Á sýningunni Horft inní hvítan kassa má finna tengingar við Lísu í Undralandi sem fela í sér vissan lykil að list Katrínar Sigurðardóttur.


Þetta verk var upphaflega gert fyrir sýningu Katrínar í Metropolitan-listasafninu í New York árið 2010. Það var annað tveggja verka sem byggðu á 18. aldar endurgerðum herbergjum sem eru til sýnis í safninu sjálfu. Hitt verkið, sem áhorfendur geta séð líkan af á sýningunni, var flókin samsetning veggja, glugga og dyra þar skalinn var allt frá því að vera yfirstærð yfir í að vera í dúkkustærð. Þar sá áhorfandinn sjálfan sig í síbreytilegu hlutfalli við umhverfið sem hann var í (nokkuð sem jafnframt vekur upp minningar um hvernig Lísa tók stöðugum stærðarbreytingum í sögu Carrolls). Í innsetningunni sem sýnd er í Hafnarhúsinu gerði Katrín eftirmynd af herbergi úr safninu sem hún minnkaði niður í 85% af upphaflegri stærð sinni.
Hitt verkið „í fullri stærð“ á sýningunni er án titils, en er í reynd smá-útgáfa af High Planes myndverkaröð Katrínar. Katrín hefur gert High Planes í mörgum útgáfum; öll byggja þau á því að áhorfandinn þarf að stinga höfðinu innan í gat á plötu til að sjá verkið. Oftast er gatið í loftinu svo áhorfandinn þarf að ganga upp stiga til að sjá myndina. Í útgáfunni sem er til sýnis í Hafnarhúsinu þarf áhorfandinn hinsvegar að skríða upp á stóran kassa til að stinga höfðinu ofan í gat á honum. Þar blasir við módelsmíð sem sýnir bláleit fjöll rísa upp úr fletinum; áhorfandanum finnst eins og hann horfi yfir eyjaklasa úr lofti. Verk þetta er einskonar viðauki á hvolfi við margar útgáfur af þessu verki sem fyrst var sýnt í Galleríi Sævars Karls í Bankastræti árið 2001.

Lesanda þarf ekki að koma á óvart að hægt er að tengja verkið við Lísu í Undralandi og það sem fyrir hana kom. Fyrri bók Lewis Carolls um stúlkuna hefst, eins og flestir kannast við, á því að Lísa eltir kanínu ofan í kanínuholu. Þar ofaní er allt með ólíkindum; heimurinn og líkami Lísu tekur sífelldum breytingum. Í flestum High Planes verkum Katrínar byggir þátttaka áhorfandans á því að fara upp í stiga, stinga höfðinu upp um gat í loftinu og horfa yfir eyjaklasann þegar upp er komið. Í samhengi Lísu í Undralandi þá minna þau á kaflann þar sem hún beit í svepp fiðrildalirfunnar og stækkaði svo ógurlega að höfuð hennar náði upp fyrir skýin. Í verkinu í Hafnarhúsinu, þessum viðauka við High Planes, leiðir Katrín áhorfandann hinsvegar ofan í kanínuholuna þar sem yfirsýnin birtist honum á hvolfi, umsnúin í raun og veru, en rétt eins og áhorfandinn sér hana.

Í listamannaspjalli á sýningunni sunnudaginn 4. október vitnaði Katrín í Richard Serra sem sagði að líkan að verki yrði ekki raunhæft nema það væri í fullri stærð. Það á vissulega við um líkönin sem eru þriðji hluti sýningar Katrínar í Hafnarhúsinu. Það er algengt að Katrín leiki sér í verkum sínum með fjölbreytt blæbrigði stærðar og hlutfalla. Þar lendir áhorfandinn oft í því að að horfa yfir veröld í leikfanga- eða dúkkuhúsastærð sem hann er risavaxinn í samanburði við. Í sumum verkanna eru hlutföllin breytileg, eins og í stærri rýmisverkunum, þannig að áhorfandinn er ýmist of stór eða of lítill í hlutfalli við verkið.

Líkönin af verkum Katrínar gefa áhorfandanum nokkuð vel til kynna hvernig verkin eru samsett í heild og hvernig þau eru hugsuð inn í rýmin sem þau voru gerð fyrir. Smæð þeirra og oft skissukennd útfærsla gerir það þó að verkum að áhorfandinn á erfitt með að skilja líkamlegt samhengi þeirra. Það er helst að líkanið af veggja-verkinu sem sett var upp í Hafnarhúsinu árið 2004 skiljist; vegna þess að áhorfandinn er sjálfur staddur í rýminu sem verkið var sýnt í getur hann ímyndað sér hlutföll þess og afstöðu út frá líkaninu. Að sama skapi virka fínlega teiknuð smáatriðin í módelinu af Boiserie þannig að áhorfandinn getur betur áttað sig á því hvernig afstaða áhorfanda í verkinu sjálfu og hlutföll hafa breyst í raun og veru. Önnur líkön sem eru til sýnis eru þó áhugaverð að skoða; þótt áhorfandi geti ekki sett sig líkamlega í samband við þessi verk ná þau að sýna vel þá hugsun og aðferð sem liggur að baki stærri innsetningum Katrínar.
Í heildina er upplifun áhorfanda af sýningu Katrínar Sigurðardóttur í Hafnarhúsinu góð. Hún er vissulega sterkust í hápunkti sýningarinnar sem er spegilrýmið Skrautþiljur Það er afar ánægjulegt að hægt hafi verið að fá þetta meginverk Katrínar hingað til lands. Katrín hefur haldið margar áhugaverðar sýningar víða um lönd en því miður hafa fæst verkin ratað hingað. Þessi sýning er því kærkomið tækifæri fyrir íslenska áhorfendur að berja verk hennar augum. Umsnúna kassaútgáfan af High Planes kemur einnig skemmtilega á óvart, þótt hún sé ekki eins stórbrotin og útgáfur verksins í fullri stærð. Líkönin sem fylgja með, af helstu innsetningum Katrínar, eru einnig áhugaverð fyrir fólk að skoða; þótt þar sé ekki um fullbúin verk að ræða eru þau góður viðauki við meginverkin, þokkaleg leið til að kynna þessi verk Katrínar fyrir íslenskum áhorfendum sem ekki hafa átt þess kost að sjá þau í raun og veru.[/x_text]
Deila