[container]
Skáldsagan Englar alheimsins (1993) eftir Einar Má Guðmundsson er orðin hluti af „bókmenntaarfi“ þjóðarinnar. Kynslóðir hafa lesið hana sem skyldunámsefni í skólum og setningar úr henni eins og: „Kleppur er víða“ eru orðnar eins og málshættir í tungumálinu. Enn fleiri hafa séð bíómynd Friðriks Þórs eftir bókinni. Í leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar og Símonar Birgissonar er bókinni sýnd mikil virðing og bíómyndin er líka efniviður en hvort tveggja verkið er túlkað, ávarpað, það er prjónað við bókina og bíómyndin afbyggð – í miklu sjónarspili!
Kleppur er víða
Ég stillti mig um það af hetjuskap (þó ég segi sjálf frá) í síðustu umsögn minni um sýninguna Núna, að bera saman leikþættina þrjá af því að það var ekki sanngjarnt gagnvart hinum ungu höfundum. Það er hins vegar ekki hægt annað en bera saman bók Einars Más, bíómynd Friðriks Þórs og leikgerð og sýningu Þjóðleikhússins. Allir munu gera það. Þorleifur og Símon leggja áherslu á geðveiki Páls í Englunum og gera hana að þeim harmleik og gamanleik sem allt hverfist um. Skilningur þeirra er rómantískur þar sem tengsl hins geðveika við sköpun og tortímingu eru undirstrikuð. Páll (Atli Rafn Sigurðarson) er ofurnæmur, ljóðrænn, heillandi og húmorískur á góðum dögum en á vondum dögum er hann haldinn af ofskynjunum, ofsóknarbrjálæði og ótta. Allt þetta einkennir persónu Páls í bók Einars Más en samt verður saga hans mýkri þar af því að lesandi er leiddur inn í hinn mikla einmanaleika sem fylgir þessum unga manni.
Allir eiga sér uppáhaldsatriði úr bók og/eða mynd, flestir nefna senuna þegar Viktor, Páll og Óli bítill borða á Grillinu á Sögu. Þorleifur og Símon velja þessa frægu senu, ekki minnst úr bíómyndinni sem svífur yfir vötnunum í bókstaflegum skilningi, til að sprengja allt í loft upp í hryllilega fyndnu uppgjöri þar sem skotið er föstum skotum. Fólkið hans Páls getur ekki annað en staðið utan við heim hans og í Englunum er sagt frá því ofboði sem felst í því þegar Páll fær köst og umbreytist fyrir augum ástvina sinna. Bíómyndin „krúttvæðir“ hins vegar bæði Pál og vini hans. Í leikgerð Þorleifs og Símonar og túlkun Atla Rafns er martröðin hins vegar sýnd og fylgt eftir til enda. Þeir sýna líka ljóðrænu, ofsóknarbrjálæði og ofskynjanir, velja með öðrum orðum ýktar tilfinningar, miklar andstæður, stundum melódramatík en harmleikurinn tekur við.
Og þarna sveif Brecht yfir vötnunum, áhorfendur voru minntir á að þeir væru að horfa á tilbúinn veruleika, sviðsetningu og sjónhverfingar og þessari tuttugu ára gömlu bók var vippað inn í veruleikann í „spaugstofusenum“ sem fengu áhorfendur til að öskra úr hlátri. Ekkert var hafið yfir leikinn/leikaraskapinn.
Sjónrænt
Sýningin er marglaga og mjög metnaðarfull. Ysta lagið er kalt og hrátt, í leikmyndinni notar Vytautas Narbutas grindur sem sýna hús og herbergi, troðfull af hlutum sem glöggir áhorfendur gátu lesið mikla merkingu úr. Leikmyndin á miðsviðinu hafði svartan tóman geim baksviðsins fyrir aftan sig en fremst á sviðinu voru tvær litlar sviðsmyndir, hvor sínu megin, sem stóðu í flóði af bókum/mynddiskahulstrum sem augljóslega voru með veggspjaldinu af kvikmynd Friðriks Þórs framan á. Yfir leikmyndina var varpað myndbandi sem horfði á áhorfendur eða tvöfaldaði sýninguna og hið sama mátti segja um sjónvarpið í stofunni á heimili Páls sem sýndi bíómyndina og tvöfaldaði, bergmálaði stundum samtöl á sviðinu, Páli til mikillar armæðu. Þetta er póst-módernískur speglasalur sem endurskapaði um margt merkingarbrenglun hins geðklofa huga. Búningar Filippíu I Elísdóttur eiga mikinn þátt í að skilja sundur sjónræna upplifun kvikmyndar og sýningar og hér var valin meiri stílfærsla en í kvikmyndinni. Stundum fannst mér offramboð á áreitum sem kepptu innbyrðis– stundum komu áhrifin saman og urðu ótrúlega sterk; myndir, músik, orð sem mynduðu stundum „tableaux“, kyrrmyndir sem sitja á sjónhimnunni. Líka fannst mér lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar markviss og flott, hörð ljós og grimm úr öllum áttum þegar mest gekk á, flæðandi óraunveruleiki í lokasenu.
Leikrænt
Innra og innsta lag sýningarinnar er það sem leikararnir gefa og fá úr að moða. Það er ekki spurning að Atli Rafn fær hér sitt stærsta hlutverk til þessa. Páll límir sýninguna saman og leikritið er hans leikrit. Eins og Páll segir í forleik verksins (eftir minni): Þetta er mín sýning og ef þið dæmið hana neikvætt drep ég mig! Salurinn tók þessari svörtu fyndni og öðrum ámóta mjög vel og lét vel að stjórn. Samfélagið á Kleppi, þar sem geðlæknirinn Brynjólfur, Eggert Þorleifsson fer á kostum og er vinur og (leik)félagi strákanna, er á köflum eins og leikhús í leikhúsinu.
Páll er látinn fara allan skalann og sýna þær hliðar sjúkdómsins sem erfiðast er fyrir samfélagið að bera; ofbeldið, rökleysuna og kaldlyndið – en við sjáum lítið af hinum tilfinningasama Páli bókarinnar. Hann er bara nítján ára þegar hann veikist og hann bindur miklar vonir við hverja kærustu (í bókinni) á meðan hann heldur í einhverja von um að verða frískur. Ástarþrá hans og tilfinningasemi kom fram í ljóðum/ljóðabrotum sem féllu illa inn í þá hörðu mynd sem dregin var upp. Raunar var hlutur kvenna rýr í sýningunni sem endurspeglar karlaheima.
Það reynist vera móðirin sem lengst hefur í honum tilfinningaítök með jarðsambandi sínu og væntumþykju sem Sólveig Arnardóttir túlkaði fallega. Hún og systkinin ásamt fámálum föðurnum eru uppistaðan í skekktu sálarlífi Páls og það er endurspeglað í miklu vægi fjölskyldurýmisins í sýningunni. En sambandið við fjölskylduna verður æ óraunverulegra eftir því sem líf þeirra færist sundur og þetta er sýnt á áhrifamikinn hátt í sviðsmyndinni í síðasta þætti þar sem leikmyndin er opnuð út í tóm baksviðsins.
Ögrandi
Þegar Þorleifur Arnarsson sagði í Kastljósi að það ætti að setja sígildar sögur á svið aftur og aftur og oft samtímis til að brýna þau á samtímanum var ég ekki viss um hvað í þessu fælist. Hvort það þýddi að nóg væri skrifað? Ný verk væru ekki mikilvæg? Ég skil betur hvað við var átt eftir þessa flottu sýningu og túlkun Þorleifs og hans fólks. Leikgerðin og sýningin á Englum alheimsins varpar í raun nýju ljósi á bók Einars Más og getur opnað umræður um mál sem voru og eru brýn – með aðferðum sem aðeins leikhúsið hefur yfir að ráða. Til hamingju með magnaða sýningu!
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply