[container]
Á barnaleikhússviði Þjóðleikhússins, Kúlunni, er nú verið að sýna leikritið Fiskabúrið fyrir yngstu börnin. Það er leikhópurinn Skýjasmiðjan sem setur verkið á svið en hópinn skipa Aldís Davíðsdóttir, Auður Ingólfsdóttir og Stefán Benedikt Vilhelmsson. Sýningin er án texta en litlir áhorfendur eru leiddir inn í galdur leikhússins með hjálp nokkurra leiðsögumanna: grímudrengs, kokks og furðuveranna Pikk, Pukk og Pipp.Hugmyndaauðgi
Það er alveg tilgangslaust að reyna að endursegja söguþráð Fiskabúrsins eins og það er ekkert unnið með því að endursegja ljóð. Ljóð eru ljóð meðal annars af því að þau eru óendursegjanleg! Eins er Fiskabúrið ævintýri fyrir litlu börnin sem „sýnir en segir ekki.“
Eins og í frægum ævintýrum lifna leikföngin við og bregða á leik þegar grímudrengurinn fer að sofa. Leikmyndin sýnir meðal annars eldhús þar sem súrrealískir hlutir koma uppúr pottunum. Þetta eldhús er dæmigert fyrir þá fínu tengingu sem er í sýningunni við veruleika venjulegra barna en þau hafa alltaf leikið sér að því „að búa til mat“, frá drullumalli í sandkassa að kræsingum í fínum leikfangaeldhúsum. Þau sjá alls konar rétti koma uppúr pottum foreldranna og eitt af því sem kemur uppúr töfrapottunum í sýningunni eru söguhetjur okkar Pikk, Pukk og Pipp sem upphaflega eru dúkkulísur sem hafa lent í töfrapottinum.
Lagað að börnum og fyrir þau
Furðuverurnar leika sér og leika hver á aðra, takast á og ná samstöðu við lausn ýmissa mála – meðal annars glímu við alvarlega snuddufíkn, átök við köttinn sem langar í fiskana í búrinu o.s.frv. Sýningin skiptist í marga, stutta þætti, flesta ansi fyndna eins og glöggt mátti sjá á gleði og hlátrum barnanna á laugardaginn og þeir fullorðnu skemmtu sér greinilega ekkert síður.
Sviðsmynd, leikgervi og ekki minnst hljóðmynd skipta miklu máli og allt er þetta vel unnið hjá leikhópnum, litríkt og hugmyndaríkt. Það var alltaf eitthvað að gerast og sýningin hélt athygli litlu barnanna allan tímann. Maður heyrði þau spyrja og stundum útskýrðu þau fyrir næsta barni hvað væri að gerast og þar gætti nú margra grasa eins og gengur í barnaleikhúsinu. Dásamlegust voru þó viðbrögð ca. fjögurra ára áhorfanda sem hrópaði hátt og snjallt: BRAVÓ í lokin.
Sýningar verða aðeins um þessa helgi, laugardag og sunnudag, svo að foreldrar sem vilja byrja að kynna litlu börnin sín fyrir góðu leikhúsi ættu kannski að drífa sig.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply