Dýrin í Hálsaskógi eru afskaplega þekkt dýr. Börn jafnt sem fullorðnir kunna stjórnarskrána þeirra utanbókar. Fyrsta grein þessarar stjórnarskrár hljóðar svo:
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
Þetta finnst flestum afskaplega fallegt. Það finnst mér ekki. Mér finnst þetta vera afskaplega heimskuleg regla. Allir eiga að vera vinir. Allir verða að vera vinir. Ekki vingjarnlegir, almennilegir eða kurteisir, heldur eiga allir að vera vinir. Þessi stjórnarskrá er samin af Bangsapabba (hinu föðurlega yfirvaldi) og Marteini skógarmús (fulltrúa okkar innra regluverks) og lögð fyrir lýðræðislegan fund dýranna í Hálsaskógi. Stjórnarskráin er samþykkt af meirihlutanum en þó heyrast mótmælaraddir. Hinn stóri og sterki Bangsapabbi þvingar rándýrin (ugluna, refinn og broddgöltinn) til hlýðni.
Er hægt að þvinga einhvern til vináttu? Hvað með sjálfstæðar skoðanir fólks? Mér líkar ekki vel við alla. Ég vil ekki vera vinur allra dýranna í skóginum. Ég vil gjarnan koma vel fram við alla, af kurteisi og hlýju en ég vil ekki hleypa öllum inn í minn innsta hring. Ef þau lög yrðu sett á Íslandi að ég yrði að vera vinur allra á landinu yrði ég ekki kát. Og hversu sönn er vinátta sem á enga innistæðu í sálinni?
Í tilefni hundrað ára afmælis Thorbjörns Egners var nýtt leikrit sett upp á litla sviði (bakscenen) Nationaltheatret í Osló. Leikritið er eftir Gunnar Germundsson og er leikstýrt af Kim Haugen. Það nefnist Hakkebakkekrakket, eða Hálsaskógarhrunið og fjallar um endurreisn rándýranna. Rándýrin eru orðin svöng og þreytt á harðstjórn Bangsapabba og Marteins (sem í leikritinu er kallaður Sjefsmusa). Þau taka til sinna ráða, kaupa upp grænmetislager skógarins og nota hungur hinna dýranna til að þvinga í gegn lagabreytingu, sem felur í sér að þau megi éta önnur dýr – ef þau verði.
Leikritið felur þannig í sér hrun Hálsaskógar og þeirra gilda sem hann stendur fyrir í hugum fólks. Í leikdómi einum stóð að sennilega hefði Egner ekki orðið hrifinn af þessu verki og ég held að það sé nokkuð nærri lagi. Þetta verk gleður mig. Það gleður mig alltaf þegar spurningarmerki er sett við hluti sem í hugum okkar eru sjálfsagðir hlutar af menningunni. Sænski leikstjórinn og femínistinn Sofia Jupither gladdi mig með því að skoða Kardimommubæinn og velta fyrir sér hlutverki Soffíu frænku. Leyfilegt er að skoða Egner, þó verk hans séu bæði gömul og vinsæl – og hluti af hefðinni. Það má gagnrýna hefðina.
Egner hefði líklega ekkert orðið hrifinn af því að vera gagnrýndur. Hann hafði það orð á sér að vera yfirmáta stjórnsamur, hafa komið á æfingar og leiðrétt, lagað og snyrt sýningarnar þar til þær voru honum að skapi. Hann sviðsetti sig sem ígildi Klifurmúsarinnar, hinn glaða listamann en hefur líklega frekar líkst Mikka, stjórnunarfíkli með meiru, sem ekki getur tekið þátt í björgunarstarfi dýranna án þess að fá að vera við stjórnvölinn.
Ég hef alltaf haft svolitla samúð með Mikka ref. Hann er neyddur til að verða vinur, grænmetisæta og góður strákur, þvert á eðlið. Í lok leikritsins brosir hann, en hversu einlægt er brosið og hversu lengi er það að stirðna? Hvað gerir maður þegar maður brosir? Maður sýnir tennurnar. Og mig langar að sýna tennurnar þegar ég hugsa um fyrstu grein stjórnarskrár dýranna í Hálsaskógi. Í henni felst ógnun við mitt einstaklingsfrelsi, við leyfi mitt til að mynda mér mínar eigin skoðanir á öðrum. Ef valið er tekið frá okkur, hvers virði er þá vináttan?
Hildur Ýr Ísberg,
meistaranemi í íslenskum bókmenntum.
Leave a Reply