Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir

[x_text]
Fyrr á öldum, ekkert síður en á okkar póst-módernísku tímum, léku skáld og listamenn sér að því að skapa margbrotin og á köflum sjálfhverf listaverk: Þeir máluðu myndir inni í myndum, skrifuðu sögusagnir, sköpuðu frásagnarspegla.
Í ritinu La Poétique de la prose (1971) gerir Tzvetan Todorov skarpan greinarmun á bókmenntagagnrýni og skáldskaparfræðum, greinarmun sem má skýra með samanburði við nútímamálvísindi í anda Saussures. Hlutverk málvísindamanna er ekki að túlka merkingu einstakra setninga heldur að uppgötva þær reglur og hefðir sem liggja málkerfinu til grundvallar. Með sama hætti lítur Hugras_poetic_bokTodorov svo á að það sé ekki markmið bókmenntafræðinnar sem vísindagreinar að túlka einstök bókmenntaverk heldur að skilja bókmenntir sem tjáningarform, skilgreina „bókmenntaleika“ bókmenntanna, varpa ljósi á þær formgerðir og hefðir sem öll bókmenntasköpun hvílir á.

Flestir kaflar La Poétique de la prose eru útlegging á þessari stefnuskrá. Í einum kaflanum, „Leitin að frásögninni“, kvartar Todorov til dæmis yfir því hve fræðimenn hafi haft lítinn áhuga á miðaldabókmenntum sem bókmenntum; þeir hafi þess í stað lagt megináherslu á að draga af verkunum einhverjar ályktanir um samfélag miðaldamanna eða höfundana sem skrifuðu þau. Á því séu þó markverðar undantekningar, þar á meðal bók Alberts Pauphilet Etudes sur la Queste del Saint Graal (1921) sem fjallar um franska miðaldatextann La queste del Saint Graal. Kveðst Todorov vilja taka upp þráðinn frá Pauphilet. Vitnar hann til þeirrar athugasemdar Pauphilets að í La queste del Saint Graal, sem rekur sögur af riddurunum við hringborð Arthúrs konungs og leit þeirra að hinum helga gral, sé ekki nóg með að sagt sé frá tilteknum atburðum heldur séu atburðirnir túlkaðir jafnóðum með svipuðum hætti og guðfræðingar hafi túlkað þá atburði sem sagt er frá í Biblíunni. Þannig sé algengt að riddararnir rekist á vitringa sem fræði þá um að ævintýrin sem þeir hafi gengið í gegnum vísi til atvika úr lífi Krists og arftaka hans eða jafnvel til annarra atburða í gralsögninni. Gawain dreymir til dæmis nautahjörð sem hyggst leita sér að betri bithaga og fær skömmu síðar að heyra að draumurinn fjalli í raun um leit þeirra riddaranna að hinum heilaga gral. Todorov talar í þessu sambandi um að frásögnin sé samsett úr texta og texta um þann sama texta (e. meta-text), sem fléttist þó saman: „Annar helmingur textans snýst um ævintýri, hinn helmingurinn um textann sem lýsir þeim“ (s. 123). Það má umorða þessa hugsun svo að í La queste del Saint Graal séu annars vegar frásagnir og hins vegar umræða milli persóna sem endurspegli eða túlki þessarar frásagnir. Eftir að hafa rætt ýmis dæmi af þessu tagi úr gralsögnunum kemst Todorov að þeirri niðurstöðu að sjálf leitin að gralnum sé í raun leit að túlkunarlykli. „Að finna gralinn er að læra að ráða hið guðlega tungumál, sem merkir […] að ná tökum á frumforsendum kerfisins“ (s. 129). Hann bætir því við að leitin að gralnum sé jafnframt leit að sögu sem er fær um að tjá það ósegjanlega: „Þar með virðist frásögnin vera höfuðminni Sögunnar um gralinn (eins og allra frásagna, en þó alltaf með ólíkum hætti)“ (s. 141).

Erlenda hugtakið metatext og hið hliðstæða hugtak metafiction, sem nær yfir skáldskap sem fjallar um skáldskap, hafa verið þýdd með ýmsum hætti á umliðnum árum. Einhverja snjöllustu þýðinguna er að finna í grein eftir Helgu Kress frá 1991 um slúður sem uppsprettu frásagnar í Íslendingasögunum en þar segir meðal annars: „Íslendingasögur eru að mjög miklu leyti paródískar, þær eru tal um tal, sögusagnir“ (s. 156). Hér er á ferðinni nákvæm og tiltölulega gegnsæ þýðing á hugtakinu sem Todorov notar. HelgaKressEins og alkunna er hefur Helga verið einn helsti brautryðjandi femínískra bókmenntafræða og kvennabókmenntasögu hér á landi, en það er ástæða til að vekja athygli á að rannsóknir hennar hafa jafnframt verið mikilvægt framlag til sögu íslenskra sögusagna. Í viðamikilli umfjöllun sinni um eddukvæði og Íslendingasögur vekur Helga gjarnan athygli á því hvernig þessir textar fjalla um (eða endurspegla) tungumálið og áhrifamátt þess og þá ekki síst hvernig orðræða og skáldskapur kvenna mótar hegðun og skáldskap karlanna. Grein sína um slúðrið byrjar Helga á því að vitna í 29. erindi Hávamála þar sem rætt er um æskilega meðferð tungumálsins: „Ærna mælir, / sá er æva þegir, / staðlausa stafi.“ Í framhaldi bendir hún á að víða í fornbókmenntunum komi fram ótti við stjórnlaust tal, ekki síst slúður kvenna, en um leið knýi slíkt tal atburðarásina gjarnan áfram. Meðal dæma sem Helga tilfærir er lýsing Njáls sögu á samræðum um skeggleysi Njáls sem fram fara í dyngju Hallgerðar Höskuldsdóttur á Hlíðarenda. Fær húsmóðirin Sigmund Lambason til að kveða vísur um karl hinn skegglausa og taðskegglingana syni hans. Gunnar, eiginmaður Hallgerðar, liggur á hleri og stígur hann brátt fram til að reyna að ná tökum á þessu tali. „En ef nokkur maður hermir þessi orð þá skal sá í brautu verða og hafa þó reiði mína,“ segir hann og bætir sögumaður við að viðstöddum hafi staðið svo mikil ógn af húsbóndanum „að engi þorði þessi orð að herma“. Helga túlkar senuna svo að Gunnar sé „fulltrúi karlveldis og bókmenntastofnunar“ sem hafi „heppnast í þvílíkum mæli í niðurþöggun sinni og ritskoðun að vísur Sigmundar eru ekki gefnar upp í sögunni. Eru þær og aðeins til í „apókrýfri“ gerð hennar og prentaðar aftanmáls í útgáfu Íslenskra fornrita, ásamt gróteskum vísum Unnar Marðardóttur um samfarir þeirra Hrúts“ (s. 141). Það fer samt svo að dylgjur Hallgerðar um karlmennsku Njáls spyrjast út og draga langan og blóði drifinn dilk á eftir sér í sögunni. Í þessu og fleiri dæmum sem Helga tilfærir má sjá hvernig einstakir viðburðir innan Íslendingasagnanna verða fljótt hluti af margbrotinni munnlegri hefð þar sem tekist er á um ólíkar túlkanir á veruleikanum. Hér má einnig minnast á grein Helgu um Fóstbræðra sögu, „Bróklindi Falgeirs“ sem birtist árið 1987, en þar sýnir hún með sannfærandi hætti fram á að frásögnin einkennist af grótesku raunsæi sem sýnir ekki bara hetjuna og hetjuhugsjónina í spéspegli heldur skopstæli í raun Íslendingasögurnar sem bókmenntagrein. Enda þótt þessar rannsóknir Helgu megi fella undir skáldskaparfræði, þá hafa þær sannarlega varpað nýju ljósi á íslenskt miðaldasamfélag og einnig (og oft ekki síður) á samtíma okkar.

Annar fræðimaður sem hefur verið vakandi fyrir Íslendingasögunum sem sögusögnum er Laurence de Looze. Í þremur greinum sem birtust á árunum 1986 til 1991 um svonefndar skáldasögur ræðir hann meðal annars um hvernig dróttkvæði og óbundið mál fléttistsaman í textunum og endurspegli hvort annað.Hugras_laurence_de_Looze Eðli sínu samkvæmt séu ævisögur skálda á borð við Egil Skallagrímsson, Gretti Ásmundarson og Gunnlaug ormstungu í og með lýsingar á tilurð einstakra kvæða og vísna eftir þá en um leið geymir skáldskapurinn veigamiklar heimildir um viðkomandi skáld. Í grein sinni um Egils sögu vekur De Looze athygli á því hvernig sumar vísur í sögunni séu í hæsta máta sjálfhverfar. Hann tekur meðal annars dæmi af tveimur vísum Egils sem skáldið flytur þriggja ára gamalt í veislu hjá Yngvari móðurafa sínum á Álftanesi. Í fyrri vísunni hreykir Egill sér af skáldagáfunni og krefur Yngvar skáldalauna, í þeirri síðari þakkar hann afa sínum fyrir að hafa gefið sér þrjá kuðunga og andaregg fyrir skáldskapinn. Fyrri vísan er svohljóðandi:[/x_text]

[x_text]

Kominn em eg til arna,
Yngvars þess er beð lyngva,
hann var eg fús að finna,
fránþvengjar gefr drengjum.
Munt eigi þú, þægir,
þrevetran mér betra,
ljósundinna landa linns,
óðar smið finna.

[/x_text]

[x_text]Ég er kominn til heimkynna Yngvars,
sem gefur drengjum gull.
Hann var ég fús að finna.

Þú munt ekki, örláti maður,
finna betra þriggja ára
ljóðskáld en mig.
[/x_text]

[x_text]Efniviður vísunnar er að drjúgu leyti tilurð hennar sjálfrar og sjálfshól hins unga skálds.[1] Í samhengi sögunnar er vísa Egils einnig afar skýrt dæmi um það sem svissneski fræðimaðurinn Lucien Dällenbach hefur, með hliðsjón af skrifum André Gide, kallað frásagnarspegil (fr. mise en abyme) og skilgreint sem verk inni í verki eða innri endurtekningu. Annað dæmi um frásagnarspegil í Eglu sem de Looze túlkar, með tilvísun til merkilegrar en vanræktrar greinar eftir Ludovica Koch, er kvæðið Sonatorrek, sem fjallar framan af um hve skáldið eigi erfitt með að yrkja („tungu að hræra”) en varpar, þegar frá líður, einstæðu ljósi á það hvernig skáldskapurinn („mærðar timbur”) sé fær um að gefa þeim látnu (ættartré Egils sem „á enda stendur”) eilíft líf. Samband Sonatorreks og sona Egils er hér hliðstætt sambandi Egils sögu og Egils sjálfs.

Forvitnilegt er að bera þau einkenni fornsagnanna sem þau Helga, de Looze og Koch vekja athygli á saman við málverk frá síðmiðöldum þar sem málverkum og speglum bregður fyrir. Eitt af þekktari verkum af þessu tagi er Arnolfini-portrettið (1434) eftir Hugras_arnolfini_spegillhollenska málarann Jan van Eyck (1390-1440) en talið er að viðfangsefnið séu annað hvort ítalski kaupmaðurinn Giovanni Arnolfini eða frændi hans, Giovanni di Arrigo, ásamt ónefndri þungaðri eiginkonu. Margskonar tákn er að finna á myndinni, þar á meðal er skrautlegur kúptur spegill sem sýnir hjónin aftan frá og jafnframt tvo aðra aðila sem eru þarna viðstaddir. Hugsanlega er listamaðurinn sjálfur annar þeirra, en nafn sitt hefur hann skrifað á vegginn fyrir ofan spegilinn. Spegilramminn er skreyttur táknrænum myndum sem sýna píslarsögu Krists. Verkið er áminning um að fyrr á öldum, ekkert síður en á okkar póst-módernísku tímum, léku skáld og listamenn sér að því að skapa margbrotin og á köflum sjálfhverf listaverk: Þeir máluðu myndir inni í myndum, skrifuðu sögusagnir, sköpuðu frásagnarspegla.

Þá fagurfræði sem býr að baki mynd Jan van Eyck má jafnframt tengja við rit Torfa Tulinius, Skáldið í skriftinni: Snorri Sturluson og Egils saga, sem kom upphaflega út árið 2004. Bókin, sem fjallar frá ýmsum hliðum um skáldskaparfræði Eglu, Hugras_TorfiHTul-216x216hefur nú nýlega komið út í endurskoðari útgáfu á ensku í þýðingu Victoriu Cribb undir titlinum The Enigma of Egil: The Saga, the Viking Poet, and Snorri Sturluson (enska gerðin er jafnframt í opnum aðgengi á netinu). Hugmynd Torfa er sú að höfundur Eglu hafi ekki aðeins falið í verkinu margháttaðar vísanir til Biblíunnar heldur einnig sína eigin spegilmynd. Í einum kafla bókar sinnar, sem ber titilinn „Sagan og höfundurinn“, ber Torfi söguna með beinum hætti saman við málverkið af Arnolfini-hjónunum (málverkið er prentað í íslensku gerðinni en ekki í þeirri ensku) og segir þar meðal annars:

„Þótt myndin sé um það bil tveimur öldum yngri en Egils saga er freistandi að skoða hana sem hliðstæðu sögunnar. Veruleikinn sem verkið miðlar virðist áþreifanlegur og efnislegur en er í raun búinn til af táknum sem vísa á æðri skilning og annan heim. Enn fremur gegna myndin og sagan báðar félagslegu hlutverki.“ (s. 212)

Síðast setningin í þessari tilvitnum, líkt og raunar allur síðari hluti bókar Torfa, er til marks um að þótt hann sé vakandi fyrir skáldskaparfræðum Egils sögu og miðaldabókmennta almennt þá er hann ekki síður áfram um „að draga af verkunum einhverjar ályktanir um samfélag miðaldamanna eða höfundana sem skrifuðu þau“, svo notuð séu orð Todorovs. Rannsóknir Torfa, líkt og rannsóknir Helgu Kress, eru til marks um að þetta tvennt getur vel farið saman og verður kannski aldrei fyllilega slitið í sundur.

Fræðiskrif sem vísað er til:

  • Dällenbach, Lucien, The Mirror in the Text, þýð. Jeremy Whiteley og Emma Hughes, Chicago: The University of Chicago Press, 1989.
  • de Looze, Laurence, „Poet, Poem, and Poetic Process in Bjarnarsaga Hítdælakappa and Gunnlaugssaga ormstungu“, Journal of English and Germanic Philology, 85/4, 1986, bls. 479–493;
  • de Looze, Laurence, „Poet, Poem and Poetic Process in Egils Saga Skalla-Grímssonar“, Arkiv för nordisk filologi 104, 1989, bls.123–142.
  • de Looze, Laurence, „The Poetic Outlaw: Self-Consciousness and Poetic Process in Grettis Saga Asmundarsonar“, Arkiv för nordisk filologi 106, 1991, bls. 85–103.
  • Helga Kress, „Staðlausir stafir: Um slúður sem uppsprettu frásagnar í Íslendingasögunum“,Skírnir 165, vor 1991, bls. 156.
  • Helga Kress, „Bróklindi Falgeirs: Fóstbræðrasaga og hláturmenning miðalda“, Skírnir 161, haust 1987, bls. 271–286.
  • Koch, Ludovica. „Le Bouclier et la corne á biére. Étude sur la conception de la poésie et du poète chez Bragi Boddason et Egill Skallagrimssons.“ Studi Nederlandesi-Studi Nordici 22 (1979): 125-63,
  • Pauphilet, Albert. Etudes sur la Queste del Saint Graal. Paris, É. Champion, 1921.
  • Sylvía Nótt, „Til hamingju Ísland“, Eurovision, Aþenu 18. og 20. maí, sérvefir Ríkisútvarpsins, vefslóð: http://servefir.ruv.is/euro06/lagid.htm, skoðað 19. júlí 2011.
  • Todorov, Tzvetan, The Poetic of Prose, þýð. Richard Howard. Cornell: Cornell University Press, 1977.
  • Torfi Tulinius. Skáldið í skriftinni: Snorri Sturluson og Egils saga. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, ReykjavíkurAkademían, 2004.

[1] Vísa Egils er í raun svo sjálfhverf að helst má jafna henni saman við dægurlagatextann sem Sylvía Nótt (alias Ágústa Eva Erlendsdóttir) söng í undankeppninni fyrir Evrópusöngvakeppnina árið 2006: „Mitt lag, ógeðslega töff, ekkert nineties ógeð. / Það er töff, ókey, það er ekki gay, / ég er komin hér to stay! / Hinar tíkurnar eru bólugrafnar en ég er hrein mey. / Þið elskið mig, þið dýrkið mig, sætt, en samt eitthvað svo glatað.“[/x_text]


Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila