Sólin er farin að hækka á lofti og hún fer ekki í manngreinarálit heldur skín á allt og alla, líka sjálfstæðisflokksmenn í Grafarvogi. Hún skín einnig á ruslið sem við Íslendingar fleygjum í hugsunarleysi út um alla borg hvern einasta dag. Hið eina góða við snjóinn að mínu mati er að hann hylur ástandið sem þessi rusladreifing veldur. Þegar hlánar blasa afleiðingar hennar við. Í norðangjólunni veifa plastpokar, matvælaumbúðir og jafnvel heilu dagblöðin til okkar frá runnum og girðingum. Þegar hvessir fyrir alvöru stendur þetta umhverfisskraut pinnstíft út í loftið eins og fánarnir á Bónus og bensínstöðvunum. Skyldi það vera að reyna að senda okkur skilaboð?
Það er staðreynd að miðborg Reykjavíkur lítur út eins og ruslahaugur hvern einasta morgun, sérstaklega þó um helgar. Í sjónvarpsfréttum hafa birst myndir úr miðborginni teknar í þann mund sem hreinsun er að hefjast á laugardagsmorgni. Myndskeiðin sýna ekki einungis hrottalegan sóðaskap og virðingarleysi fyrir umhverfinu. Þau sýna líka ofgnótt og sóun. Fólkið sem svalar skemmtanaþörf sinni í miðbænum virðist hafa nóg á milli handanna. Hálfétnar pylsur, samlokur og önnur matvara svamlar um í hafi sígarettustubba, umbúða, bjórdósa og glerbrotahauga að ógleymdum æluhrúgunum. Ég velti því fyrir mér hvort fólkið sem skilur svona við miðborgina okkar eftir næturskemmtun sína sé sama fólkið og daglega grætur og barmar sér í netmiðlum undan lánabyrði og bölvar svívirðilegri stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum.
Fyrir um það bil fjórtán árum bjó ég ásamt þáverandi bónda mínum norður í landi. Við ætluðum að fara til útlanda og gistum eina nótt í bænum hjá syni okkar og tengdadóttur. Þau bjuggu þá í miðborginni, skammt frá Menntaskólanum í Reykjavík. Þetta var á föstudagskvöldi og við gengum til náða upp úr miðnætti. Við vorum alveg að festa svefninn þegar sinfónían hófst, rétt utan við gluggann hjá okkur. Þetta var margradda kór. Textarnir voru þó ekki ýkja fjölbreyttir; ástarjátningar, kraftmikil en nokkuð ómstríð nafna-sóló, áköll og heitstrengingar en flytjendur drógu hvergi af sér hvað tónhæðina snerti. Sveitavargurinn þurfti augljóslega ekki að láta sig dreyma um endurnærandi svefn þessa nóttina. Þegar kettir miðborgarinnar tóku undir með sínu lagi má segja að hljómkviðan hafi náð hástigi. Þetta hélst nánast óslitið þar til sjö um morguninn. Þá höfum við líklega dottað augnablik því allt í einu hrukkum við upp vegna hávaða af áður óþekktri stærðargráðu. Það var rétt eins og allir steinsteypubrjótar Helvítis hefðu verið gangsettir samtímis þarna úti. Svo kom í ljós að þetta voru hreinsunarvélar borgarinnar mættar til starfa. Á tíunda tímanum ætluðum við að yfirgefa húsið. Urðum þó að hinkra smástund því gulllitað úðaský varnaði útgöngu. Þar var að verki einn af góðkunningjum næturinnar sem lét bununa ganga kröftuglega á húsvegginn milli útidyranna og eldhúsglugga kjallaraíbúðarinnar. Hjá mér vöknuðu hugrenningatengsl við Laxdælu en þar segir af heimilismönnum sem voru dreittir inni. Þarna kom í ljós að einnig er möguleiki að hlanda fólk inni.
Nú hika þessir brunnmígar ekki lengur við að láta vaða beint á rúðurnar. Alls konar úrgangslosun er í miklum uppgangi. Heyrst hefur að Egill Helgason og fleiri íbúar miðborgarinnar standi í ströngu um helgar við að moka mannaskítshlössum úr görðum sínum. Fréttum af alvarlegu ofbeldi og hnífabrúki fjölgar og varla líður nokkur helgi án þess að ráðist sé á blásaklaust fólk. Þetta er hin víðfræga borgarmenning okkar Íslendinga. Þetta er næturlífið rómaða sem hefur komið Reykjavík og Íslandi öllu á kortið.
Stór hluti íslensku þjóðarinnar ver háum upphæðum í útlit sitt. Skyldi fitusog, gervibrjóst, sixpakk og ljósabekkjabrúnka fylla tómið í lífi okkar eða væri kannski ráð að staldra við? Staldra við og reyna að virða okkar eigin skrokk eins og hann er. Beint af skepnunni eins og það er kallað. Ef manneskjan lærir að bera virðingu fyrir sjálfri sér og líkama sínum þá getur hún líka borið virðingu fyrir öðru fólki svo ekki sé minnst á virðingu fyrir umhverfinu.
Ásdís Þórsdóttir,
meistarnemi í ritlist.
Leave a Reply