Upp, upp, mín sál

[container] Flestir þekkja sögurnar um Sæmund fróða og Kölska þar sem Kölski reynir í sífellu að klófesta sál Sæmundar fróða. Samúð mín hefur alltaf, í laumi, legið hjá Kölska karlinum. Kölski er eitthvað svo mannlegur. Hann er gráðugur, pínulítið einfaldur, en alveg strangheiðarlegur. Alltaf lofar hann öllu fögru og stendur við það upp á punkt og prik. Það er Sæmundur fróði, maður kirkjunnar og guðs sem svíkur og prettar og platar Kölska greyið upp úr skónum.

Það sem dró þessar sögur upp úr myrkviði minninganna var ferð í messu með fermingarbarninu mínu. Foreldrum er uppálagt að sækja messur með börnum sínum, og svona til að veiða örugglega þá sem hunsa þessar tilskipanir (eins og mig, sem ekki er í þjóðkirkjunni) eru haldnir fundir í beinu framhaldi af messum til að ræða fyrirkomulag fermingarinnar.

Í messunni sem ég sótti sem sagt í haust talaði sóknarpresturinn fjálglega um þessa fallegu kirkju, sem þó væri aldrei eins falleg og þegar allt fólkið, allar sálirnar, væri þar innanhúss. Ég sver það, hann sagði þetta í alvörunni. Og þetta minnti mig á sálnaveiðarnar hans Kölska, nema í þetta skipti eru það kirkjunnar menn sem veiða sálirnar og beita til þess bellibrögðum.

Þjóðkirkjan heldur fast við þær reglur að börn séu skráð í trúfélög við fæðingu. Þjóðkirkjan beitir sér líka gegn því að fermingaraldur verði hækkaður. Nú er ég kannski bara svona tortryggin í eðli mínu, en ég efast um kristilegar forsendur þessarar afstöðu. Færri sálir þýða nefnilega minni peninga inn í batteríið.

Kirkjan hefur löngum verið á móti því að samkynhneigðir séu gefnir saman þar innan dyra. Samkynhneigðar sálir eru greinilega ekki jafn verðmætar og aðrar sálir í augum miðaldra risaeðluprestakarla – og kvenna – sem ráða ríkjum á kirkjuþingum. Þetta viðhorf olli þeim talsverðum vandræðum í síðasta biskupskjöri. Þá voru nefnilega tveir frambjóðendur líklegastir til að hreppa hnossið; karlmaður sem var hlynntur hjónabandi samkynhneigðra og kona. Þetta hlýtur að hafa valdið talsverðu hempuskrjáfi, en konan vann. Konan sem vill halda fast í „valfrelsi” presta sem kjósa að þjóna ekki samkynhneigðum.

Hér mætti velta því fyrir sér hvort núverandi biskup okkar Íslendinga styðji valfrelsi annarra ríkisstarfsmanna til að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Prestar eru ríkisstarfsmenn, embættismenn sem þiggja laun sín frá ríkinu. Ætli henni finnist að læknar megi líka velja svona út frá „siðferðisgildum”? Eða kennarar? Það er súrrealískt að spyrja þessara spurninga. Og enn súrrealískara að vera ekki alveg viss um að hún myndi svara neitandi.

Veiðimaðurinn í mínu prestakalli hefur enn ekki náð mér í snöru sína og reyndar hrakið mig enn lengra frá kirkjunni. Ég er nefnilega hrifnari af honum Kölska sem ásælist sál mína án allrar helgislepju, en klerkunum. Ríkisstarfsmönnum sem beita brögðum til að krækja í hana en útiloka aðrar sálir á forsendum sem ættu ekki að vera til á því herrans ári 2013.

 

Hildur Ýr Ísberg
meistaranemi í íslenskum bókmenntum

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *