Hermaðurinn verður aldrei glaður…

[container]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar



Leikhópurinn Aldrei óstelandi hefur vakið eftirtekt fyrir uppfærslur sínar á klassískum íslenskum leikverkum eins og Fjalla-Eyvindi eftir Jóhann Sigurjónsson og  Lúkasi eftir Guðmund Steinsson. Nú setur leikhópurinn upp nýtt verk,  Ofsa,  byggt á samnefndri skáldsögu Einars Kárasonar frá 2010. Það verk er aftur er byggt á annarri bók, Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar, frá síðari hluta 13. aldar. Þar er sagt frá atburðum Sturlungaaldar, sem spannaði raunar innan við 50 ár (1220-1264). Svikin, morðin, átökin og ofbeldið sem einkenndu þetta tímabil Íslandssögunnar gætu vel orðið efni í sjónvarpsþáttaröð, mótleik Íslendinga við bresku  þáttunum um Borgia-ættina ítölsku.  Íslendingar misstu sjálfstæði sitt við undirritun Gamla sáttmála, árið 1264, og það voru meðal annars afleiðingar borgarastríðs Sturlungaaldarinnar.

Ofsi Einars Kárasonar

Skáldsaga Einars Kárasonar er túlkun hans á aðdraganda Flugumýrarbrennu 1253. Einar segir frá því að höfðinginn Gissur Þorvaldsson kemur til Íslands og vill stilla til friðar, of margir góðir drengir hafa fallið og hann vill sættast við Sturlunga með friðarsamningum, innsigluðum með sögulegri giftingu á Flugumýri í Skagafirði. Þar munu sonur hans, Hallur 18 ára og Ingibjörg, dóttir Sturlu Þórðarsonar, 13 ára giftast og tengja svo ættirnar.  Í friðarsamningunum hefur Gissuri hins vegar láðst að taka tillit til hefnigjarnra bænda sem telja sig ekki fá nóg útúr uppgjörinu og yfirvofandi friði. Einn þeirra er Eyjólfur Ofsi Þorvaldsson sem býr á stórbýlinu Geldingaholti í Skagafirði, giftur Þuríði, dóttur Sturlu Sighvatssonar sem var drepinn í Örlygsstaðabardaga. Saga Einars Kárasonar er vel fléttuð, mannmörg og margradda. Þar er prýðileg greining á þeirri herfilegu blöndu af siðleysi, græðgi og hégómagirnd sem liggur til grundvallar því ódæði sem framið var með Flugumýrarbrennu. Þetta er ekkert smá söguefni og hvernig í ósköpunum á fjögurra manna leikarahópur að endurskapa þessa dramatík?

Ofsi Mörtu Nordal

Leikgerðina gera Marta Nordal, leikstjóri hópsins Aldrei óstelandi, leikhópurinn og Jón Atli Jónasson. Þau taka túlkun Einars (á túlkun Sturlu) og vinna úr henni þær grunnhugmyndir sem þarf til að segja sögu, búa til persónur og tilfinningar sem hitta áhorfendur í hjartastað.

Leikmynd Stígs Steinþórssonar sýnir gamalt útvarpsleikhússtúdíó með hljóðnemum og hljóðfærum og munum sem hægt er að nota til að framleiða  hurðaskelli, skóhljóð, borðhald og sitthvað fleira. Þarna var líka ferðaútvarp í útvarpinu- og við heyrðum Einar Kárason lesa Sturlungu sem framhaldssögu og  þarna voru hljóðnemar fyrir útvarpsviðtöl, allt undirstrikaði að að hér var búinn til leikur um fortíðina sem við getum aldrei nálgast nema í ímyndun okkar.

Leikararnir Edda Björg Eyjólfsdóttir, Friðrik Friðriksson, Oddur Júlíusson og Stefán Hallur Stefánsson voru öll mjög góð. Þau voru í samkvæmisklæðnaði, smóking og síðkjól, enda yfirstéttarfólk sem þarna tókst á. Edda Björg lék Þuríði Sturludóttur og sýndi hana sem reiða og bitra hefðarkonu sem finnst hún vondslega blekkt af eiginmanni sínum sem hún er löngu farin að hata. Nú er röðin komin að henni og hefndum vegna vígs föður hennar. Þráteflið á milli þeirra hjóna er oftast sýnt á stílfærðan hátt. Þuríður minnir svolítið á  Lafði Macbeth og áhorfandi veit að hefnd hennar mun snúast herfilega gegn henni því hinn hataði Gissur lifir brennuna af en hennar fólk ferst. Friðrik Friðriksson túlkaði Gissur Þorvaldsson sem mann með elskulegu og einlægu yfirbragði, silkitungu sem tekur mikla áhættu og leggur allt (les. alla sína nánustu) undir og tapar. Enginn skilur hann. Hann gæti verið tragísk persóna eða kaldrifjað kvikindi, við vitum það ekki. Dróttkvæða vísan sem hann flytur í lok verksins er svo hljóðandi:

Enn mank bǫl þats brunnu
bauga Hlín ok mínir,
– skaði kennir mér minni
minn –, þrír synir inni;
glaðr munat Gǫndlar rǫðla
gnýskerðandi verða,
– brjótr lifir sjá við sútir
sverðs –, nema hefndir verði.

Þetta er væntanlega óskiljanlegt öllum venjulegum áhorfendum Ofsa og lesendum Hugrásar, en þýðir að ljóðmælandinn mun aldrei gleyma því að kona hans og þrír synir voru brenndir inni  og síðustu línurnar segja: Hermaðurinn (Göndlar röðla gnýskerðandi) mun aldrei verða glaður … nema hann nái hefndum.“ Friður er sem sagt ekki í boði lengur.

Oddur Júlíusson leikur Hrafn Oddsson, höfðingja úr liði Þórðar Kakala. Gissur verður að hafa hann með í friðarferlinu en Hrafn er jafn lítill karl og Eyjólfur. Hann er hins vegar ekki eins snarklikkaður og hann er meðvitaður um svik sín meðan hann fremur þau og kallar sjálfan sig Júdas. Tvíræðni persónunnar varð skýr og andstyggileg hjá Oddi.

Síðastur en ekki sístur er svo Ofsinn sjálfur, Stefán Hallur Stefánsson. Stefán Hallur hefur leikið mörg eftirminnileg og ólík hlutverk upp á síðkastið og mjög gaman að fylgjast með hvernig hann vex stöðugt sem leikari. Hlutverkið sem hann fær í þessari leikgerð sveiflast frá sjálfshatri til sjálfshafningar eða oflætis í stílfærðum geðhvörfum og það hefði mögulega verið betra að sýna meira af siðblindu persónunnar og slægð því að hvort tveggja verður hann að hafa haft til að fá Þuríði fyrir konu og geta fengið eyfirska bændur til að fylgja sér til þeirra níðingsverka sem unnin voru á Flugumýri.

Önnur táknkerfi

Hljóðheimur verksins var eiginlega eins og önnur sviðsmynd. Merkilega ólík því „táknkerfi“ kvikmyndatónlistarinnar sem við erum vön. Miðaldatextarnir og tónlistin sem fereykið flutti af listfengi skapaði framandlegt  og stundum ógnandi andrúmsloft. Tvisvar var hljóðið látið keppa við orðið eins og í friðaryfirlýsingu Gissurar sem keppti við hækkandi ásláttar- og gítarleik í vaxandi hávaða sem varð mjög óþægilegur.

Útvarpsleikhús notar hljóðið til að virkja ímyndunarafl áheyranda og á sama hátt notar Marta og hennar fólk  hljóðmyndina til að kalla fram einhvers konar forneskju sem varð mjög áhrifamikil. Eggert Pálsson, slagverksleikari, útsetur og stjórnar tónlistarflutningnum en Kristján Einarsson hannaði hljóðmyndina.

Lýsing Lárusar Björnssonar var jafn vel hugsuð og allt annað í þessari sýningu, ofanljósin á fyrstu geðveikissenu Stefáns Halls létu hann líta út fyrir að vera með tómar augntóttir og stundum var ljósinu ekki beint þangað sem maður átti von á því, eins og í viðtölum við persónurnar.

Þetta er besta sýningin hingað til á leikárinu, að mínu mati,  en margt áhugavert er framundan sem hægt er að hlakka til.

Deila

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *