Hið breiða millibil

[x_text]Ljóðin í bókinni Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur sýna ólíka þræði frelsisins og hversu stórt hugtakið er og vandasamt. Ljóðmælanda liggur mikið á hjarta og hann þarf að koma til lesandans brýnum skilaboðum. Hann bendir á misréttið, kúgunina og ánauðina sem beitt er í nafni frelsisins.

Sögusviðið er stórt og lesandi ferðast bæði í tíma og rúmi um langan veg. Um ljóðabálk er að ræða þar sem ljóðin flæða fram hvert af

Kápa bókarinnar Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur
Kápa bókarinnar Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

öðru. Þau bera ekki sjálfstæð nöfn heldur eru hluti af heildinni og tengjast þannig sterkum böndum. Bókin skiptist í formála og þrjá aðgreinda kafla og greina má ólíkan tón í hverjum kafla fyrir sig.
Í upphafi er linsan mjög víð og teygir sig milli himins og jarðar í andstæðupörum sem dansa saman og við fáum að sjá áhrifamátt orðanna og hvernig þau móta heiminn. Formálinn er meitlaður og knappur en um leið vegur hvert orð þungt og lesandinn fær strax að sjá að allt er undir.
Fyrsti kafli og formáli renna saman og í fyrsta kafla liggur kjarninn í moldinni, jörðinni, garðinum græna sem og frændgarðinum. Við erum stödd í garðinum, við undirbúum máltíð, veislu. Við réttlætum gjörðir okkar og sýnum fram á gæsku okkar í garð náungans. Hugsanamynstur nútímamannsins er dregið upp. Röddin og raddblærinn skapar íróníska spennu og hin sjálfumglöðu við stefnum að fullkomnun og doða, þráum bara þægindi og slökun, finnum hentugar réttlætingar og rökstyðjum þann rétt okkar. Jörðin og framsalsfrelsið koma fram í lokaljóði kaflans:

skilaboð okkar
til umheimsins eru skýr

þó að lóðin sé skráð á krakkana
er okkur eftir sem áður
frjálst að framselja moldina (29)

Í öðrum kafla færist ljóðsviðið yfir til Jerúsalem og nágrennis. Efnið fléttast meðal annars saman við fæðingarsögu frelsarans í Betlehem, píslir hans og dauða. Ljóðmælandi er á ferð um söguslóðir Biblíunnar, í hópi ferðamanna sem skoðar grátmúrinn og merkar slóðir þar sem frelsið hefur heldur betur borið á góma undanfarin 2000 ár. Fólkinu er skipt í þrjár tegundir manna, þ.e. gyðinga, araba og pílagríma. Sjónarhornið þrengist og lesandinn fær fastan punkt í tíma og rúmi. Við ávarpið þrengist líka og á nú við um hóp pílagríma en líka ljóðmælanda og vinkonu sem ferðast saman. Í þessum kafla ríkir nokkurs konar afslappað kæruleysi, ljóðmælandi bregður á leik og reynist leiðsögumaður lesandans um framandi slóðir sem eru samt svo kunnuglegar úr jólaguðspjallinu og fréttamiðlum samtímans. Á sama tíma vísar leiðsögumaður að nafni Músa ljóðmælanda og pílagrímunum um svæðið. Í þessum kafla eru oft heilar og röklegar setningar brotnar upp í ljóðlínur og spurning hvort færi betur að stilla þeim hreinlega upp sem prósaljóðum. Ljóðin draga upp mynd af andstæðum, spennu, víglínu og heift. Karlarnir eru plássfrekir á meðan konurnar mega gráta

og biðja
í sínu afmarkaða kerlingahorni (45)

Slagkrafturinn er mikill og vísunin sterk í dauðastríð og upprisu Jesú úr Nýja testamentinu og hlutskipti kynjanna í samhengi þeirrar sögu. Þessi sterku lokaorð kaflans draga saman ferska túlkun á alþekktu minni:

enn sofa mennirnir
á verðinum í getsemanegarðinum

og konurnar sitja uppi með ávöxtinn
og ríflega ábót á kaleikinn (47)

Í þriðja og síðasta kaflanum erum við komin úr ferðalaginum, komin hingað og ekki lengra. Okkur er hollast að gera hitt og þetta og það er leiðarstef kaflans. Hér er skotið föstum skotum á hugarfar frjálshyggjunnar og markaðsvæðingarinnar á bæði skoplegan og martraðarkenndan hátt. Marrið og brakið í eftirfarandi ljóðlínum er hrollkennt:

hollast
að hlusta í andakt
á hátíðaræðurnar

/…/

hlusta í andakt
þegar markaðsmarrið í ráðherrakjálkunum
rennur saman við arðbært brakið í bráðnuðum ísnum
á norðurslóð og endimörk hins byggilega heims
verða að hringiðu nýrrar heimsmyndar (52)

Lesandanum líður ekki vel því dregin er upp afar óþægileg mynd í þessum kafla af hugarfari og tíðaranda dagsins í dag. Áður en kemur að lokaljóðinu eru alls sex ljóð sem byrja á „við höfum …“ og síðan er tilgreindur sá skaði sem við völdum í fullkominni afneitun. Eplið kemur við sögu, rétt eins og í byrjun, og bendir til syndafallsins en í þetta sinn er eplið erfðabreytt. Lokaljóðin tengjast formálanum á þann hátt að fókusinn er aftur víkkaður út og stóra samhengið ber á góma. Í lokaljóðinu eru það aðgerðaleysi okkar og doði sem rýrir lífsgæði komandi kynslóða.

Önnur persóna fleirtala er allsráðandi í ljóðunum: við erum samsek, við höfum farið og gert hluti. Þetta skapar ákveðin hughrif og dregur úr predikunartóninum því ljóðmælandi er hluti af dæminu. Hins vegar er ekki hjá því komist að predikunartónninn hljómi en honum er ekki ofaukið því hann er dempaður með þessu sjónarhorni. Óþol og óþreyja ljóðmælanda eru augljós. Fjallað er um loftslagsmál, kvenfrelsi, kúgun, stríð og frið. Í mörgum ljóðanna er íronísk afstaða og þá sérstaklega í lokaljóðunum þar sem tíðarandinn, stjórnmálamenn og fleiri fá verulega á baukinn.

Orðasambandið á milli er miðlægt í mörgum ljóðum bókarinnar. Það er notað til að sýna fjarlægð í tíma og rúmi og benda á bilið á milli tveggja póla. Þegar fyrri ljóðabækur Lindu eru skoðaðar kemur þetta fram víða. Til gamans má geta að bæði þessi bók og hennar fyrsta ljóðabók, Bláþráður (1990), byrja á orðunum á milli. Í þeirri fyrstu er það ljóðið Hlið við hlið sem hefst svona: Á milli okkar / svört nóttin / undir hvítri sænginni á meðan í Frelsi er það á milli / himins og jarðar / er allt. Það er óhætt að fullyrða að á milli eða millibilið sjálft sé eitt af meginstefunum í ljóðum Lindu.

Er þá engin von? Engin ljóstýra framundan? Vissulega er vonin ekki til umfjöllunar í þessari bók og kannski þurfum við fyrst að vakna af doðanum áður en von og bjartsýni ná að komast að. Í ljóðunum er reynt að vekja okkur, draga úr doðanum, velta upp steinum og lýsa upp skúmaskotin. Á slíkri leið er aragrúi af pyttum og klisjum sem ljóðmælandi nær að halda sig frá. Stærsta áskorunin er án efa hinn alræmdi predikunartónn sem getur svo auðveldlega pirrað lesandann og sett allt í baklás, reist ósýnilegan vegg þar á milli. Á lúmskan hátt nær ljóðmælandi að komast undan þeim hrammi, með því að setja kunnugleg minni og orð í nýtt samhengi með fersku myndmáli. Hinir ólíku kaflar vinna vel saman og kafli númer tvö eykur styrk bókarinnar til muna, afmarkar rýmið við ákveðinn punkt á jörðinni, alþekktan suðupunkt. Sá kafli setur frelsið í sögulegt samhengi en saga hins kristna frelsara er samofin hugmyndasögu Vesturlanda. Það er því ákveðin þéttni í bókinni þrátt fyrir að farið sé um víðan völl. Það hefði mátt sýna þó ekki væri nema örlitla vonarglætu en kannski er það efni í aðra bók. Svo má endalaust velta því fyrir sér af hverju bókin heiti ekki Frelsið heldur Frelsi og hvaða blæbrigðamunur felst í því? Hvað sem því líður þá eru ljóðin slípuð og fínstillt án þess að vera stíf og titillinn er gott dæmi um það.

Það er ekkert nýtt að gagnrýna harkalega ríkjandi hugarfar með skáldskap, hvort sem er í leikritum, skáldsögum eða ljóðum. Það ekki heldur nýtt að höfundar nýti satíruna eða skopið til að búa gagnrýni sína ferskan búning og þannig brýna enn beittara sverð sem smýgur lengra. Bókin og efni hennar sver sig í ætt við aðrar bækur sem benda á óréttlæti, hugsanaskekkju og kúgun. Sérstaða hennar er fólgin í frumleika og víðu sjónarhorni ásamt tjáningarmáta og áhrifum sem aðeins ljóðið getur miðlað. Bókin er mikilvæg varða á þeirri troðnu góðærisslóð sem við Íslendingar fetum um þessar mundir. Sárið sem hvert góðæri skilur eftir sig verður sífellt stærra og drifkrafturinn er sú hugmyndafræði frelsis, græðgi og vanvirðingar sem ljóðin benda á og gagnrýna. Þegar eitt af okkar helstu skáldum skrifar bók sem þessa og tekur sér níu ár til þess þurfum við að hinkra við og leggja við hlustir. Bókin hefði átt mjög brýnt erindi árið 2007 en á ekki síður erindi í dag, því miður.
[/x_text]

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[x_text][fblike][/x_text]

Deila