Fyrra bréf Péturs frá Róm

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar


Um leið og ég sendi samstarfsfólki og lesendum Hugrásar góðar kveðjur héðan úr borginni eilífu við Tíberfljót þakka ég Guði og háskólayfirvöldum fyrir það að rannsóknarleyfin voru ekki slegin af í niðurskurði undanfarinna ára. Það er mikilvægt fyrir kennara kominn á sjötugsaldur að fá tækifæri til endurnýjunnar og andlegrar uppbyggingar – ekki síður en fyrir þá sem yngri eru.  Það er því sjálfsagt að verða við beiðni sviðsforseta um pistil.

Þetta er í sjötta skiptið sem ég kem hingað en aldrei hef ég fengið jafn gott tækifæri til að njóta alls þess sem þessi borg hefur upp á að bjóða fyrr en nú og þá á ég við söfnin, byggingarnar, listaverkin og söguna,  auk  guðfræðifyrirlestra hjá frábærum kennurum.  Borgin er pólitísk og trúarleg miðstöð Rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem er alþjóðleg kirkja í orðsins fyllstu merkingu og byggir á  hefðbundnum kirkjustrúktur með biskupum, prestum, umdæmum og sóknum auk ýmissa reglna af ólíkum hefðum og  tímum kirkjusögunnar. Hingað liggja því allir þræðir þessar flóknu stofnunar. Stjórnstöðin  í  Vatikaninu er nefnd Kúría og samanstendur af hinum ýmsu stjórnardeildum, nefndum og ráðum. Yfir þessu öllu er svo biskupinn í Róm sem er faðir (páfi) allrar kirkjunnar. En Kúrían er ekki bara biskupsstofa  heldur stjórnarráð sjálfstæðs ríkis sem nú hefur að vísu aðeins lítinn hluta Rómarborgar á valdi sínu. En Vatikanið getur beitt sér í alþjóðapólitík og hefur gert það eins og dæmin sanna.

Fyrir siðaskipti voru völd og áhrif kirkjunnar mun meiri og þess vegna er sagan svo rík hér. Hún byggir á tilkalli því sem biskupinn í Róm hefur gert sem verndari samanlagðrar kristni og rakin er til þess að Kristur valdi Pétur úr hópi postulanna til þess að vera  kletturinn sem hann byggði kirkjuna á. Pétur leið píslarvætti í Róm eftir að hafa verið leiðtogi safnaðarins þar. Á þessum forsendum hvílir það leiðtogahlutverk sem páfinn hefur gegnt í sögunni, í kirkjumálum og pólitík fram á okkar daga.

Það er táknrænt en í samræmi við forna hefð kristninnar að byggja kirkju yfir gröf píslarvotts eða dýrlings. Þannig lét Konstantínus mikli reisa kirkju yfir gröf Péturs í upphafi fjórðu aldar. Áður hafði þar verið minnismerki og helgur staður pílagríma en lík postulans sem hafði verið krossfestur árið 64 var dysjað í jaðri leikvangs sem Neró keisari lét gera. Kristnir menn vissu hvar gröfin var og jarðsettu sína látnu í nánd við hana. Þegar farið var að huga að þessu í rannsóknarskyni komu í ljós bein í miðjum þessum kirkjugarði sem gátu verið af manni á sama aldri og postulinn og þessi bein eru nú varðveitt þar sem gröfin var í þar til gerðum kistli. Meiri líkur en minni virðast vera fyrir því að þetta séu raunverulega bein postulans en þetta er mikilvægt fyrir trúaða kaþólikka. Saga siðbreytingarinnar sýnir hve mikla pólitíska þýðingu helgir munir og allt sem minnir á helga menn og konur og  píslarvotta trúarinnar geta haft.  Frá þessu öllu er sagt skilmerkilega af leiðsögumönnum sem fara með gesti um grafhvelfingarnar undir kirkjunni. Í lok slíkrar ferðar er einmitt komið  í litla kapellu undir háaltari kirkjunnar sem helguð er postulanum sem er þá í vissum skilningu helgasti staður þessarar miklu kirkju sem reis á 16. öld á sama grunni og kirkja Konstantínusar hafði verið.

Eins og kunnugt er hafði þýski Ágústínusarmunkurinn og guðfræðiprófessorinn Mateinn Lúther ýmislegt við þetta að athuga og eitt leiddi af öðru þar til fylgjendur hans stofnuðu til nýrrar kirkjudeildar.  Hann kom á sínum tíma til Rómar og leist þá ekkert á bygginguna né blikurnar í  trúarlífi borgarinnar, en ekkert var til sparað til að gera kirkjuna eins glæsilega úr garði og mögulegt var. Aflátsbréfin sem voru seld urðu kornið sem fyllti mælinn fyrir Lúther og þýska ráðamenn sem sáu ofsjónum yfir fjárstreyminu til Rómar.

Nú er annar þýskur guðfræðiprófessor hér í borg sem áður bar nafnið Joseph Ratzinger. Sá situr á stóli Péturs postula og heitir Benedikt XVI. Hann hefur ekki gert uppreisn á móti kirkju sinni heldur  helgað henni alla sína krafta og varið hana af öllum mætti allt frá því að hann tók að sér að koma skikki á innri mál hennar sem voru í upplausn eftir mikið frjálslyndi sem braust fram á kirkjuþingi sem kallað er Annað Vatikanþingið og var haldið í upphafi sjöunda áratugs síðustu aldar.   Hann kvaddi söfnuð sinn nýverið á Péturstorginu í hádegisbænum sem kenndar eru við Maríu guðsmóður. Kl. 12.00 opnaðist glugginn að vinnustofu hans í höllinni við torgið og hann ávarpaði mannfjöldann og lagði út af guðspjalli dagsins sem var um ummynd Krists á fjallinu samkvæmt Lúkasarguðspjalli. Þar  segir frá því er Kristur tók þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á fjallið til að biðjast fyrir. Þar birtis hann þeim í dýrð Guðs ásamt þeim Móse og Elía spámanni. Páfi fléttaði kveðjuorð sín inn í útleggingu guðspjallsins og sagðist nú draga sig í hlé til bæna og til að geta verið á nánara samfélagi við meistara sinn, nú væri rétti tíminn því hann væri orðinn gamall og þreyttur. En hann tók það líka fram að hann væri ekki að yfirgefa kirkjuna heldur yrði hann enn frekar nálægur henni  andlega í bænum sínum.

Fyrir rúmum tveimur árum skundaði ég eldsnemma morguns yfir Péturstorgið til þess að ná í messu í áðurnefndri kapellu Péturs postula. Þá var aðeins ljós í tveimur gluggum í höllinni við torgið og annar þeirra var einmitt glugginn sem hinn aldraði páfi birtist í veifandi til mannfjöldans. „Þetta er dæmigert“, sagði fylgdarmaður minn þá. „Þetta eru glugganir að íbúð páfa, hann er búinn að fá sér morgunverð og byrjaður að vinna“.  Benedikt páfi hefur skilað af sér góðu æfistarfi og á skilið fá að eiga sína bænadaga á fjallinu helga með meistara sínum ótruflaður af daglegu stjórnunaramstri. Vonandi hefur hann heilsu til að halda áfram því merka fræðistarfi sem hann er þekktur fyrir. Þær eru fjölmargar bækurnar sem komið hafa út eftir hann í hinum ýmsu greinum guðfræðinnar. Vart er það námskeið kennt t.d. í guðfræðideild Agelicum háskólans hér þar sem bók eftir hann er ekki annað hvort á lista yfir kennslubækur eða hliðsjónarefni.

Ljóst er að heilsu páfans hefur hrakað undanfarin tvö ár, enda mikið mætt á honum eins og tíundað hefur verið í fréttum.  Það kom samt öllum á óvart þegar hann tilkynnti það fyrr í mánuðinum að hann mundi láta af embætti í lok liðins mánaðar.  Með þessari ákvörðun er brotið blað í sögu páfadóms enda er rúmlega hálft árþúsund síðan páfi hefur sagt af sér embætti og þá var það hluti af pólitískum samningum. Félagi minn sem vinnur í Vatikaninu og borðar hér í prestahúsinu þar sem ég bý við Piazza Navona sagði að það hefðu sennilega bara tveir nánir samstarfsmenn hans vitað um þessa fyrirætlun, í hæsta lagi þrír. Miklar konspirasjónsteoríur hafa verið í gangi um þessa afsögn en mér finnst það nokkuð ljóst eftir að hafa hlustað á tal manna sem til þekkja að ástæður páfans séu fullgildar. Hann er þreyttur og slitinn og sér fram á það að kirkjan þarf yngri og öflugri mann með fulla krafta til þess að stjórna þessari margflóknu stofnun þar sem ýmislegt mætti ganga betur  eins og gengur á stóru heimili. Ratzinger sóttist ekki eftir þessu embætti og hann er þekktur fyrir raunsæi og  hefur sjálfsagt ekki litið á sig sem heilagan mann þótt hann gegndi þessu valdamikla embætti. „Ég er ekki ómissandi,“ sagði hann og talið er að ýmsir aðrir í stjórnstöð kirkjunnar ættu að taka þetta til sín.

Skrifað á Matthíasarmessu


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *