Eins og að dansa í keðjum: Lesið úr ljóðaþýðingum


[container] „Ég hef tekið eftir því að margir virðast iðka þetta í laumi,“ segir Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands en nemendur hans í ljóðaþýðingum standa fyrir upplestri í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands við Dyngjuveg 8 síðdegis í dag, 25. nóvember .

„Ég átti ekki von á því að fá svona marga nemendur í námskeið á meistarastigi, sex talsins, heldur bjóst við því að hitta fyrir tvo til þrjá álíka sérvitringa og mig,” segir Gauti ennfremur. „Reynslan sýnir reyndar að það eru fjölmargir sem stunda þetta sér til dundurs. Ég stóð til dæmis fyrir ljóðaþýðingasamkeppni í samstarfi við Lesbók Morgunblaðsins fyrir 13‒14 árum síðan. Ég fékk virðulegt fólk í nefnd til að velja vinningsljóðið og gerði ráð fyrir því að þetta yrði svona klukkutíma fundur, að fara yfir þau fimm ljóð sem bærust. Þau urðu svo 250 talsins. Fólk hafði hreinlega þýtt heilu ljóðabálkana, og ég man sérstaklega eftir einum sem þýddi Bítlatextana þannig að hægt var að syngja þá við lögin.“

Það er þó ekki skrýtið að margir heillist af ljóðaþýðingum, að sögn Gauta. „Ljóðaþýðingar eru í rauninni dýpsti lestur ljóðs. Að þýða ljóð og endurskapa það á eigin tungumáli er að fara eins djúpt í það og mögulegt er,“ segir hann. „Roman Jakobson sagði: „Poetry by definition is untranslatable“. Staðreyndin er nú samt sú að í árþúsundir hefur fólk stundað þetta af miklum krafti, sama hvað fræðimenn segja. Heine sagði að ljóðaþýðingar væru eins og að dansa í keðjum en það megi ekki heyrast í keðjunum. Þetta er hæsti þröskuldur sem hægt er að fara yfir í þýðingum og sá hamar sem athyglisverðast er að klífa. Ljóðaþýðingar reyna á form, hugmyndaauðgi í beitingu tungumálsins og myndhverfingar sem þurfa að komast til skila. Það eru gerðar kröfur í hverju orði – sem gerir þetta að skemmtilegu en erfiðu viðfangsefni.“

Upplesarar í Gunnarshúsi í dag eru sjö talsins og úr ýmsum áttum – sumir byrjendur en aðrir reyndari, bæði sem þýðendur og ljóðskáld. Gauti sjálfur fellur í hóp þeirra reynslumeiri, en ljóðskáldið Magnús Sigurðsson sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2008 fyrir ljóðabókina Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu er einnig í hópi upplesara. Lesin verða þýðingar á ljóðum eftir Alfred Tennyson, Emily Dickinson, Robert Browning, Vladimir Nabokov og fleiri höfunda. „Þetta eru bæði módernísk skáld og hefðbundin skáld, en allt ljóð sem hafa ekki áður sést á íslensku,“ segir Gauti. Dagskráin hefst klukkan 17.30 í Gunnarshúsi og er opin öllum.

Sunna Dís Másdóttir, meistaranemi í ritlist.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *