[container]
Undanfarin þrjú ár hafa vantrúarfélagar ítrekað kallað mig ýmist þjóf eða þjófsnaut og sakað mig um að hafa „stolin gögn‟ undir höndum sem ég noti gegn þeim. Síðast núna 19. og 20. desember 2013 hafa t.d. þeir Hjalti Rúnar Ómarsson, núverandi ritstjóri vefs Vantrúar, og Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður, haldið þessu fram í athugasemdum undir grein minni „Egill Helgason og akademísk fræðistörf‟ hér á Hugrás og frétt DVs um hana.Um er að ræða umræðuþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers‟ af innra spjallborði Vantrúar þar sem vantrúarfélagar skipulögðu sína margföldu og tilefnislausu kæruherferð gegn mér á u.þ.b. 600 síðum en henni lauk með fullum sigri mínum eftir að hafa staðið yfir í samfleytt 2 ár og 8 mánuði. Lekinn á umræðuþræðinum leiddi á sínum tíma í ljós margþætt brot þessara aðgerðarsinna gegn mér og Háskóla Íslands. Matthías Ásgeirsson fullyrðir að æskuvinur minn hafi stolið þessum „trúnaðargögnum‟ af spjallborði félagsins og komið þeim í mínar hendur. Þetta kemur fram í Facebook athugasemd Matthíasar hjá frétt DVs og einnig í athugasemd hans á Hugrás þar sem hann segir:
Umræðuþræðinum af innra spjallborði Vantrúar var ekki “lekið” til Bjarna Randvers. Æskuvinur Hans, Ingvar Valgeirsson, stal gögnum og kom til Bjarna Randvers. Með því að nota orðið “leki” reynir Bjarni Randver að *blekkja* lesendur og gefa í skyn að einhver sem hafði aðgang að þessu spjallborði hefði afritað umræður og komið til Bjarna.
Matthías vísar síðan í greinina „Ingvar Valgeirsson stal trúnaðargögnum‟ sem birtist um málið á vef Vantrúar 14. október 2012 þar sem vantrúarfélagar segja söguna af „þjófnaðinum‟. Sagan er tilbúningur frá upphafi til enda eins og sýnt verður fram á hér á eftir, en þá legg ég í fyrsta sinn fram frumgögnin í málinu sem sanna að Ingvari var veittur aðgangur að innra spjallinu. Frásögn Vantrúar, sem Matthías vísar í, er með þessum hætti:
Á haustmánuðum hafði félagsmaður samband við einstakling sem grunur léki á að ætti aðild að málinu. Viðkomandi játaði að hafa stolið trúnaðarsamtölum félagsmanna Vantrúar og komið til Bjarna Randvers. […] Síðla september 2010 sat þessi tiltekni meðlimur í Vantrú á heimili Ingvars. Þeir Ingvar ræddu mál sem meðal annars hafði verið fjallað um á Vantrú. Af því tilefni skráði viðkomandi sig inn á innri vef Vantrúar með sínu aðgangsorði í tölvu Ingvars og sýndi honum umræður félagsmanna um það tiltekna mál. Vert er að taka fram að þær umræður hafa ekkert með siðanefndarmálið að gera. Þarna var um heiðarleg mistök að ræða. Fyrir það fyrsta hefði viðkomandi ekki átt að sýna Ingvari nokkuð af innri vef Vantrúar því þar ræða félagsmenn saman í trúnaði. Vantrúarmaðurinn gerði í kjölfarið enn verri mistök er hann gleymdi að skrá sig út af spjallborðinu. […] Síðar um nóttina komst Ingvar að því að aðgangurinn að innri vef Vantrúar var enn opinn í tölvunni hans. Að sögn Ingvars blöskraði honum svo sum skrif vantrúarfélaga að hann taldi það „siðferðislega skyldu“ sína að afrita þessar umræður og koma þeim til Bjarna Randvers. Hann tók skjáskot (screenshot) af heillöngum umræðum af spjallborðinu. Þessi skjáskot telja í fleiri hundruðum. Ingvar vissi að hann var að stela trúnaðargögnum og það er erfitt að trúa öðru en að Bjarni viti vel að Ingvari hafi aldrei verið veittur aðgangur að spjallborðinu. […] Það sama gildir hér: Gjörðir Ingvars Valgeirssonar eru ekkert annað en þjófnaður þó félagsmaður í Vantrú hafi óvart gleymt að skrá sig útaf spjallborði. Ingvar Valgeirsson stal gögnum og Bjarni Randver nýtti þau. Sá sem stelur er þjófur. Sá sem tekur við og notar þýfi, meðvitaður um það að um þýfi sé að ræða, er þjófsnautur.
Áður en þessi frásögn var birt á vef Vantrúar höfðu vantrúarfélagar sakað mig um innbrot og þjófnað í fjölda greina víðsvegar um netheima og lagt fram lögreglukæru á hendur mér 27. maí 2011 þar sem ég var sakaður um innbrot og brot á fjarskiptalögum. Lögreglan felldi málið niður þá um sumarið en Vantrú kom því til leiðar að málið var tekið fyrir að nýju og var ég kallaður til yfirheyrslu snemma árs 2012. Svo fór að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað 26. júlí 2012 að vísa málinu frá enda hafði ekkert komið fram sem benti til sektar minnar.
DV birti í framhaldinu af grein Vantrúar tvær fréttir um hana, en þar segir að Ingvar Valgeirsson sé „sakaður um refsiverða háttsemi‟ og sé málinu því ekki lokið ef marka megi skrif Vantrúar. Undir fyrri fréttinni á vef DVs spunnust strax langar umræður, alls 181 athugasemd, þar sem vantrúarfélagar og stuðningsmenn þeirra beittu sér mjög gegn Ingvari, mér og þeim sem stutt höfðu mig í kæruherferðinni.
Hér er mikilvægt að árétta eftirfarandi: a) Umræddur vantrúarfélagi kom aldrei inn á heimili Ingvars. b) Vantrúarfélaginn skráði sig aldrei „inn á innri vef Vantrúar með sínu aðgangsorði í tölvu Ingvars‟ og hann gleymdi af þeim sökum augljóslega ekki heldur „að skrá sig út af spjallborðinu‟. Það er því uppspuni að Ingvar hafi síðar um nóttina komist „að því að aðgangurinn að innri vef Vantrúar [væri] enn opinn í tölvunni hans‟. c) Ingvar játaði því aldrei „að hafa stolið trúnaðarsamtölum félagsmanna Vantrúar‟ í samræðu við vantrúarfélagann því að þessi einstaklingur, Einar Kristinn Einarsson, ákvað að eigin frumkvæði að veita honum aðgang að innra spjallborði Vantrúar og hvatti hann mjög til þess að fara þar inn. Í því skyni sendi Einar Kristinn Ingvari lykilorð sitt í pósti á Facebook 18. september 2010 og hef ég lengi haft útprent af samræðum þeirra undir höndum. Þeir ræða þar ásakanir á hendur presti innan þjóðkirkjunnar sem sakaður hafði verið um kynferðisbrot gegn þremur unglingspiltum á níunda áratug liðinnar aldar og fjallað hafði verið um í fjölmiðlum en eins og Ingvar upplýsti sjálfur opinberlega löngu síðar, 10. janúar 2013, þá var hann einn þeirra. Einar Kristinn segist hafa sett pósta Ingvars um málið inn á innra spjallborð Vantrúar og bætir við:
Til að jafna það út skal ég gefa þér lykilorð mitt að lokaða spjallinu okkar. Þá getur þú lesið mín orð og allt uppi á borðum. Þú varst of seinn að segja að þetta ætti algjörlega að vera okkar í millum. Sem betur fer eru þetta fínir dúddar þarna í Vantrú og taka ekkert sem beðið er um út fyrir lokaða spjallið. Ég nafngreindi þig vitanlega ekki.
http://www.vantru.is/spjall/viewtopic.php?t=12563&postdays=0&postorder=asc&start=60
User: Einar K.
password: [xxxxxxxx][i]Ég breyti þessu svo snarlega. Enjoy your moment. Ég verð grýttur fyrir að hleypa trúmanni á lokaða spjallið.
Vantrú :: Log in
Share
Einar Kristinn bætir síðan við:
Hef ekki nefnt Bjarna á nafn þarna. Mat það strax í upphafi. Þér er velkomið að logga þig inn á mínum account til að jafna hlutina út. Er með hrikalegt samviskubit að hafa sett inn tveggja manna tal okkar þarna. Hérna er copy/paste af því ef þú sleppir því. Við höfum nefnilega samvisku þrátt fyrir að trúa ekki á allsherjarhjálpræðið fiðraða og afturgengna :
Þetta er staðreynd málsins. Sú útgáfa af málinu sem aðgerðarsinnarnir í Vantrú halda á lofti og hefur fengið rækilega umfjöllun í fjölmiðlum er því enn eitt dæmið um blekkingarnar sem þeir setja á svið í þessu máli og er í raun undrunarefni að þeir skuli treysta svo lengi á langlundargeð mitt hvað það varðar. Hvernig vantrúarfélögum tókst að umturna Facebook samskiptum Einars Kristins og Ingvars í þá sögu sem rakin er á vef Vantrúar er ráðgáta en lítið er að marka hana eins og svo margt annað sem kemur úr þessari átt.
Því má svo að lokum við bæta að samræður á um 150 manna spjallborði teljast seint til einkamála.
[i] Það er ákvörðun ritstjórnar Hugrásar að birta ekki lykilorðið.
Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply