„Lífið í laugunum sótti á mig“

[container]  Spjallað við Kristínu Steinsdóttur.

vonarlandid„Mér finnst persónurnar skipta meginmáli, að þær séu sannverðugar. Á þessum krimmatímum, þá finnst mér persónusköpunin lenda í aftursætinu. Mér finnst mikilvægt að persónur séu ekki bara klisjur, heldur að maður hafi á tilfinningunni að þær andi, að þær séu með heitar hendur eða kaldar.“

Þetta segir Kristín Steinsdóttir rithöfundur um nýjustu skáldsögu sína, Vonarlandið sem nýlega er komin út hjá JPV. Í henni segir frá nokkrum konum í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar, sem framfleyta sér með því að taka að sér ýmis störf sem nú eru gleymd, eins og vatnsburð og þvotta í laugunum í Laugardalnum.

Kvennaheimur
Bókin fjallar með öðrum orðum um reynsluheim fátækra kvenna í gömlu Reykjavík, en Kristín segir að þær ekki eiga sér marga málsvara í bókmenntum. „Það er til mikið af heimildum frá þessum tíma og mikið er skrifað um karlana, sérstaklega menntamennina, en þessi reynsluheimur kvenna er ekki til staðar í skáldskapnum. Ég er femínisti og mér finnst mikilvægt að þessar raddir fái að heyrast. Það gerist alltof oft að konur, sérstaklega frá þessum tíma, sé hafðar, ekki einu sinni í baksætinu, heldur skottinu!“

Kristín haslaði sér upphaflega völl sem höfundur leikrita og barnabóka en síðan hún byrjaði að skrifa fyrir fullorðna hafa skáldsögur hennar oftar en ekki haft konur í aðalhlutverkum. Hún segist þó ekki skrifa sérstaklega fyrir konur. „Ég hugsa aldrei um lesendur mína þegar ég skrifa, kannski er ég bara aðallega að skrifa fyrir sjálfa mig. Ég skrifa af þörf fyrir að koma frá mér, eins og í þessu tilfelli, sögu þvottakvennanna.“ Þrátt fyrir það er Kristín fegin þegar bækur hennar hljóta góðar viðtökur. „Konur, karlar, það skiptir ekki máli, ég vil bara lesendur.“

Konurnar í Vonarlandinu eiga erfitt uppdráttar, bæði vegna kyns síns, en líka vegna bágrar stöðu sinnar í samfélaginu. Konurnar í bókunum þar á undan, vinnukonan Bjarna-Dísa og Ljósa, sem barðist við geðsjúkdóm á tímum mikilla fordóma, áttu ekki síður undir högg að sækja í samfélaginu. Þegar hún er spurð út í áhuga sinn á þeim sem standa höllum fæti segir hún hann hafi fylgt sér lengi. Í barnabókum sínum einbeitti hún sér oft að þeim sem voru á jaðrinum . „ Ég hef alltaf verið dálítið upptekin af stéttabaráttunni. Ég veit ekki af hverju þetta höfðar svona til mín. Mér finnst bara að þessu fólki, þessum konum, hafi ekki verið gerð nægilega góð skil og mér finnst það vera verðugt verkefni að gera það. Ég geri það af því að mig langar til þess, ég þarf ekki að pína mig til þess. Mig hefur aldrei langað til þess að skrifa um yfirstéttarkonur.“


Reykjavík fortíðarinnar

Vonarlandið er skáldsaga, en Kristín byggir ýmislegt í sögunni á því sem hún hefur kynnt sér um fyrri tíma í Reykjavík. „Ég get alveg samið og diktað upp, en það er mikið í þessari bók sem ég hef fundið. Þá tek ég það og bý því nýjan búning.“ Dæmi um þetta er dómsmál sem finna má í bókinni, en atburðir þar eru meira og minna teknir upp úr dómabókum í Reykjavík. „Það er mikil heimildavinna sem liggur þarna að baki. Mér finnst gaman að heimildavinnu, mér finnst hún skemmtileg. Ég las allt um gömlu Reykjavík sem ég komst yfir, hvernig hlutirnir voru, hvað fólkið borðaði og hvernig þessar blessuðu konur unnu sína vinnu, svo ég gæti dregið upp trúverðuga mynd.“

Heimildavinnan gerir það að verkum að Reykjavík 19. aldarinnar sprettur ljóslifandi upp á síðunum skáldsögunnar. „Það var til dæmis virkilega þannig að næturvörðurinn gekk um og hrópaði tímann á klukkutíma fresti því það var engin klukka. Það sem er síðan svo skemmtilegt við vatnspóstana er að þeir söfnuðust saman og meðan þeir biðu þar voru sagðar sögur og fréttir. Það var mikið spjallað á póstunum, þar var fjörið. Það eru til heimildir um þá, bæði um einstaka vatnspósta og líf þeirra.“

Kristín leggur áherslu á að líf þessara fátæku kvenna var ekki auðvelt og það útheimti mikla vinnu að lifa af. „Vatnspóstarnir báru yfirleitt 30 lítra af vatni á öxlunum og drösluðust með þetta í húsin. Svo voru þeir náttúrulega alltaf rennandi blautir. Það var sama sagan í laugunum; á einhverjum stað fann ég skráð að konurnar voru blautar að lágmarki upp að brjósti. Það er aðdáunarvert að fólk skuli yfirhöfuð hafa lifað þetta af en líka að það hafi gert sér hlutina eins þolanlega og það gat. Þetta voru náttúrulega ekki bara eintóm leiðindi, menn voru líka að skemmta sér. Við gleymum því nefnilega alltaf. Okkur finnst þetta hljóti allt að hafa verið hræðilegt, en það var það svo sannarlega ekki. Þetta var náttúrulega beinharður raunveruleikinn, þú varðst að vinna fyrir þér, og ef þú komst ekki í vist í fínu húsi, eins og var þeirra draumur, þá þurftir þú bara að fara í það sem er í boði. Og það voru þessi störf. Mér fannst dálítið gaman að varpa ljósi á þau.“

Allt hefur sinn tíma
Aðspurð um þá afdrifaríku ákvörðun að fara að skrifa fyrir fullorðna frekar en börn segir Kristín: „ Ég held að allt hafi sinn tíma. Ég byrjaði sem leikskáld ásamt Iðunni systur minni og við skrifuðum leikrit í nokkuð mörg ár. Meðfram því fer ég að skrifa barnabækurnar og þá leggjast leikskrifin algjörlega af. Ég segi alltaf að barnabækurnar hafi komið til mín eins og framlenging af henni mömmu.  Þegar ég fer að skrifa þá kemur mamma til mín með sögurnar, þær koma bara úr brjóstinu og það kemst ekkert annað að en að skrifa fyrir krakka.“ Eftir að hafa skrifað fyrir börn lengi vel og fann Kristín hins vegar að hún þurfti á breytingu að halda. „Ég var farin að keyra alltaf í sama farinu. Kringum aldamótin flyt ég til Reykjavíkur, hafði verið á Akranesi í kringum 20 ár þar á undan, og þá small bara eitthvað, ég varð svo glöð að ég hljóp um göturnar eins og kálfarnir á vorin. Það má ekki misskilja mig, ég var ekki að koma úr neinu fangelsi, það var bara svo gott að skipta um gír. Þá sest ég niður og skrifa Engil í Vesturbænum. Það er barnabók sem er samt ekkert síður fyrir fullorðna. Þegar ég var búin að skrifa hana, þá var ég komin hálfa leið yfir í fullorðinsbækurnar og þá urðu þessi skil. Það getur svo sem verið að ég eigi aftur eftir að skrifa fyrir börn, ég veit það ekki, en allar hugmyndir sem ég fæ í dag eru fullorðins.“

Skrifar til að koma einhverju frá sér
Kristín segir að hugmyndirnar að bókum sínum séu ekki úr lausu lofti gripnar. „Það er yfirleitt eitthvað sem ég er búin að hugsa um lengi. Það er aldrei þannig að ég grípi eitthvað, hugsi að nú skrifi ég bók um þetta og setjist svo niður. Ég skrifa hjá mér hugmyndir og punkta niður ýmislegt meðan ég les og svo byrja ég að keyra bókina inn í þessar hugmyndir allar.“ Innblásturinn leynist þó víða. „Ég er alltaf með að lágmarki tvær bækur í tölvunni í einu. Vonarlandið atti til dæmis ekki að koma út fyrr en seinna, en það sótti svo á mig, lífið í laugunum, að ég hugsaði bara með mér: „Hættu nú að berjast á móti þessu, kerling, og leyfðu þessari bók að komast að, hún vill komast að.“ Maður skrifar um það sem maður er mótiveraður fyrir hverju sinni og ég held að það sé besta vinnan sem kemur út úr því , því það er ekki gott að skrifa um eitthvað sem manni finnst maður ætti að vera að skrifa um af skyldurækni, það hefur mér aldrei gefist vel.

Kristín hefur margar sögur að segja, en er þó hörð á því að sögurnar og persónurnar séu það sem skiptir máli í bókunum hennar. „Ef þú vilt virkilega hitta mig undir beltisstað, þá segirðu að ég sé að predika í bókunum mínum. Mér leiðist svo predikunartónn, hefur alltaf leiðst hann. Auðvitað eru allir höfundar að reyna að varpa ljósi á eitthvað, þeir er að reyna að koma einhverju til skila, en stóra spurningin er hvernig þeir koma því til skila. Ég ætla að vona það að þó ég sé að skrifa um efni sem brennur á mér, eins og þessar konur, þeirra líf og strit, þá komi það ekki út eins og predikun því þá hefur mér ekki tekist vel upp. “

Gréta Sigríður Einarsdóttir, meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *