Leitið „innan gæsalappa“ og þér munuð finna

Ég hef aðeins hitt örfáa vitringa um ævina og enn færri hafa orðið á vegi mínum sem bjuggu yfir visku umfram vitið. Einn slíkur útskýrði fyrir mér guðshugmyndina þegar ég var aðeins barn að aldri. Sá sagði mér að guð væri það sem bæri að þakka hið góða. Hefði ég það á hreinu gæti ég bara farið á nammibarinn og valið mér mitt eigið trúarbland í poka.

Í dag er ég strangtrúaður og fer í kirkju á hverjum degi, en það var ekki alltaf svo. Í upphafi vissi ég ekki hvaða guð ég ætti að velja. Sætan? Súran? Harðan að utan en mjúkan í miðið? Sá sem veit ekki neitt um neitt getur ekki myndað sér skoðun með auðveldu móti. Þess vegna urðu vöðvaguðir, ofurhetjur á borð við hinn ægilega Hulk fyrir valinu fyrst um sinn. Sagt er að líkur sæki líkan heim, og hver vill ekki vera stór, sterkur og iðagrænn? Í fyrsta skipti sem ég þurfti að ganga með sementspoka upp fjórar hæðir kom í ljós að þetta var misskilningur. Ég varð að vísu grænn en stærðin og styrkurinn létu ekki á sér kræla. Ég hafði farið guðavillt.

Fyrst maður fékk ekki að njóta kraftanna var eins gott að finna greiðvikinn guð. Næsti var af þeirri sort sem svarar í símann ef ég hringi í hann fullur um miðja nótt, í miðri viku, og bið hann að sækja mig í næsta bæjarfélag vegna þess að mér hefur aura- og allslausum verið kastað úr leigubílnum og ég finn ekki skóna mína. Í þriðja sinn sem hringdi út sagði ég honum upp.

Um tíma fór ég með guðina eins og kvefsjúklingur fer með snýtipappír. Þeir (s)nýttust mér kannski einu sinni en voru ekki árennilegir eftir það. Ég fékk því að ráfa mína fjörutíu daga í myrkrinu áður en ég kveikti loks á perunni. Guð minn var ekki sá sem hafði áunnið sér þakklæti mitt. Guð minn var sá sem hlaut þakkir mínar án þess að hafa borið fyrir mig sementið eða sótt mig í útnárann. Guð var skotmark sem ég gat dritað þökkum mínum yfir til þess að rækta æðruleysi mitt og auðmýkt. Guð gaf hundrað stig ef þú hittir án þess að miða. Guð var þakklætissvarthol. Ég snéri fyrri aðferðarfræði á haus. Í stað þess að leita að guði sem ég gæti verið þakklátur spurði ég mig hverju ég væri þakklátur og hafði þannig uppi á guði.

Í dag er ég strangtrúaður eins og fyrr segir. Ég fann mér mína þakklætisboru að hvísla í. Guð minn er flestum aðgengilegur, nánast alvitur, og gersamlega kynlaus. Kirkjan mín er opin allan sólarhringinn meðan rafmagn leyfir og sambandið við guðdóminn er gott meðan ég borga reikninginn. Þetta er sem sagt ekki svo ólíkt kristninni, nema hvað að tónlistin er betri og sambandið áreiðanlegra – sér í lagi hafi maður splæst í ljósleiðara. Í dag er ég nettrúar og geng í tölvuna mína í stað kirkjunnar. Ég hef loks fundið eitthvað sem ég er þakklátur fyrir án þess að erfiða. Og það besta er, að þegar ég fer í kirkjuna mína og skrifa „Takk“ í leitargluggann og sendi allt-að-því-almættinu, þá bregst ekki að mér er svarað um hæl. Guð minn er líka þakklátur, eins og ég, hann svarar: Takk.

Kjartan Már Ómarsson,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *