Á þriðju hæð til hægri

[container] Fjölbýli eru smækkuð mynd af samfélaginu. Þau krefjast gagnkvæmrar virðingar íbúa og umburðarlyndis. Fyrir neðan mig býr tónlistarunnandi. Upp úr hádegi, og stundum fyrr, fara tónarnir að smokra sér gegnum þrjátíu og fjögurra sentímetra járnhertu steinsteypuna, upp í iljarnar á mér og inn um hlustirnar. Það er undantekningartilfelli ef maðurinn spilar tónlist án þess að skrúfa fjóra fimmtu í botn. Þetta er ákveðið form óbeinna reykinga. Óbein hlustun. Hegðun nágranna míns myndi áreiðanlega æra óstöðugri mann en mig. Ég umber hávaðann þó líklega fyrst og fremst vegna þess að svo vill til að við nágranni minn höfum sama smekk á tónlist. Það er auðveldara að vera umburðarlyndur gagnvart þeim sem líkjast manni sjálfum. Sæt er lykt úr sjálfs rassi.

Sá sem tekið hefur þátt í rekstri húsfélags er með pungapróf í stjórnmálum. Þar þarf að kalla til fundar, kjósa í embætti, leggja fram tillögur og kvarta undan fjárskorti – narta í harðar smákökur – deila um forgangsröð og svo framvegis. Þeir sem búa á efstu hæð tala um að laga þakið en þeir sem búa á jarðhæðinni vilja endurbætur í garðinum. Allir eru sammála um að eitthvað þurfi að gera í gluggunum. Enginn talar um kjallarann. Þar er búið að breyta geymslum í leiguherbergi, með sameiginlegu klósetti undir stiganum og sturtu í þvottahúsinu. Kjallarafólkið: Pólskur verkamaður, sómölsk stúlka, ráðvilltur drengur með rokkstjörnudrauma, og eilífðarstúdent með lánasjóðinn á bakinu eiga sér engan talsmann á húsfundum. Hvaða máli skipta þau sem eiga hvorki þak, garð, né glugga?

Allt frá því ég flutti í húsið fyrir fáeinum mánuðum hefur sérkennileg lykt loðað við stigaganginn. Fyrst hélt ég að þetta væri eðlilegur sambýlisfnykur, afleiðing þess að ólíkt fólk byggi í sama húsi og sumt væri nokkuð tilraunagjarnt í eldhúsinu. Hér var samankomið fólk af öllum sortum. Hjúkrunarfræðingur, drykkjumaður, listakona, endurskoðandi, verkamaður, bifvélavirki, bisnesskona, kaupmaður og svo náttúrlega kjallaraverurnar.

Nú hefur lyktin versnað til muna og ég veit ekki hvort hún er meira í ætt við mygluosta sællífisþegans eða uppsölur ógæfumannsins. Kannski fetar lyktin vandrataðan stíg milli hins háa og lága og sækir sér innblástur frá báðum? Ég er enn að læra á hið esóteríska regluverk sem rótgrónari íbúar hússins hafa sniðið sér og veit því ekki hvert ég á að snúa mér. Lykt hefur ansi proustísk áhrif á mig og slysist ég til þess að sjúga upp í nefið í stigaganginum er illt í efni. Þetta er komið á það stig að helst þarf ég að fylla lungun úti á stétt og láta það duga þar til ég er sloppinn inn til mín á þriðju hæð til hægri. Blessunarlega hefur lyktin ekki smitast innum dyrnar mínar, enn sem komið er.

Fjölbýli eru smækkuð mynd af samfélaginu. Þau krefjast gagnkvæmrar virðingar íbúa og umburðarlyndis. Það má hins vegar spyrja sig hvenær gagnkvæm virðing og umburðarlyndi hætta að borga sig? Eitt er alveg á hreinu. Dagurinn sem nágranni minn spilar Eagles verður dagurinn sem ég bið hann að lækka. En á meðan lyktar sameignin. Á maður að bíða eftir því að lyktin læðupokist inn um dyrnar, þar sem maður elur börnin sín, borðar, sefur og baðar sig?

Meðalmanneskja getur haldið í sér andanum í tvær mínútur. Það dugar upp þrjár hæðir. Eitt sinn þegar ég skellti á eftir mér dyrunum og svelgdi í mig kærkomið loftið datt mér í hug að það væri ástæðan fyrir því að ekki væru reist fleiri háhýsi hér á landi. Svo maður geti örugglega hlaupið inn til sín og lokað á umheiminn án þess að þurfa að anda að sér umhverfinu. Svo enginn neyðist til að minnast á skítalyktina sem allir finna.

Kjartan Már Ómarsson,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *