„Lestur er leikur, ekki kvöð“

thodsaga1[container] „Það sem mér finnst vera svo spennandi við þetta ákveðna form er að það skapar grundvöll fyrir lesandann til að gera hluti sem hann myndi aldrei fá að upplifa undir öðrum kringumstæðum.“ Þetta segir Ævar Þór Benediktsson hafa verið eina af megin ástæðunum að baki sköpunar nýjustu bókar hans Þín eigin þjóðsaga. Eins og titillinn gefur til kynna er verkið byggt á minnum úr íslenska þjóðsagnarheiminum og verður sjálfur Jón Árnason meðal annars hluti af söguframvindunni. Bókin hefur þá sérstöðu að lesandinn ákveður sjálfur hvernig bókinni fleytir áfram og í hvaða ævintýrum hann lendir í. Meira en fimmtíu leiðir eru til þess að velja úr, sem hafa allar áhrif á það hver sögulokin verða.

„Þegar ég var lítill gutti í Borgarnesi þá voru ein eða tvær bækur á bókasafninu með þessa ákveðnu byggingu sem gerðu lesandanum kleift að ákveða hvað myndi gerast og hvað ekki. Það var síðan fyrir um þremur árum sem að ég var að vappa um Nexus þegar ég rakst á bókina Can you survive the zombie apocalypse?. Þetta var algjör doðrantur miðað við bækurnar sem ég hafði séð þegar ég var yngri. Þessi ákveðna bók tók þetta á allt annað plan því hún náði að stigmagna spennuna með pressunni sem fylgdi því að taka mögulega ranga ákvörðun. Það var þá sem ég fékk þessa hugmynd að gera bók sem miðuð er að börnum og býður upp á þennan möguleika, að lesandinn sé virkur þáttakandi í sinni eigin sögu.“

Ævari er mjög umhugað um að vekja áhuga barna á bókalestri. Nýlega hóf hann verkefnið „Lestrarátak Ævars vísindamanns“, þar sem krakkar á aldrinum 6-13 ára hafa möguleika á því að vera gerðir að persónum í næstu bók hans ef þeir eru duglegir að lesa og taka þátt í framtakinu.

thodsaga2„Ég hef sjálfur alltaf verið mjög mikill bókaormur og höfðu mörg verk sem ég las á unga aldri mikil áhrif á það hvernig ég leit á bókmenntir seinna meir. Þetta er svo áhugaverður aldur, heilinn er á endalausu maraþoni og getur því verið erfitt að skrifa eitthvað sem situr eftir. Þess vegna er mikilvægt að vekja áhuga samstundis og held ég að þetta sé mjög góð leið til þess, þar sem krakkarnir ná bæði að nota ímyndunarafl sitt sem og að þjálfa ákvarðanatöku sína út frá þeim valmöguleikum sem í boði eru.“

Ævar segir að sá vegur sem að lesandinn ákveði að feta í bókinni sé mjög siðferðislega tvinnaður; ef þú ákveður að svindla á einhverjum eða svíkja þá getur það valdið vandkvæðum seinna meir. Mögulegt er samt sem áður að komast í gegnum bókina án þess að verða fyrir skyndilegum bana. Þessi siðferðislega réttsýna leið er hins vegar ekki mjög spennandi eða ævintýragjörn til lengdar og er það óvissan um hið óþekkta sem að honum finnst hvað áhugaverðust.

„Það hefur oft valdið miklu svekkelsi hjá mér þegar ákveðin persóna tekur það sem mér finnst vera röng ákvörðun. Sú frásagnartækni sem ég notast við í bókinni er því hin fullkomna lausn, því ábyrgðin er öll hjá lesandanum. Það er hann sem þarf að lesa í þær aðstæður sem hann stendur frammi fyrir hverju sinni, sem og að glíma við afleiðingar þess, hvort það sé að svíkja Sæmund fróða eða að hjálpa jólasveinunum að ræna og rupla. Þú hefur hins vegar ekki val um það hvort þú verðir étinn af Grýlu, það er bara tímaspursmál.“

Þrátt fyrir að þær persónur sem verða á vegi lesandans séu á augnablikum mjög ógnvekjandi er spennan ógninni yfirsterkari.

„Það getur verið mjög gaman að vera hræddur, þá sérstaklega þegar maður nær að blanda gríninu og hinu fjarstæðukennda við. Bókin er því mjög mikill rússíbani, maður getur aldrei tekið því rólega. Lesandinn hefur hins vegar alltaf getuna til að snúa við, og þegar hann leggur af stað aftur er ævintýrið alltaf á einhvern hátt öðruvísi.“

Alexandra Eyfjörð, meistaranemi í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *