Gróf upp fjölskylduna á Hofstöðum

[x_text]
Í ár urðu mikil tímamót hjá Hildi Gestsdóttur fornleifafræðingi þegar hún lauk uppgreftri á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit, en því verkefni hefur hún stjórnað, með hléum, í fimmtán ár.
Hildur Gestsdóttir útskrifaðist sem doktor í fornleifafræði frá Háskóla Íslands árið 2014, en hún kom fyrst að uppgreftri á Hofstöðum á vegum Fornleifastofnunar árið 1996. Þá hafði rannsókn á víkingaaldarskála staðið þar yfir í fjögur ár. „Ég var bara grafari í skálanum og fór svo í mannabeinafræði í Bretlandi. Þegar ég kom til baka á Hofstaði, árið 1998, hafði verið stofnaður uppgraftarskóli á Hofstöðum, þ.e. verknámsfræðsla fyrir háskólanema í fornleifafræði. Árið 1999 voru gerðir prufuskurðir í kirkjugarðinum samhliða vinnunni í skálanum, en þetta er allt í túninu á Hofstöðum og aðeins 100 metrar á milli. Kirkjugarðsuppgröfturinn varð mitt verkefni og ég stjórnaði því frá upphafi.“

Heildstætt safn af beinagrindum

Verkefnið byrjaði þegar doktorsnemi í Háskólanum í Bradford gerði tilraunir með jarðsjármælingar á Íslandi. Hann gerði slíkar mælingar á túninu á Hofstöðum en talið var að þarna hefði verið kirkjugarður. Hluti af túninu hafði alltaf vHugras_HofstadirHildurerið kallaður „kirkjugarðurinn“ en um kirkju á þessum stað er aðeins til ein rituð heimild frá 1477; þar er minnst á kirkjuskyld á Hofstöðum. „Við jarðsjármælingarnar kom í ljós hringlaga garður, sem er dæmigert lag á miðaldakirkjugarði. Þá var ákveðið að stækka þessa rannsókn og taka kirkjugarðinn með líka. Á þeim tíma vantaði heildstæð mannabeinasöfn. Það voru til um þúsund beinagrindanúmer á Þjóðminjasafninu en í mannabeinarannsóknum þarf að vera til heildstætt safn af beinagrindum svo hægt sé að draga ákveðnar ályktanir um samfélög. Ein beinagrind segir lítið nema um einstakling en safn af þeim gæti sagt okkur eitthvað um samfélag. Síðan þá hefur þó bæst úr því, með fleiri svona kirkjugarðarannsóknum, t.d. á Skriðuklaustri og í Keldudal í Skagafirði. En á Hofstöðum var markmiðið frá upphafi að grafa upp allan garðinn; til að fá stærðina á safninu og heildarmyndina. Ákveðin mynstur er ekki hægt að sjá nema maður hafi allt safnið.“

Risastórt verkefni

Árið 2000 byrjaði uppgröfturinn í kirkjugarðinum á Hofstöðum, undir stjórn Hildar. „Ég fékk þetta eiginlega upp í hendurnar en verkefnið hefði aldrei farið af stað nema af því að ég var til staðar sem mannabeinafræðingur til að taka það að mér.“ Árið 2002 kláraðist uppgröfturinn í víkingaaldarskálanum en sá í kirkjugarðinum hélt áfram. Framvindan markaðist mjög af því hvort styrkir fengust til verkefnisins, og hversu stórir, en eitthvað var grafið á hverju sumri, í 2-5 vikur, eftir því hversu mikið fjármagn fékkst. Í sumar kláraðist loks uppgröfturinn og segir Hildur að það hafi verið mikill áfangi, enda verkefnið risastórt. Kirkjugarðurinn er 450 fermetrar, rúmlega 25 metrar í þvermál, og því frekar stór miðað við miðaldakirkjugarð. Elstu miðaldakirkjugarðar eru með hringlaga garðlag og kirkja í miðjunni. Þessi reyndist hins vegar áttstrendur.[/x_text]

[x_text]„Það lag hafði mjög táknræna merkingu í kristni, og það er möguleiki að þetta sé ekki eini áttstrendi kirkjugarðurinn. Það eru svo margir garðar undir sverði enn í dag og þetta sá eini þar sem búið að grafa fram garðlagið sem umlykur hann. Það var reyndar ekki fyrr en við sendum upp dróna að við áttuðum okkur á laginu. Í miðju garðsins reyndust svo vera mannvirki og þar grófum við upp þrjár mismunandi byggingar, sem voru hver ofan á annarri. Og svo 170 beinagrindur allt í kringum kirkjuna. Við getum ákvarðað aldurinn á þessu nokkuð vel því við erum með tvö gjóskulög, annað fyrir neðan og hitt fyrir ofan. Neðra gjóskulagið er frá árinu 940 og svo liggur önnur gjóska frá því um 1300 yfir öllu. Við erum líka búin að gera svolítið af kolefnisgreiningum á beinagrindum og öðru efni sem benda til að flestar minjarnar séu frá 10. til 12. öld. Elsta kirkjan sem við fundum er reist seint á 10. öld en það er mjög lítið eftir af henni, aðeins stoðaholur, sem benda til að þetta hafi verið timburkirkja, og smá leifar af gólfi. Það hefur allt verið fjarlægt þegar hún var rifin og byggð önnur kirkja. Við höfum ekki tímasetningu á því hvenær það er gert, en kirkjan sem tekur við er klárlega stafkirkja, því þar erum við með stoðarsteina í hornunum og flata steina á milli þar sem stafirnir hafa staðið. Kirkjuskipið er mjög lítið, 3×3 metrar, en hornstoðirnar hafa verið 80 cm í þvermál. Það eru mjög stórar hornstoðir og við teljum að það þýði að byggingin hafi verið mjög há, í raun eins og turn, annars væri engin ástæða til að vera með svo stórar stoðir í svona lítilli byggingu. Turninn minnir á norskar stafkirkjur, en þær voru með svalir í kring og við sáum engin merki um slíkt. Þessi bygging er aðalkirkjan sem við höfum en ofan á þetta var svo byggt torfhlaðið hús, eftir 1477. Við sjáum það af því að þá er gjóska í torfinu. Árið 1950 var túnið sléttað og þá skemmdist yngsta húsið mjög mikið svo við vitum ekki hvaða hlutverk það hafði. Við höfum aðeins þessa heimild frá 1477 um kirkjuskyld. Þá var löngu hætt að greftra í kirkjugarðinum, það hætti fyrir árið 1300, en mögulega var þetta bænahús.“

Vantaði börnin inn í söguna

Úr kirkjugarðinum voru alls grafnar upp um 170 beinagrindur. Þar af voru rúmlega 90 af börnum, aðallega nýburum. Flest fullorðna fólkið var grafið austanmegin við kirkjuna, konurnar í norðurhlutanum og karlarnir í suðurhlutanum, en það er þekkt mynstur í miðaldakirkjugörðum. Á þessu eru þó undantekningar og Hofstaðir eru að því leyti öðruvísi en t.d. kirkjugarðurinn í Keldudal þar sem þetta var ófrávíkjanlegt regla. Elstu grafirnar eru austan við kirkjuna og langflest fullorðna fólkið er grafið í röðum.

Uppdráttur af svæðinu eins og það leit út í lok sumars 2014. Eldri svæðin eru í gráum lit og síðasta rannsóknarsvæðið er innan svörtu útlínunnar. Rauðu beinagrindurnar eru þær sem voru grafnar upp 2014, sumarið 2015 bættust svo við 36 grafir á þessu svæði.
Uppdráttur af svæðinu eins og það leit út í lok sumars 2014. Eldri svæðin eru í gráum lit og síðasta rannsóknarsvæðið er innan svörtu útlínunnar. Rauðu beinagrindurnar eru þær sem voru grafnar upp 2014, sumarið 2015 bættust svo við 36 grafir á þessu svæði.

Í röðinni næst kirkjunni liggur fólk svo þétt að það er nánast gröf við gröf, en alls eru fjórar raðir. „Það vildu greinilega allir vera beint austan við kirkjuna það er fíni staðurinn til að liggja á, með höfuðið i átt að kirkjunni,“ segir Hildur. „Í upphafi er mikið skipulag á því hvernig raðað er niður. Börnin eru sunnan við kirkjuna og þétt upp við hana, en það er líka þekkt frá miðaldakirkjum í Evrópu. Í Englandi hefur verið sagt að þetta snúist um að regnvatn dropi frá þakskeggi kirkjunnar og blessi þau. Þarna er rosalega þétt grafið, mikið af börnum, og greinilega verið að reyna að koma þeim sem næst kirkjunni því þau eru jafnvel grafin hvert ofan á annað. Á svæði sem var 1,5 til 3 metrar voru 50 grafir, langflestar barnagrafir. En aðeins lengra sunnan við fundum við svo aðrar þyrpingar af börnum. Það er nokkuð ljóst að verið var að aðskilja þessi börn. Við getum ekki séð enn sem komið er hvort þær grafir eru frá öðru tímabili, það er eitthvað sem ég á eftir að leysa úr í úrvinnslunni. Það virðist þó vera að í upphafi hafi verið mest grafið og þá hafi jafnframt verið mesta skipulagið. Undir lokin, þegar nýtingin á kirkjugarðinum fer hægt og rólega að minnka, er eins og skipulagið hverfi, fullorðið fólk er t.d. grafið beint ofan í barnsgrafir og fólki virðist hreinlega troðið einhvers staðar.“

Kirkjugarðar af þessu tagi voru margir á þessum tíma, þeir lágu gjarnan upp við bæi, og á Hofstöðum er gamla bæjarstæðið þétt upp við garðinn, beint vestan við kirkjuna. Hildur segir rannsóknir sýna að svona kirkjugarðar hafi verið á um þriðja hverjum bæ, þeir hafi þá þjónað bænum sem þeir stóðu við og nokkrum bæjum í kring. Á Hofstöðum séu ef til vill frekar margir grafnir, en sá garður hafi líka verið í notkun í að minnsta kosti 200 ár. Hins vegar sé þetta fyrsti uppgröfturinn hér á landi þar sem finnst svo mikið af beinagrindum barna. „Ég held að hann sé bara einn af fáum görðum sem sýna rétta mynd af samfélaginu, af því að við gröfum hann allan upp. Varðveisluskilyrðin eru mjög góð, og hann var í notkun í langan tíma. Þar með fáum við þennan mikla ungbarnadauða inn í gagnasafnið. Þetta er mjög áhugavert því svona stór söfn af vel varðveittum barnabeinum eru óvenjuleg. Ekki bara á Íslandi, heldur er þetta með stærri söfnum af barnabeinum í Evrópu. Og það er ljóst að ef við getum ekki sagt söguna af börnunum þá vantar stóran hluta af sögunni.“

Fjölskyldan á Hofstöðum

Þar sem Hildur hefur fylgt verkefninu frá upphafi til enda var nokkuð táknrænt að hún endaði á því að klára það ein. „Það var mjög skrítin vika. Ég þurfti að klára verkið, upp á styrkumsókn. Ég hélt að það væru svona fjórar barnsgrafir eftir, miðað við það hvernig verkefnið hafði þróast um sumarið, en akkúrat á þessum stað kom þyrping og á einum stað voru fimm grafir. Ég gróf ein upp tólf grafir. Í raun átti ég að vera í fríi og fjölskyldan var komin til mín en ég þurfti að halda áfram. Það var sérstök stund þegar ég var þarna ein að grafa upp 170. beinagrindina, kláraði það og gekk í burtu.“

Hugras_Hofstadir6
Nú þegar uppgreftri er lokið blasir enn við mikil vinna við úrvinnslu á uppgraftargögnum, rannsóknir og greiningu á beinum. „Við erum, í samstarfi við Scottish Universities Environmental Research Centre, byrjuð á ítarlegum ísótóparannsóknum til að greina mataræði, uppruna, fólksflutninga og svoleiðis. Þar fyrir utan hefur safnið verið notað í fjölda rannsókna, Eitt risastórt verkefni snýr að DNA-rannsóknum og kortlagningu genamengis á Norður-Atlantshafssvæðinu. Mitt aðaláhugasvið eru sjúkdómar og fornmeinafræði og mig langar til að halda áfram við það sem ég kannaði í doktorsrannsókninni minni, þegar ég skoðaði slitgigt í beinagrindum úr Hofstaðakirkjugarði og fleiri stöðum. Við vitum að slitgikt er arfgeng á Íslandi, mjaðmagikt og handagikt, það er búið að finna genin. Ég fann ótrúlega hátt hlutfall af þessari arfgengu slitgikt í Hofstaðakirkjugarði – 15% af beinagrindunum sem ég skoðaði voru með mjaðmagikt en meðaltalið fyrir aðra staði er í kringum 5% og í samanburðarsöfnum frá Skandinavíu og Bretlandi er hlutfallið um 2%. Niðurstaðan er sú að fólkið á Hofstöðum sé líffræðilega skylt. Það er áhugavert því kirkjugarðurinn var í notkun í a.m.k. 200 ár og bendir til að sama fjölskyldan hafi búið þar allan þennan tíma. Þetta kom mér til að spá í fjölskylduna, sem hefur ekki verið mikið tækluð sem hugtak í fornleifafræði, þar er frekar talað um „household“ og „communities“. Þegar ég rannsaka beinin langar mig að gera það með þetta hugtak í huga, við erum að fást við fjölskyldu og hvernig er hægt að takast á við það. Okkur finnst svo sjálfsagt hvað hugtakið fjölskylda merkir, en þetta eru ekki alltaf líffræðileg tengsl, fólk elur upp börn sem eru ekki endilega líffræðileg skyld því. Er fjölskylda meira en skyldleiki, getum við horft á það hvernig komið er fram við fólk, t.d. hvernig gengið er frá líkum, og er það öðruvísi en annars staðar? Eitt af því sem við viljum rannsaka með ísótópagreiningu er brjóstagjöf; var börnum gefið brjóst, hversu lengi o.sv.frv.“

Sóknarfæri fyrir fornleifatúrisma

Uppgröfturinn á Hofstöðum hefur vakið athygli erlendis og Hildur fær mikið af fyrirspurnum frá fólki sem hefur áhuga á að stunda rannsóknir honum tengdar. Hofstaðir eru jafnframt einn af þeim stöðum sem Minjastofnun Íslands mun lagfæra sem minjastað til að auðvelda aðgengi almennings að minjunum. Gengið verður frá svæðinu þannig að hægt sé að sjá eitthvað í kirkjugarðinum og víkingaaldarskálanum, gerðir verða göngustíHugras_Hofstadir4gar, upplýsingaskilti o.fl. Hildur telur þetta mjög jákvætt. Áhugi fólks sé til staðar en á fáum stöðum sé hægt að ganga um og sjá slíkar minjar. Þá sé gott, með aukningu ferðamanna, að dreifa þeim meira. „Það er mikið sóknarfæri fyrir fornleifatúrisma og ég hef fengið fyrirspurnir frá ferðaþjónustunni, fólk vill koma og skoða. Ég fór nýlega til Orkneyja þar sem þeir hafa gert mikið út á þetta; 50% túrista þar koma til að skoða fornleifar. Við gætum lært mikið af þeim. Ég hef miklar skoðanir á því hvernig standa megi að málum á Hofstöðum, enda er ég orðin tilfinningalega tengd staðnum eftir 20 ára vinnu þar. Það er til dæmis áhugi hjá mér og fleirum fyrir því að þar verði komið á stofn rannsóknasetri. Ég veit um mörg verkefni sem fólk í Mývatnssveit gengur með í maganum, tengd fornleifa- og fornvistfræði og samstarfi milli íslenskra og erlendra háskóla. Svona rannsóknasetur myndi draga að sér rannsóknir. Mývatnssveit er eitt best rannsakaða svæðið á Íslandi hvað varðar fornleifar, en því meira sem við rannsökum, þeim mun fleiri spurningar vakna.“

Fimmtudaginn 5. nóvember mun Hildur halda fyrirlestur þar sem hún fer yfir sögu rannsóknarinnar, segir frá fyrstu niðurstöðum og fjallar um næstu skref. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 132 í Öskju klukkan 16:30. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.[/x_text]

[x_text][fblike][/x_text]

Deila