríkan hátt – með nokkrum vel völdum setningum sem sagnfræðingurinn June Purvis segir að séu teknar úr þremur mismunandi ræðum Emmeline. Það er verkakonan Maud Watts (leikin af Carey Mulligan)  sem er aðalsöguhetja myndarinnar og er óhætt að segja að saga hennar, og kvennanna í kringum hana, sé dramatísk.

Kvikmyndin fékk misjafnar viðtökur ytra. Henni hefur verið hrósað en hún einnig gagnrýnd fyrir að vera einhvern veginn ekki nóg eða of eitthvað, svo sem fyrir að vera of hvít. Ég fer ekki út í þá umræðu hér eða hversu réttmæt hún er þegar fjallað er um sögulega atburði sem eiga sér stað í ákveðnum tíma og rúmi. Sjálfri fannst mér myndin vel gerð og áhrifamikil.

Ævisaga Emmeline Pankhurst eftir June Purvis
Ævisaga Emmeline Pankhurst eftir June Purvis

Saga Súffragettanna er umdeild í Bretlandi og hefur verið túlkuð með ýmsum hætti. Einn helsti sérfræðingurinn í sögu þeirra er June Purvis sem hefur m.a. skrifað ævisögu Emmeline Pankhurst (2002). Margar konur úr hreyfingunni gáfu út minningar sínar og skrifuðu um baráttuna og á áttunda áratugnum tók sagnfræðingurinn Brian Harrison viðtöl við 193 konur sem störfuðu í WSPU. Þessi viðtöl eru nú varðveitt á kvennabókasafninu í London, The Women’s Library.

June Purvis ræðir um súffragetturnar og sagnritun í sérlega áhugaverðri og persónulegri grein í Women’s History Review árið 2013. Hún bendir á að meginheimildin um starfsemi súffragettanna hafi verið bók Sylviu Pankhurst, The Suffragette Movement (1931). Þar birtir Pankhurst mjög neikvæða mynd af hreyfingunni, móður sinni og systur, Emmeline og Christabel. Sylvia starfaði lengst af við WSPU en að endingu áttu mæðgurnar ekki samleið og Sylvia var rekin úr WSPU. Hún vann áfram að kvenréttindamálinu innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er bæði flókin og sársaukafull saga.

Það er þó einkum andúð karlkyns sagnfræðinga sem er að sögn Purvis áberandi. Hún birtist í því hvernig þeir fordæma aðgerðir súffragettanna, reyna ekki að skilja kröfur þeirra um jafnrétti og eru með háðsglósur um útlit, kynhegðun og kynhneigð kvennanna.
June Purvis segir að snemma hafi borið á neikvæðu viðhorfi sagnfræðinga í garð súffragettanna. Marxískir kvennasögufræðingar á borð við Sheilu Rowbotham (stórnafn í femínískri sögu) hafa tekið afstöðu með Sylviu Pankhurst gegn hinni borgaralegu hreyfingu sem súffragetturnar sannarlega voru í grunninn. Það er þó einkum andúð karlkyns sagnfræðinga sem er að sögn Purvis áberandi. Hún birtist í því hvernig þeir fordæma aðgerðir súffragettanna, reyna ekki að skilja kröfur þeirra um jafnrétti og eru með háðsglósur um útlit, kynhegðun og kynhneigð kvennanna. Þær eru, í stuttu máli, útmálaðar sem fáránlegar. Þetta viðhorf birtist þegar árið 1935 í bók sagnfræðingsins Georg Dangerfield og hefur síðan þá lifað ágætu lífi í verkum margra karlsagnfræðinga. David Mitchell skrifar til dæmis árið 1977 í ævisögu sinni um Christabel Pankhurst að súffragetturnar hafi verið kynsveltar og „illskeyttar piparmeyjar“ sem innst inni þráðu að eiga kynmök við karlmann. Mitchell telur að konurnar hafi raunverulega þráð að „gripið“ væri í þær; að lögreglumenn, þingverðir og aðrir sem tókust á við þær myndu grípa um brjóst þeirra, fara með hendi undir pilsins, rífa fötin utan af þeim. Og hann heldur því fram að Christabel hafi þráð móður sína kynferðislega (fyrir utan að hafa verið kaldrifjuð, metnaðargjörn og sturluð). Purvis segir að þótt vissulega séu þessi orð Mitchells öfgakennd þá leggi hann áherslu á það sama og aðrir karlsagnfræðingar sem skrifa frá því sem Purvis og fleiri kalla karllegt sjónarhorn (masculinist perspective) og lítur á súffragetturnar sem fáránlegar konur á skjön við allt sem eðlilegt þótti.

Nýrri dæmi um þetta viðhorf eru skrif sagnfræðinganna Christopher Bearman og Martin Pugh frá því í upphafi 21. aldarinnar (Pugh er reyndar einn viðmælenda Amöndu Vickery í einum þætti hennar af Suffragettes Forever). Bearman hefur skrifað um ofbeldi súffragettanna, sem hann 
fordæmir og líkir þeim við hryðjuverkamenn samtímans. Jafnframt gerir hann lítið úr rannsóknarniðurstöðum femínískra fræðimanna á borð við Purvis sem hann telur ekki komast að „réttum“ niðurstöðum í rannsóknum sínum því þær hafi verið drifnar áfram af pólitískum markmiðum. Purvis var fengin til að bregðast við skrifum hans í tímariti BBC (BBC History Magazine 8:2 2007) og þar gagnrýndi hún hann m.a. fyrir að reyna á engan hátt að skilja það samfélagslega samhengi sem baráttuaðferðir súffragettanna spruttu úr eða þær hindranir og þá samfélagsgerð sem súffragetturnar og aðrar baráttukonur þessa tíma reyndu að brjóta upp. Og hún benti á að andstætt því sem gerðist í sjálfsmorðárásum nútímans hefðu súffragetturnar engan drepið.

Þessi deila um „rétta“ túlkun sögulegra atburða náði hámarki þegar Bearman hótaði Purvis að klaga í yfirmenn hennar við háskólann í Portsmouth. Sem hann gerði en hafði ekki árangur sem erfiði í tilraunum sínum til að þagga niður í henni.

Súffragetturnar eru því enn umdeildar.
Martin Pugh er annar erkifjandi Purvis (og súffragettanna). Hann er þekktur sagnfræðingur í sögu Bretlands á fyrri hluta 20. aldar, og hefur skrifað heilmikið um súffragetturnar. Pugh hefur þó (að sögn Purvis) gert lítið úr rannsóknum femínískra fræðimanna og kosið að draga upp neikvæða mynd af súffragettunum þar sem kynhneigð, lesbískar ástir og meint kynhegðun eru notaðar til þess að gera lítið úr þeim. Pugh og Purvis hafa tekist hart á um sögu súffragettanna á síðum blaða og tímarita og mitt í fræðilegu átökum þeirra fyrir um áratug sótti Purvis um inngöngu í „Klúbb ævisöguhöfunda“ (Biographer’s Club) enda höfundur ævisögu Emmeline Pankhurst. Hún fékk neitun og skýringin var sú, þegar hún leitaði eftir henni, að Pugh mætti þar á fundi – og að heyrst hefði að hún væri „til vandræða“. Formaðurinn sem svaraði henni reyndist vera umboðsmaður Pugh.
Súffragetturnar eru því enn umdeildar.

Það má kannski ljúka þessu með því að nefna að í íslenskum blöðum voru súffragettum valin heiti á borð við „pilsvargar“, „kvenvargar“, „kvendjöflar“ og fréttir af þeim yfirleitt neikvæðar. Þetta gekk svo langt að Bríet Bjarnhéðinsdóttir sá sig tilneydda til að rita langa grein um bresku súffragetturnar og sögulegt samhengi baráttuaðferða þeirra í Kvennablaðið árið 1913 (Kvennablaðið 19. mars og 19. apríl 1913).
[line]

Nokkrar heimildir:

June Purvis. „Gendering the Historiography of the Suffragette Movement in Edwardian Britain: some reflections“, Women’s History Review, 22:4 (2013), 576-590, DOI: 10.1080/09612025.2012.751768

June Purvis. Emmeline Pankhurst. A Biography (Routledge 2002).

Patricia W. Romero. E. Sylvia Pankhurst. A Portrait of a Radical (Yale University Press, 1990).

Ann Morley og Liz Stanley. The Life and Death of Emily Wilding Davison (The Women’s Press, 1988).

Emily Wilding Davison og veðhlaupahestur konungs

June Purvis um kvikmyndina Suffragette

„Told in their own voices, the suffering of the suffragettes“

„Why the Suffragettes still matter“

Dómur Peter Bradshaw í The Guardian

Um höfundinn
Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda er dósent í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila