Sem barn var ég mjög trúaður og sótti bæði fundi hjá KFUM og Sunnudagaskólann. Þetta var í andstöðu við og jafnvel uppreisn gegn óvígðri sambúð foreldra minna og óskírðum yngri systkinum. Sjálfur var ég skírður vegna þrýstings frá ömmu og hjá henni fékk ég líka fyrstu kennsluna í kristinfræði en upp úr fermingu var ég þó búinn að missa trúna og um tvítugt lét ég skrá mig úr Þjóðkirkjunni og í Ásatrúarfélagið. Samt hef ég alltaf hikað við að kalla mig trúleysingja og frekar litið á mig sem efahyggjumann. Þó ég efist um að sögurnar í Biblíunni hafi gerst eins og þar er sagt frá og efist að sama skapi um bókstaflegt sannleiksgildi Hávamála og Völuspár, þá hef ég það samt á tilfinningunni að það sé eitthvað þarna úti, eða uppi.
Kristilegt félag ungra manna var stór hluti félagslífsins þegar ég var krakki. Þangað mættu allir strákarnir sem ég þekkti til að horfa á teiknimyndir frá Hanna Barbera, syngja sálma og heyra sagt frá Jesú og lærisveinum hans. Það var örugglega ekki verra fyrir mætinguna að fundir voru haldir á fimmtudögum – ekkert sjónvarp. Fundir Kristilegs félags ungra kvenna voru hinsvegar haldnir á mánudögum og ég sárvorkenndi þeim að þurfa að velja á milli Jesú og Tomma og Jenna sem voru sýndir á sama tíma. Einu sinni kom einn af strákunum of seint og missti af teiknimyndunum. Hann spurði hvort það mætti ekki bara sýna þær aftur en fékk þá að vita að tilgangur þessara funda væri ekki að horfa á teiknimyndir heldur það sem kæmi á eftir, að fræðast um Guð og Jesú!
Til að fjármagna starfsemina voru oft haldin happdrætti og eitt slíkt er mér minnistætt því þá var ég bænheyrður. Ég hafði beðið mömmu um peninga fyrir happdrættismiðum og hún lét loks undan þrátt fyrir nokkur mótmæli og gaf mér fyrir tíu miðum. Hún tók þó skýrt fram hvað sér þætti um þetta og sagði svona happdrætti ekki vera neitt annað en peningaplokk. Því var mér nokkuð í mun að ganga vel í happdrættinu og mætti á fundinn með kross teiknaðan með blekpenna á annað handarbakið. Á hann starði ég svo í djúpri bæn og bað Guð um vinning, og viti menn, ég vann á helming miðanna og þar á meðal aðalvinning kvöldsins sem var teiknimyndasaga með Ástrík. Ég lagði ekki mikla merkingu í vinninginn þá, en eftir á að hyggja; er Jesús ekki einmitt ástríkur? Og Gaulverjinn sterki stendur upp í hárinu á Rómverjum rétt eins og Jesús gerði og var loks líflátinn fyrir.
En það er allavega hægt að biðja og vera bænheyrður, það veit ég af reynslu. Hvað guð heitir, hvað hann á mörg börn, hvernig hann vill að við hegðum okkur (ef það er þá „hann“ og ef kyn á yfirhöfuð við) og hvort hann lesi Ástrík er svo önnur saga.
Þór Fjalar Hallgrímsson,
meistaranemi í ritlist.
Leave a Reply