[container]
Í Hólavallakirkjugarði, öðru nafni gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu, er gott að ganga um. Við dætur mínar förum meira að segja reglulega í lautarferð þangað með kakó á brúsa, bók og eitthvað gúmmilaði. Tyllum okkur við nýtt og nýtt leiði og látum fara vel um okkur. Má vera að þetta sé undarlegur lautarstaður. En í staðinn fyrir að arka í Húsdýragarðinn eða Skautahöllina á frídögum þá skellum við okkur í kirkjugarðinn, enda stutt að fara. Þetta er ævintýragarður okkar mæðgna.
Tíminn hægir á sér í gömlum kirkjugörðum. Stundum stendur hann jafnvel í stað. Við finnum sjaldgæfa friðhelgi sem er einkar mikilvæg í streitu nútímasamfélags. Í Hólavallakirkjugarði vaxa tré og gróður frjálslega og sveimérþá ef plastblómin ná ekki einnig að blómstra svona langt handan við hið venjubundna.
Eitt af mínum eftirlætis leiðum í garðinum góða er legsteinn Ólafar frá Hlöðum (1857-1933), en hún var ljósmóðir og skáldkona. Ólöf gaf út tvö ljóðakver og smásögur og var með fyrstu nafnkunnu skáldkonum á Íslandi. Á leiði Ólafar má finna áletrun sem vísar í ljóð eftir skáldkonuna, og hljóðar svo:
Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga
tárin eru beggja orð.
Ljóðið Tárin er grafið í marmara í miðjum Hólavallakirkjugarði, rís upp og svífur yfir garðinum. Orðið storð er mér sérstaklega hugleikið. Það merkir jörð, land, heimur. En eldri merking orðsins vísar í ungt og safamikið tré.
Auðvitað. Garðurinn rúmar í sinni grafarþögn mest megnis storð. Gleði og sorg. Hugsanir og um leið einhverja stórkostlega neind. Í kirkjugarðinum sameinast maðurinn jörðinni. Þau verða aftur eitt. Storð. Hringrás. Það er nú fallegt.
Já, í Hólavallakirkjugarði er gott að dvelja í sinni eigin nostalgísku storð með kakó á brúsa og lesa um það þegar Maddit og Beta fóru í lautarferð uppi í tré á afmælisdegi móður sinnar.
Soffía Bjarnadóttir
meistaranemi í ritlist
[/container]
Leave a Reply