[container]
Á undanförnum dögum hefur mikið verið fjallað um gagnrýnendur og þá stjörnugjöf sem verkið hefur fengið og hefur sú umræða farið fram bæði í dagblöðum og á samskiptamiðlum. Það sem vekur einna helst athygli er að einn gagnrýnandi gefur eina stjörnu á meðan annar gefur fimm. Þarna er himinn og haf á milli. Leiksýningar eru sérstakt listform og sem betur fer eru ekki allir á einu máli um hvernig með þær skuli farið. Hvernig væri listageirinn ef allir væru undir sama hatti. Það væri frekar leiðinlegt.
Í þessum pistli ætla ég ekki að leggja dóm á sýningu Borgarleikhússins á Húsi Bernhörðu Alba eftir García Lorca með stjörnugjöf heldur fjalla örlítið um mína sýn á þetta umdeilda verk.
Spænska skáldið García Lorca er eitt af mínum uppáhaldsskáldum og heillaðist ég af verkum hans sem unglingur. Mér fannst hin spænska dulúð streyma í gegnum ljóðin, hitinn, dökka yfirbragðið og spænskir gítartónar gáfu vissa hrynjandi sem mér fannst einnig mega finna í ljóðum Lorca. Íslensk skáld og þýðendur hafa tekið ástfóstri við þennan spænska skáldjöfur, enda hefur feykimargt verið þýtt eftir hann á íslensku.
Lorca skrifaði einnig leikrit og eru þrjú þeirra líklega með þekktustu leikritum spænskrar leikritasögu, Blóðbrúðkaup (1933), Yerma (1934) og Hús Bernhörðu Alba (1936 en var fyrst gefið út 1945 eftir dauða skáldsins). Hið síðastnefnda verður til umfjöllunar hér.
Sagan segir að Lorca hafi verið fremur veikburða barn og hafi því varið miklum tíma með kvenfólkinu á heimili sínu. Sagt er að þaðan kunni að koma hin næma innsýn hans í heim kvenna, í drauma þeirra, þrár og ekki síst höft þeirra.
Ofangreind leikrit hafa alllengi verið til í frábærum íslenskum þýðingum en töluvert er langt síðan íslensk leikhús hafa sett upp sýningu á leikriti eftir Lorca og því er fagnaðarefni að hann er ekki alveg gleymdur. Svo sem fram hefur komið í fréttum og leikdómum fer Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri óhefðbundnar leiðir við uppsetningu verksins og skýtur inn síðari tíma textum sem m.a. varða kvenfrelsisbaráttu. Þetta er djarflega gert og ekki furða að af þessu rísi nokkrir úfar með mönnum. En það læðist að mér sá grunur að menn hefðu betur getað metið og skilið uppfærslu Borgarleikhússins væru menn handgengari eða þekktu betur „hefðbundna“ uppfærslu á þessu verki.
Ég fór með dóttur minni 14 ára á sýninguna í Gamla bíó sunnudaginn 27. október en frumsýningin hafði verið vikuna áður. Húsið var nánast fullt þrátt fyrir einnar stjörnu dóm í Fréttablaðinu fyrr í þeirri viku.
Í stuttu máli sagt, allar fyrirfram ákveðnar skoðanir um hvað er heppilegt eða ekki, hvað má eða má ekki í leikhúsi hurfu eins og dögg fyrir sólu. Við mæðgur drógumst inn í atburðarás leikritsins og tæplega þriggja tíma löng sýningin var liðin áður en við vissum af svo bergnumdar vorum við. Hér var framinn magnaður seiður á sviði og leystur úr læðingi heilmikill kvenlegur frumkraftur.
Leikritið fjallar um Bernhörðu Alba og dætur hennar fimm. Húsbóndinn á heimilinu er nýlátinn og hefur Bernharða fyrirskipað átta ára sorgartíma samkvæmt gamalli fjölskylduhefð. Dæturnar, sem eru á aldrinum 20-38 ára, eru allar ólofaðar nema sú elsta, Angustine, en hún er lofuð ungum manni í þorpinu. Svona frelsissvipting kann ekki góðri lukku að stýra. Afbrýði, ástríða og frelsisþrá krauma í verkinu.
Kristín Jóhannesdóttir hefur fengið til liðs við sig vel valda listamenn. Ellefu leikarar taka þátt í sýningunni auk hluta af kór Margrétar J. Pálmadóttur, Vox Feminae.
Tónlist Hildar Ingveldardóttur Guðnadóttur er falleg og samlagast verkinu vel. Kórinn er skemmtileg viðbót og gefur sýningunni harmrænna yfirbragð, líkt og um sannan grískan harmleik væri að ræða. Kórmeðlimir taka virkan þátt í sýningunni og gera það með ágætum. Lovísa Ósk Gunnarsdóttir sér um sviðshreyfingar og hefur það væntanlega verið nokkuð snúið að hafa allan þennan fjölda af fólki á jafnlitlu sviði og Gamla bíó hefur upp á að bjóða. En það var falleg hreyfing í sýningunni og þátttakendur nutu sín vel á sviðinu.
Dæturnar fimm eru leiknar af Hörpu Arnardóttur, Unni Ösp Stefánsdóttur, Nínu Dögg Filippusdóttur, Maríönnu Lúthersdóttur og Hildi Berglindi Arndal. Allir voru þær mjög góðar í hlutverkum sínum. Athygli vakti þó að nýliðinn í hópnum, Hildur Berglind, gaf hinum reyndari ekkert eftir. Þær sýndu vel örvæntinguna og firringuna sem fylgir kúgun og óþolandi aðstæðum.
Bernharða var leikin af Þresti Leó Gunnarssyni. Leikstjórinn hafði á orði í viðtali í sjónvarpi að ekki fyrirfyndist nógu grimm íslensk leikkona til að fara með hlutverk harðstjórans Bernhörðu. Ekki er hægt að vera sammála þessu. Við eigum stórleikkonur sem hæglega gætu tekið að sér þetta hlutverk. Vera má að með því að setja karl í hlutverkið vilji leikstjórinn gefa í skyn að kúgunin sem leikritið fjallar um sé í eðli sínu karllæg og Bernharða sé afsprengi karlaveldis, enda talar hún um föður sinn og afa og þann aga sem ríkti meðan þeir voru á lífi. Móður sína hefur hún reyndar líka lokað inni svo hún verði ekki fjölskyldunni til skammar en sú gamla lifir í eigin heimi og býr að því leyti við nokkurt „frelsi“.
Þröstur Leó fer þó vel með hlutverkið. Hann reynir ekkert að gera sig að „konu“ heldur nægir að setja hann í kjól með hárkollu og Bernharða er fædd. Þótt Þröstur sé hreint ágætur í þessu hlutverki þá fer ég ekki ofan af því að það hefði verið áhrifaríkara að hafa konu í hlutverki Bernhörðu.
Með önnur hlutverk fara Sigrún Edda Björnsdóttir, Charlotte Böving, Esther Thalía Casey og Hanna María Karlsdóttir. Sigrún Edda og Charlotte fóru á kostum sem vinnukonurnar tvær. Esther Thalía var skemmtileg sem Prúdentía en fór einnig vel með önnur hluverk. Eins var með Lovísu Ósk sem lék Simone de Beauvoir í einu atriði. Hanna María Karlsdóttir lék ömmuna Maríu Jósefu mjög eftirminnilega.
Kristín Jóhannesdóttir hefur sem fyrr segir skrifað inn í verkið lítil leikatriði sem tengja okkur við nútímann og kúgun og frelsissviptingu kvenna. Mörg þessara atriða voru vel heppnuð og þjónuðu sem mótvægi við spænskan hugarheim Lorca á fyrri hluta síðustu aldar.
Leikmynd Brynju Björnsdóttur var áhrifarík. Stór og grá og yfirþyrmandi, mjög við hæfi. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur voru einfaldir að gerð en miðluðu vel sérleika hverrar persónu. Systurnar voru allar í mjög svipuðum kjólum en þó hver með sitt einkenni. Ein var með spelkur á bakinu, önnur hneppti kjólnum alltaf skakkt, enn önnur var með svart slör hangandi á eftir sér og svo mætti lengi telja. Kjóll Bernhörðu bar yfirbragð hefðbundinna gilda, þungur og efnismikill. Madame de Beauvoir var einstaklega elegant og hattur Prúdentíu afar glæsilegur.
Í stuttu máli sagt: áhrifamikil, skemmtileg og vel leikin sýning. Ekki varð betur séð en áhorfendur væru ánægðir. Þarna var sérstætt listaverk á fjölunum.
[/container]
Leave a Reply