[container]
Kona skýtur ítrekað með byssu í kjól sem fyrrverandi elskhugi hennar gaf henni og hangir sundurtættur á fiskitrönum í íslensku roki eins og harðfiskur, þurr og visinn. Þannig endar fyrsti kaflinn af fjórum í bíómyndinni Skortinum (The Lack) þar sem sex konur sýna skortinn frá ólíkum hliðum. Sambandsleysi, einvera, fjarvera, einsemd og sorg er meðal þess sem kemur fram í myndinni.Skorturinn er fyrsta myndin í fullri lengd eftir leikstjóratvíeikið Niccoló Massazza og Jacopo Bedogni sem kalla sig Masbedo. Ítalska skartgripahúsið Bulgari framleiddi myndina en Beatrice Bulgari og Mitra Divshali skrifuðu handritið. Myndin var heimsfrumsýnd á RIFF kvikmyndahátíðinni 26. september. Hún var á meðal þeirra tólf mynda sem kepptu um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann, en þau hreppti önnur ítölsk mynd sem nefnist Ég get hætt þegar ég vil. Masbedo leikstjórarnir hafa þegar getið sér gott orð fyrir vídeólist sína þar sem þeir leika sér með formið og leggja áherslu á sjónræna og hljóðræna þætti. Þess má geta að fyrir nokkru tóku þeir ástfóstri við Ísland og hafa tekið upp myndefni úr íslenskri náttúru. Skorturinn var einmitt kvikmynduð að hluta hér á landi.
Í upphafs- og lokasenu myndarinnar sitja sex konur saman í hvítu rými þar sem eru svartir stólar og speglar. Sögunni vindur fram í fjórum aðgreindum köflum sem tengjast lítið fyrir utan það að fjalla um konur á ferð í ólíku landslagi. Konan í fyrstu sögunni bíður í angist eftir símtali frá sínum heittelskaða. Eftir því sem tíminn líður eykst angistin yfir þögn hans og fjarveru, og nær hápunkti þegar hún skýtur kjólinn á fiskitrönunum. Leikkonan Lea Mornar sýnir með góðum og trúverðugum leik sársauka og örvæntingu skortsins.
Í annarri sögunni stígur kona út í flutningaskip og fer þaðan á litlum bát út í eyðieyju. Þar burðast hún upp brattann með ljóskastara og nær að lokum að koma honum á sinn stað þar sem hann lýsir inn í myrkrið. Myndmálið er áhrifaríkt, sérstaklega í ljós þess að öll senan er orðlaus og í staðinn fær náttúran að hljóma.
Í þriðju sögunni eru tvær konur sem gætu verið mæðgur. Önnur heldur af stað og fer í gróðurhús sem flýtur á vatni. Hin setur eggjaskurn á grein og kemur greininni til konunnar í gróðurhúsinu. Þessi kafli er veikasti hluti myndarinnar. Myndirnar eru fallegar, búningar glæsilegir og gróðurhúsið sem er fullt af gömlum húsmunum getur táknað skort á mat, skort á næringu og súrefni. En það hvarflar að manni í þessum hluta að myndin sé að verða fallegt hulstur utan um rýra sál, að minnsta kosti kemst sú hugsun um skort sem liggur að baki þessum kafla ekki vel til skila.
Fjórði og síðasti hlutinn er draumkenndur og fer á milli þriggja myndaskeiða. Sálfræðingur talar til skjólstæðings og síðan er klippt yfir á aðra konu sem rennur nakin niður niðurfall með húsgögnum og öðrum hlutum og nær ekki fótfestu. Inni á milli sést hamingjusamt barn hoppa en að lokum brotnar spegill yfir það. Efnið býður upp á margskonar túlkunarmöguleika en þetta rennir stoðum undir að hér sér verið að lýsa skorti á sjálfsmynd og fótfestu. Í blálokin eru þær aftur allar sex staddar í sama rými, saman en samt einangraðar og lokaðar í eigin heimi.
Það er margt athyglisvert og hrífandi í byggingu myndarinnar. Sjónarhornið er oft óvenjulegt þar sem andlit, eyra eða háls eru til dæmis í nærmynd. Stundum er myndin úr fókus og reglulega koma rammar sem eru eins og undurfögur myndverk. Klippingar eru oft óvæntar og hljóðheimurinn er kafli út af fyrir sig. Drungaleg hljóðin magna upp áhrifin, ýta undir tilfinningar og túlkun á hugarástandi persónanna. Leikkonurnar standa sig allar með prýði í túlkun sinni á angist og harmi skortsins.
Skorturinn bæði áhugaverð og falleg mynd. Innri óreiða bæði náttúru og persóna er fléttað saman í eina heild. Það er helst í þriðja kaflanum sem sjónrænt skraut virðist kæfa merkinguna en aðrir hlutar myndarinnar birta skortinn mun skýrar. Ef áhorfendur vilja upplifa sjónræna og hljóðræna fegurð þá uppfyllir Skorturinn þær kröfur. Kvikmyndatakan er góð, klippingin einstök og myndin í heild er veisla fyrir skynfærin.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply