Staða fræðanna á Hugvísindasviði Háskóla Íslands er viðfangsefni annars heftis Ritsins 2015, sem nú er komið út.
Í tilkynningu um efni Ritsins segir:
„Hugvísindi eru órofa þáttur menningarlífsins. Tali þau ekki til þess menningarumhverfis sem þau spretta úr er gildi þeirra takmarkað. Það má jafnvel segja að vægi þeirra fyrir nærumhverfi ráði úrslitum um gildi þeirra í alþjóðlegu samhengi. Hugvísindi sem einvörðungu eru stunduð á erlendum tungum, fyrir sérfræðinga á þröngu sviði hafa glatað menningarlegu hlutverki sínu. Án hinnar menningarlegu víddar geta þau heldur ekki lengi verið viðfangsefni þröngrar samræðu sérfræðinga. Jafnvel mætti varpa fram þeirri áleitnu spurningu hvort versnandi staða hugvísinda við ýmsa háskóla á Vesturlöndum stafi ekki einmitt af því að þau hafa smám saman lokast inni í heimi sérfræðinga og ,vísindalegs gildis‘, þau hafi týnt almennri skírskotun sinni og menningarlegu gildi, eigi ekki, og það sem mikilvægara er, geti ekki lengur átt í samræðu við allan almenning. Af þessum ástæðum hefur eitt af markmiðum Ritsins frá upphafi verið að gegna tvíþættu hlutverki sem menningarmiðill og vettvangur rannsókna sem hafa almennt gildi jafnvel þó að þær séu birtar á tungumáli sem aðeins rétt rúm 300 þúsund tala.“
Í þessu hefti Ritsins birtast sex greinar eftir nýútskrifaða og verðandi doktora í hugvísindum við Háskóla Íslands sem sýna gróskuna í íslensku rannsóknarstarfi.Í þessu hefti Ritsins birtast sex greinar eftir nýútskrifaða og verðandi doktora í hugvísindum við Háskóla Íslands sem sýna gróskuna í íslensku rannsóknarstarfi. Sumarliði Ísleifsson fjallar um hvernig ímynd Íslendinga mótast í meðförum erlendra höfunda. Jakob Guðmundur Rúnarsson og Þröstur Helgason greina tvö íslensk menningartímarit og hlutverk þeirra í samtíð sinni, Jakob Iðunni (1915‒1923) og Þröstur Birting (1955–1968). Auður Aðalsteinsdóttir fjallar um gagnrýnandann, stöðu hans í íslensku menningarlífi og hvernig erlendir straumar og tískur hafa áhrif á ímynd. Alda Björk Valdimarsdóttir hefur rannsakað verk og áhrif Jane Austen, en hún er fyrirferðarmikil í íslenskum samtíma rétt eins og erlendu og innlendu listamennirnir sem Auður, Jakob og Þröstur taka fyrir. Ásdís Sigmundsdóttur fjallar um Ánægjuhöllina, safn þýddra nóvella sem William Painter tók saman á árunum 1566–1567. Hún greinir stöðu ritsafnsins í bókmenntakerfi sextándu aldar á Englandi og hvernig það var notað af höfundum í meginbókmenntagreinunum þremur, prósa, ljóðlist og leikverkum.
Ritstjórar eru Guðni Elísson og Jón Ólafsson.
[Mynd við grein er af holunni þar sem Hús íslenskra fræða átti að rísa.][/x_text]
Deila